Fjórða umferð á Ólympíuskákmótinu í Batumi fór fram í dag. Eftir ákveðinn upp og niður dag í 3. umferð voru vonir um gott gengi í dag. Þær vonir fóru fljótlega út um veður og vind og niðurstaðan varð einn versti dagur í sögu Íslands á Ólympíumótum!


Opinn flokkur:

Andstæðingar Íslendinga í opna flokknum í dag voru Norðmenn. Sögulega og miðað við styrkleikaröðun hefði mátt búast við jafnri viðureign. Á döfinni var hinsvegar allt nema það. Það átti hreinlega enginn góðan dag og snemma ljóst hvert stefndi.

Í stöðu sem var í fínu lagi lék Hannes allt að því fáranlegum leik.

Hér lék Hannes skelfilega af sér með 14..Dd5? sem er hræðilegur stöðulega. Eftir hinn einfalda 15.Rcd2 tapar svartur biskupaparinu og lendir í stórkostlegum vandræðum á löngu skálínunni. Hannes lenti í algjörri klemmu og átti í raun aldrei viðreisnar von eftir þetta.

Héðinn ákvað að berjast í flóknu afbrigði í skoska leiknum. Allt í lagi var með stöðuna skv. tölvuapparötunum en svarta staðan þó e.t.v. erfiðari í praktík.

Hér var nauðsynlegt fyrir svartan að hróka 18…0-0 en eftir 18…Hd8? lenti Héðinn í vandræðum. Eftir 19.Re4 dxe5 20.Bxc5 var svarti kóngurinn svartur á miðborðinu og lítið annað fyrir svartan en að blóta því að hafa ekki hrókað í 18. leik. Hinn norski Tom Cruise lenti ekki í vandræðum með að landa vinningnum.

Guðmundur tefldi byrjunina ekki vel en vann sig samt aftur inn í skákina en missti hann svo aftur úr böndunum sökum tímaskorts. Jóhann hafði trausta stöðu eftir byrjunina en á einhvern hátt tefldi Urkedal eins og algjör vél og staðan einhvern veginn fjaraði út með hverjum leiknum.

Algjörlega sögulega sorglegt 0-4 tap staðreynd sem er gjörsamlega óásættanlegt gegn norskri sveit sem er að tefla án Magnúsar Carlsen og Jon Ludvig Hammer.

Skákir karlanna eru hér að neðan, hægt er að velja skák í flettiglugganum (…)

Kvennaflokkur:

Kvennaliðið mætti sterku og mun stigahærra liði Kúbverja. Sama sveit vann 3.5-0.5 gegn okkur í Tromsö 2014 og í stuttu máli var sama upp á teningnum í dag.

Lenka hafði hvítt á fyrsta borði og beitti kóngsindverskri árás. Lenka virtist fá frumkvæði en það var við það að fjara út þegar kom að þessari stöðu

25.Rxd4? reyndist tapleikurinn. Eftir 25…Rxe5 opnast allar flóðgáttir að hvítu stöðunni og skákin entist aðeins 7 leiki í viðbót

Guðlaug Þorsteinsdóttir hélt áfram að eiga gott mót og var sú eina í íslenska liðunum sem náði einhverju úr skákunum í dag.

Gulla tefldi vel og tók peðsfórn frá andstæðingi sínum og varðist einfaldlega vel og komst út í endatafl peði yfir.

Vendipunkturinn var tímahrak Gullu.

Hér er Guðlaug einfaldlega peði yfir. Síðasti leikur var 36.Rf4+ talningin klikkaði eitthvað og eftir 36…Ke5 37.Rd3+ Ke6 38.Rf4+ Ke5 39.Rd3 Ke6 40.Rf4+ gat sú kúbverska krafist jafnteflis vegna þess að sama staðan hafði komið upp þrisvar

Nansý og Jóhanna töpuðu sínum skákum. Nansý hélt lengi í horfinu en staðan var þó of passíf og nálægt tímamörkunum fann sú kúbverska leið til að vinna lið. Jóhanna fékk fína stöðu úr kóngindverksri vörn en missti þráðinn í miðtaflinu og ekki varð aftur snúið eftir að e5 peðið tapaðist.

Skákir kvennaliðsins eru hér að neðan, hægt er að velja skák í flettiglugganum (…)

Gangur mótsins

Enn eru níu lið með fullt hús í opnum flokki og er Azerbaijan efst þeirra á stigum. Úr topp 10 eru Indland, England og merkilegt nokk Rússar búin að misstíga sig. Rússar töpuðu mjög óvænt í dag fyrir “einhverjum pólskum gaurum” !!

Í kvennaflokki eru í raun öll topp liðin á góðu róli nema að Rússar eru enn að vinna upp tapið gegn Úzbekistan og Indverjar þurftu að sætta sig við jafntefli í dag.

5. umferð

Íslensku liðin ættu að eiga auðveldari dag á morgun, föstudag, í síðustu umferð fyrir frídag. Í opnum flokki fáum við lið Suður-Kóreu sem eru langt fyrir neðan okkur í styrkleikaröð. Allt nema sigur væri nánast skandall.

Í kvennaflokki er sveit Möltu mótherjinn og að sama skapi verður að setja kröfu um sigur í þeirri viðureign.

Sem fyrr hefjast leikar klukkan 11:00 og viðureignir eru í beinni hér á Skak.is

Skák dagins:

Íslandsvinurinn Gawain Jones tefldi hálf linkulega gegn Rauf Mamedov sem hefur staðið sig mjög vel fyrir Azerbaijan undanfarin ár. Azerinn yfirspilaði Englendinginn smátt og smátt og fékk svo upp hið margfræga biskup+riddari gegn kóngi andstæðingsins. Azerinn lenti ekki í neinum vandræðum með þetta mát sem margir hafa klikkað á í gegnum tíðina.

Heyrst hefur:

  • Luis Galego Íslandsvinur var víst eins og það kallast skelþunnur þegar hann slátraði vonarstjörnu Póllands í 3. umferðinni.
  • Tomy Nyback tefldi víst í 4. umferðinni þrátt fyrir “sudden sickness” kvöldið áður!
  • Vladimir Kramnik og Dmitry Jakovenko fengu samtals 0 vinnings í óvæntu tapi Rússa gegn Pólverjum. Þetta var gegn þeim Jacek Tomczak og Kamil Dragun sem einn pistlahöfunda tefldi einmitt við á minningarmóti Najdorf árið 2015 og fékk 1 af 2 gegn sömu andstæðingum!
  • Georgísk rauðvín eru víst nokkuð góð segja FIDE dindlarnir
  • Dvorkovich og Makro rifust á göngum fyrir nefndarfundi FIDE-þingsins
  • Öryggisgæslan hefur verið hert töluvert. Gunnar Björnsson fékk ekki að fara inn í dag og þurfti að sækja um sérlega VIP FIDE Dindla passa frá Zurab.

Áframhaldandi umfjöllun verður hér á Skak.is

Beinar útsendingar á Skak.is: Opinn flokkur | Kvennaflokkur

Viðureignir dagsins á Chess24: Opinn flokkur | Kvennaflokkur

Mótið á chess-results 4.umferð: Opinn flokkur | Kvennaflokkur

Myndapakki: Íslenskir skákmenn á Facebook

 

Hlaðvarp 4. umferð: Ólympíuhlaðvarpið

- Auglýsing -