Ekki gefur byrjun íslenska liðsins, sem tekur þátt í opnum flokki ólympíumótsins í Batumi í Georgíu, tilefni til mikillar bjartsýni þótt unnist hafi góður sigur yfir sterku liði Letta í 2. umferð. Síðan komu stór töp fyrir Ísrael og Noregi í næstu tveimur umferðum. Það er þó bót í máli að hér er teflt um stig en ekki vinninga og vonandi verður endaspretturinn betri en í Bakú í Aserbaídsjan fyrir tveimur árum. Tefldar verða ellefu umferðir og í gær tefldi íslenska sveitin við Suður-Kóreu.

Í kvennaflokknum hefur íslenska sveitin einnig unnið tvær viðureignir og tapað tvisvar. Guðlaug Þorsteinsdóttir hefur staðið sig best allra í hópnum; hefur hlotið þrjá vinninga af fjórum mögulegum. Íslenska kvennasveitin mætti sveit Möltu í gær.

Núverandi ólympíumeistarar eru Bandaríkjamenn og þeir virðast staðráðnir í að verja titilinn og hafa unnið allar fyrstu viðureignir sínar. Í fjórðu umferð lögðu þeir geysisterka sveit Indverja að velli, en úrslitum réð er Fabiano Caruana vann skák sína við Viswanathan Anand á 1. borði í aðeins 26 leikjum.

Rússar eru hið fórna stórveldi skákarinnar en hafa ekki unnið ólympíumót í opna flokknum síðan í Bled 2002, en þá var Garrí Kasparov í liðinu. Þeir vilja eindregið ná fyrri stöðu í skákinni og til marks um það heilsaði Pútín Rússlandsforseti upp á liðsmenn áður en haldið var til Batumi. En í fjórðu umferð töpuðu þeir fyrir Pólverjum, 1½:2½, og hinn þrautreyndi Vladimír Kramnik á 3. borði missti niður yfirburðastöðu og þegar hér var komið sögu var orðið tvísýnt um úrslit:

Tomczak – Kramnik

Hér er besti og eini leikur svarts 26…. Hd4 sem hindrar aðgang hvítu drottningarinnar að mikilvægum reitum. Þá telst staðan í jafnvægi. En Kramnik lék

26…. Hd5??

og svarið kom um hæl:

27.Db4!

Hótar 28.Df8 mát.

27…. c5 28. Dh4! h6 29. Bxh6 Db3 30. Bd2! Kg7 31. Dh8+ Kg6 32. Dh7 mát.

Annað lið sem mun án efa blanda sér í baráttuna um gullið er lið Armena. Þeir koma alltaf sterkir til leiks og unnu ólympíumótin árin 2006, 2008 og 2012. Mættu hins vegar ekki til leiks í Aserbaídsjan fyrir tveimur árum, en milli þjóða Asera og Armena hefur ríkt hálfgert stríðsástand í meira en 30 ár. Í gær mættust þessar þjóðir í einni af toppviðureignum fimmtu umferðar. Á toppnum sátu níu þjóðir með átta stig en það er athyglisvert að á síðustu mótum hefur engu liði tekist að vinna með yfirburðum og margir sakna þess kerfis þegar vinningar voru látnir ráða og umferðirnar voru þrettán eða fjórtán.

Tefldi fyrst á ólympíumóti fyrir 40 árum

Eins og getið var um í pistli hér um daginn eru lið Íslands í báðum flokkum býsna reynslumikil. Guðlaug Þorsteinsdóttir tefldi fyrst á ólympíumóti í Buenos Aires í Argentínu fyrir 40 árum. Reynslan nýttist vel í viðureigninni við Holland, en þá kom þessi staða upp:

Anna Haast – Guðlaug Þorsteinsdóttir

Þessi staða er aðeins betri á svart og hollensku skákkonunni gast ekki að framhaldinu 28. Hdd1 Rg4 29. Rd3 Ha2 og svarta staðan er betri, þar sem a3-peðið er veikt. Hún valdi hróknum annan stað:

28. Hd3??

Og þá kom…

28…. He1+!

Það er ekki nóg með að hrókurinn á d3 falli, hvítur er óverjandi mát eftir 29. Hxe1 Hxe1+ 30. Kh2 Rg4+ 31. Kh3 Rxf2+ og 32…. Hh1 mát. Hvítur gafst upp.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 29. september 2018.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -