Ólympíuskákmótið í Batumi: Pistill 8. umferðar

813
0

Íslensku liðin áttu góðan dag í áttundu umferð Ólympíuskákmótsins í Batumi.

Opinn flokkur:

Helgi Áss fékk snemma nokkuð vænlegt tafl á fjórða borði. 18. leikur svarts …d5 reyndist misráðinn þar sem Helgi vann lið fljótlega.

Hinn einfaldi 19.bxc5 er vænlegur á hvítt þar sem eftir 19…dxc4 20.Bxc4 dxc5 21.Ba5 fellur skiptamunur hjá svörtum. Eftirleikurinn var mjög auðveldur og svartur algjörlega mótspilslaus.

Jóhann virtist eiga nokkuð náðugan dag með hvítu mönnunum gegn Philidor. Vissulega var staðan kannski ekki einföld en svartur virtist aldrei í neinni hættu á að fá eitthvað almennilegt mótspil. Jóhann fékk að föndra í sókninni og var loks orðinn verulega miklu liði yfir.

Það stefndi allt í stórsigur því að Hannes var að þjarma að sínum andstæðingi í endatali og hafði alltaf betra tafl. Skyndilega snerust vopnin í höndunum á honum og hann hefði þurft að sætta sig við jafntefli með 44…Rd2 hér og væntanlegri þráskák

Þess í stað kom 44…Dxf2? skelfilegur afleikur og eftir 45.Dxe4 stendur hvítur allt í einu til vinnings útaf betri kóngsstöðu.

Sem betur fer var Héðinn með endatafl sem hann gat aldrei tapað á þessum tímapunkti.

Hér átti Héðinn reyndar skemmtilegan möguleika í 59…Ra4 þar sem 60.Kxa2 Rxc3# er mát! Hótunin er svo bara …Rxc3 og mát með hrókunum!

Þetta kom sem betur fer ekki að sök. Héðinn skiptu upp á hrókum og fann svo gegnumbrot hér:

80…d4! er ansi skemmtileg þema hér. Eftir 81.exd4 Rd5 82.Kd2 kemur 82…Rxf4! og gegnumbrotið er fullkomnað!

Skákir karlanna eru hér að neðan, hægt er að velja skák í flettiglugganum (…)

Kvennaflokkur:

Kvennaliðið mætti liði Eþíópíu. Lenka hvíldi þriðju umferðina í röð vegna fótameiðsla og Sigurlaug Regína sem orðin var sárlasin fyrir umferðina neyddist því til þess bíta á jaxlinn og harka af sér í gegnum sína skák á 4. borði. Það var því aðeins lemstrað íslenskt lið sem settist að tafli í dag en frammistaðan átti eftir að verða góð.

Nansý setti tóninn á 2. borði með stuttum og snaggaralegum sigri gegn Haile. Upp kom skoskur leikur og andstæðingur Nansýar sá aldrei til sólar og varð mát skömmu eftir byrjunina. Frábært að byrja viðureignina á svona öruggum sigri og skákin tók það stuttan tíma að þetta varð hálfgerður frídagur fyrir Nansý. Hún hélt upp á sigurinn með því að fara í handsnyrtingu að hætti hefðarkvenna.

Sigurlaug tefldi mjög vandaða skák á 4. borði þrátt fyrir veikindi sín. Hún fékk mun betra tafl út úr byrjuninni eftir að andstæðingur hennar hafði vanrækt liðskipan manna sinna. Lykilaugnablikið kom eftir síðasta leik svarts 11…Dd8-f6?

Sigurlaug svaraði með 12. e5! og svartur er í bullandi vandræðum. Eftir 12…dxe5 kæmi 13. Bxe5! og öll spjót standa á svörtum. Þess í stað lék svartur 12…Dg6 og eftir drottningaruppskipti og peðsvinning í framhaldinu vann Sigurlaug af öryggi.

Staðan var því orðin 2-0 okkur í vil og því þurfti bara hálfan vinning til viðbótar til þess að tryggja sigurinn. Vandinn var að bæði Jóhanna og Guðlaug stóðu verr í sínum skákum.

Jóhanna, sem hafði svart á 3. borði, lenti í miklum hremmingum eftir byrjunina og helsti vandi andstæðings hennar var að velja á milli þeirra fjölmörgu vinningsleiða sem í boði voru! Á einhvern ótrúlegan hátt missti hún af þeim flestum og gaf Jóhönnu kost á að þráskáka. Skelfilegt klúður hjá þeirri eþíópísku en að sama skapi góð heppni fyrir okkur sem tryggði sigurinn í viðureigninni. Það lá við að Jóhanna hálfvorkenndi andstæðingi sínum eftir skákina en Jóhann okkar Hjartarson hressti hana við með orðunum: ,,Það þarf enginn að skammast sín fyrir að grísa!”

Guðlaug var síðust til þess að klára á 1. borði og tefldi langt og strangt endatafl eins og í skákinni í gær. Gulla var í rauninni að tefla alveg pressulaust upp á sigur því staðan var þá þegar orðin 2,5-0,5 Íslandi í vil. Andstæðingur hennar varðist vel og hélt jafntefli eftir harða baráttu. Eftir skákina var Girmay, andstæðingur Guðlaugar, tekin til hliðar í ,,anti-cheating check” en skákdómarar hafa vald til þess að taka að rannsaka keppendur af handahófi. Sennilega hefur þeim fundist hún tefla skákina óvenjulega vel!

Lokastaðan 3-1 fyrir Íslandi.

Skákir úr kvennaflokki eru hér að neðan, hægt er að velja skák í flettiglugganum (…)

Gangur mótsins

Bandaríkjamenn eru komnir í algjöra lykilstöðu eftir sigur á Azerbaijan. Sam Shankland vann lykil sigur á Rauf Mamedov sem tryggði þessa mikilvægu viðureign. Hvíslið framan af í blaðamannaherberginu var að Bandaríkjamenn væru að tapa viðureigninni en þeir náðu að snúa þessu sér í hag.

Pólverjar gerðu jafntefli og eru stigi á eftir Bandaríkjamönnum. Kínverjar kannski líklegast af þeim sem eru 2 stigum á eftir til að geta veitt einhverja skráveifu. Rússar eru 3 stigum á eftir og komast í besta falli á pall úr þessu.

9. umferð

Í opnum flokki mætum við Svíum sem hafa harma að hefna frá EM á Íslandi árið 2015. Þar lögðum við þá 4-0 og líklegt að þeir hyggi á hefnd!

Í kvennaflokki mætum við liði Albaníu og vonandi verður Lenka mætt til leiks í hjólastólnum!

Skák dagins:

Parham Magsoodloo hefur verið óstöðvandi undanfarið og er nýbakaður heimsmeistari unglinga. Ivan Saric frá Króatíu virðist hinsvegar hafa þann vana að leggja eins og allavega eitt skrímsli að velli í hverju Ólympíumóti. Hann hefur áður lagt Magnus Carlsen en á þessu móti lagði hann Parham í skák dagsins.

Algjör spennutryllir á ferð hér, Saric missir af glæsilegum sigurmöguleika 31.f7!! Kxh7 32.Re8!! og vekur upp drottningu.

Heyrst hefur:

  • Að liðsstjóri kvennaliðsins hafi valdið miklu uppnámi meðal starfsfólks Ólympíuskákmótsins þegar hann sagði “Mr. Azmaiparashvili knows about the problem”
  • Að hatturinn hjá Kyrgistan hafi vakið mikla lukku!
  • Að Kiddi dómari hafi mætt rennandi sveittur á skákstað í hitanum sem var í dag.
  • Að sárlasin Sigurlaug hafi ýtt slasaðri Lenku um í hjólastól í dag og var þá kallað: “Haltur leiðir blindan!”
  • Að Suður-Súdan sé að standa sig vel í opnum flokki eins og ákveðinn maður hafði spáð fyrir um.

Áframhaldandi umfjöllun verður hér á Skak.is

 

Beinar útsendingar á Skak.is: Opinn flokkur | Kvennaflokkur

Viðureignir dagsins á Chess24: Opinn flokkur | Kvennaflokkur

Mótið á chess-results 8.umferð: Opinn flokkur | Kvennaflokkur

Myndapakki: Íslenskir skákmenn á Facebook

 

Hlaðvarp 8. umferð: Ólympíuhlaðvarpið

- Auglýsing -