Þriðja umferð Ólympíumótsins í skák fór fram í dag í Batumi í Georgíu. Rútína er að komast á skipulag mótsins og menn farnir að stimpla sig inn á góða tíma til að ferðast á skákstað og fleira slíkt. Öryggisleit og fleira hefur einnig gengið betur.
Opinn flokkur:
Andstæðingar Íslendinga í opna flokknum í dag voru Ísrael. Þeir búa yfir þéttu liði og voru nr. 31 í stigaröðinni. Boris Gelfand fer fyrir sveit þeirra en hann er að sjálfsögðu goðsögn í skákheiminum og á marga aðdáendur hér á landi, þar á meðal Braga Þorfinnsson stórmeistara. Í liðinu eru einnig miklir reynsluboltar í þeim Smirin og Sutovsky ásamt ungum og stigaháum skákmönnum.
Helgi Áss Grétarsson fékk það verkefni að mæta Smirin á fjórða borði. Helgi beitti tískuvörn (modern defence) sem er vandmeðfarin en Helgi fékk engu að síður fína stöðu samkvæmt tölvureiknum.
Svarta staðan á að vera fín hér ef hann leikur 15…dxe5! Svartur þarf reyndar að sjá fyrir nokkuð hugmyndaríka vörn. Eftir 16.dxe5 Rxf5 17.Bxf5 á svartur 17…Ba6!! ansi kvikindislegan millileik og tekur svo annaðhvort á f1 eða f5. Línurnar eru reyndar ansi vélrænar þar sem t.d. 18.Dc2 Bxf1 19.Kxf1 þá er besti leikurinn 19…b3! sem gerir svörtum kleyft að skáka á d1 og c2 í ákveðnum varíöntum.
Í stað þess lék Helgi 15…gxf5? og eftir 16.e6! er svartur hreinlega með tapað tafl og Helgi tapaði nokkrum leikjum síðar. Slæmt tap en Helgi verður fljótur að vinna sig aftur inn í mótið.
Héðinn fékk það verðuga verkefni að eiga við Boris Gelfand á fyrsta borði.
Héðinn hafði hvítt og fórnaði snemma peði í Nimzo-indverskri vörn. Upp kom snörp staða en því miður fataðist Héðni flugið.
Hér lék Héðinn 16.Rd6? sem tölvuforritin hafna og segja svartan fá hartnær unnið. Þess í stað virðist vera eins og hvítur geti nánast þvingað jafntefli með 16.Dh4!? til dæmis gæti framhaldið orðið 16…De7 17.Bd3 h5 (til að eiga …f5) 18.Dxh5 f5 19.Bxf5 exf5 og svo 20.Hxd7 með þráskák f6/g5. Einnig er t.d. 16..Bd5 jafntefli eftir 17.Hxd5 exd5 18.Bd3 f5 19.Rg5 Rf6 20.Dh6 Dd6 21.Bxf5 og svo þráskák eftir Bxh7 og biskupinn fram og til baka.
Þarna voru Ísraelar komnir í 0-2 og fljótlega eftir þetta var þráleikið hjá Hannesi gegn Sutovsky. Eftir kóngindverska vörn skiptist mjög hratt upp á mönnum og upp kom hróksendatafl þar sem Hannes gat í raun ekkert gert þrátt fyrir að hafa betri peðastöðu.
Sigur Ísraela var þar með í höfn og því skiptu úrslitin í skák Jóhanns því engu. Jóhann var allan tímann með aðeins verra en var mjög nálægt því að jafna taflið að fullu og líklegast hefði svartur haldið með „réttri“ taflmennsku. Praktísku vandamálin voru hinsvegar of mörg og Rodshtein náði að knýja fram sigur.
Skákir karlanna eru hér að neðan, hægt er að velja skák í flettiglugganum (…)
Kvennaflokkur:
Kvennaliðið mætti alþjóðlegu liði líkamlega fatlaðra (IPCA). Þær voru nr. 83 í stigaröðinni.
Fyrst til að klára var Nansý á 3. borði. Hún hafði svart gegn hinni rússnesku WFM Aleksandrova sem tefldi Colle-system. Nansý var skynsöm, lék g6 og Bg7 og dró vígtennurnar úr biskup hvíts á d3. Í framhaldinu kom svo e5 hjá Nansý og hún jafnaði taflið auðveldlega. Sú rússneska fór í framhaldinu í vafasaman peðastorm á kóngsvængnum sem skildu eftir mikla veikleika í peðastöðunni.
Hér lék Nansý 20..De5! og eftir 21. Bg3 Df6 er ljóst að hvítur er í vandræðum með f5-peðið vegna leppunarinnar. Hvítur fórnaði skiptamun fyrir smá spil en Nansý tefldi af mikilli skynsemi og innbyrti sætan sigur. Sigurinn kom á góðum tímapunkti því á sama tíma voru stöðurnar á hinum borðunum hjá okkur erfiðar.
Guðlaug hafði hvítt gegn WIM Melnik á 2. borði. Melnik kom Gullu á óvart með því að drepa snemma á c4 í drottningarbragði. Gulla valdi að taka peðið til baka með því að leika Da4+ og svo Dxc4 sem var misráðið. Melnik fékk skjóta liðsskipan í kjölfarið og Gulla lenti í krappri vörn allt þar til Melnik vann peð á e4. Þá losnaði aðeins um hvítu stöðuna og Gulla, sem var í miklu tímahraki, átti auðveldara með að finna leiki. Hún ýtti a-peðinu sínu til a6 og hafði smá pressu gegn f7-peði svarts. Melnik átti erfitt með að finna nákvæmustu leiðina og á sama tíma varðist Gulla á virkan hátt. Staðan leystist svo upp í jafntefli. Góð vörn hjá Gullu.
Lenka hafði svart á 1. borði gegn hinni rússnesku Gerasimova. Sú beytti kóngs-indverskri árás og snérist baráttan í framhaldinu um hvor yrði á undan, Lenka að sækja á drottningarvængnum, eða Gerasimova að sækja á kóngsvængnum. Baráttan var hörð og sókn hvíts var mjög hættuleg. Lenka varðist af hörku en hvítur missti á sama tíma af vænlegum leiðum. Í lokastöðunni leystist skákin upp í endatafl þar sem hvítur var peði yfir. Þá bauð sú rússneska skyndilega jafntefli og eftir að hafa ráðfært sig við Björn Ívar liðsstjóri tók Lenka því fegins hendi. Keppendur mega, samkvæmt reglunum, leita til liðsstjórans þegar þeir fá jafnteflisboð. Liðsstjórar mega gefa þrjú svör á ensku ,,yes“, ,,no“ og ,,you decide“ (já, nei, þú ræður).
Á sama tíma hafði Sigurlaug lengi barist með verri stöðu með hvítt á 4. borði gegn WIM Kaydanovich. Sigurlaug slapp vel út úr miklum þrengingum og komst út í jafnt endatafl þar sem báðar höfðu biskupa og nokkur peð. Svartur hafði valdað frípeð á e4 en þar sem þær höfðu báðar hvítreita biskupa, og kóngur Sigurlaugar gat skorðað peð svarts, var ljóst að okkar kona var ekki í neinni taphættu. Eftir að Lenka samdi um jafntefli á 1. borði var ljóst að jafntefli hjá Sigurlaugu myndi tryggja sigur í viðureigninni. Á þeim tímapunkti fékk Björn Ívar liðsstjóri leyfi dómarans til þess að biðja Sigurlaugu á að bjóða jafntefli. Því boði tók andstæðingur hennar og því var ljóst að 2,5 – 1,5 sigur var í húsi eftir mjög erfiða baráttu!
Skákir kvennaliðsins eru hér að neðan, hægt er að velja skák í flettiglugganum (…)
Gangur mótsins
Enn eru átjan lið með fullt hús í opnum flokki og eru Frakkar efstir þeirra á stigum. Vert er að minnast á að Svíar hafa fullt einnig og leiða því Norðurlandakeppnina. Íranir voru fyrsta lægra skrifaða liðið á blaði til að vinna gegn „betra“ liði þegar þeir lögðu Hvítrússa. Flestir vita þó að Íranir eru með gríðarlega sterkt og vanmetið lið enda allt ungir skákmenn á hraðri uppleið.
Í kvennaflokki urðu óvæntu úrslitin í gær þegar Rússar lágu gríðarlega óvænt gegn Úzbekistan. Mikill klassamunur er að öðru leiti í kvennaflokki og nánast allar viðureignir algjörar slátranir. Tólf lið hafa fullt hús í kvennaflokki ennþá.
4. umferð
Mjög athyglisverð viðureign í opna flokknum á morgun þegar Íslendingar mæta Norðmönnum. Norðmenn eru númer 38 í stigaröðinni gegn 44 hjá okkur. Norðmenn eru að sjálfsögðu án Magnusar Carlsen þannig að við ættum að eiga betri möguleika en ella. Fyrrverandi heimsmeistari unglinga Aryan Tari verður líklegast á fyrsta borði.
Kvennaliðið mætir grjóthörðu liði Kúbu. Kúbversku stelpurnar eru með mjög jafnt lið og 2200 stiga stelpur á nánast öllum borðum.
Skák dagins:
Stór Íslandsvinurinn Luis Galego á skák dagsins þegar hann vinnur flottan og tæknilegan sigur á 2739 stiga skákmanni frá Póllandi sem hefur verið sjóðheitur undanfarið. Jan Krysztof-Duda þurfti að hringja á vælubílinn eftir þessa! Við erum í Georgíu þannig að númerið er +00 354 113
Heyrst hefur:
- Luis Galego var nývaknaður fyrir skák sína gegn Jan Krysztof-Duda eftir skrall næturinnar og vissi bara að hann ætti að tefla við „some Polish guy“ og vann svo að sjálfsögðu glæsilegan sigur.
- Björn Ívar liðsstjóri kvennaliðsins hefur lært nokkur orð í georgísku til að sleppa í gegnum öryggisleitina hraðar. Orðið „díabetí“ hefur flýtt fyrir meðferð okkar manns.
- Tomi Nyback mun líklega ekki tefla á morgun fyrir Finna…..ekki missa af hlaðvarpinu!
- Stórmeistarinn Margeir Pétursson er kominn til Batumi. Var víst á skrifstofunni klukkan fjögur og mættur til Batumi um áttaleytið! Beint flug frá Lviv til Batumi!
- Willy Iclicky FIDE-dindill þorði ekki að mæta í fótbolta dagsins eftir víkingameðferðina í gær.
- Björn Þorfinnsson var gríðarlega ánægður með notkun Jorge Cori á pýramídaárásinni gegn Wei Yi. Kemur sér í framtíðarbókina „Þrykkt með þríhyrningaárásinni“ (e. Pounding with the Pyramid attack)
- Heyrst hefur að ákveðnir menn séu að láta renna í freyðibað og fái sér kalt hvítvín þegar Ólympíuhlaðvarp dagsins dettur í hús (hægt að hlusta á síðasta hér)
- Heyrst hefur að liðsmenn spútnikliðsins frá Baku 2016, Suður-Súdan, þeir Deng, Deng og Deng sé ósáttir með frammistöðuna hingað til og séu að velta því fyrir sér að kalla til liðs við sig félaga sinn Ding sem stóð sig svo vel í Baku.
Áframhaldandi umfjöllun verður hér á Skak.is
Beinar útsendingar á Skak.is: Opinn flokkur | Kvennaflokkur
Viðureignir dagsins á Chess24: Opinn flokkur | Kvennaflokkur
Mótið á chess-results 3.umferð: Opinn flokkur | Kvennaflokkur
Myndir frá 3. umferð: Myndapakki 3. umferð
Hlaðvarp 3. umferð: Ólympíuhlaðvarpið
Svipmyndir úr mótssal
Frá Batumi,
Ingvar Þór Jóhannesson / Björn Ívar Karlsson