Fyrir Ólympíuskákmótið í Batumi blés Skak.is í léttan getraunaleik þar sem lesendur voru hvattir til að spá fyrir um úrslit mótsins ásamt fleiri léttum spurningum. Þátttakan var góð og keppnin nokkuð jöfn þar sem forystusauðir voru nokkrir þegar leið á mótið og réði þar mestu staða íslensku liðana sem sveiflaðist töluvert á milli umferða eins og gefur að skilja.

Við ætlum að renna aðeins yfir spurningarnar, rétt svör og hverjir voru með þau rétt.

Fyrsta spurning var hvaða lið myndi vinna kvennaflokkinn. Heilir 23 sem svöruðu voru með rétt svar sem var að sjálfsögðu Kína. Allir þrír efstu voru með þessa spurningu rétta og fengu 8 stig.

Tvöfaldir Ólympíumeistarar Kínaverja

Í opnum flokki spáðu aðeins tveir rétt fyrir um sigurvegarana sem urðu einnig Kínverjar í opnum flokki! Langflestir spáðu Bandaríkjamönnum sigri. Daníel Njarðarson og Hilmir Elísson voru með þessa spurning rétta en spáðu báðir vitlaust fyrir um kvennaflokkinn og því 25 jafnir eftir fyrstu tvær spurningar með stigin 8.

Næst var beðið um að spá fyrir um úrslit forsetakosningana. Ljóst er að lesendur höfðu tröllatrú á Dvorkovich og mikill meirihluti spáði honum sigri. Alls 45 sem völdu Dvorkovich. Fimm stig voru veitt fyrir þessa spurningu og aðeins 2 af þeim 25 sem voru efstir heltust úr lestinni og völdu ekki Dvorkovich og því ennþá 23 efstir eftir fyrstu þrjár spurningar.

Dvorkevich og Short fyrir framan skákborð sem meðal annars Morphy, Lasker, Steinitz og Capablanca hafa teflt við.

Þá kom að því að velja hver fengi flesta vinninga úr völdum hópi elítuskákmanna. Flestir höfðu trú á Fabiano Caruana sem reyndist réttmæt trú þar sem hann skilaði 7 vinningum í hús. Næstur kom MVL. Eftir þessa spurningu voru enn 8 efstir og jafnir.

Þá kom að spurningunum sem sveifluðu stöðunni mest þ.e. lokastöðu íslensku liðanna. Í opnum flokki endaði íslenska liðið í 68. sæti. Ótrúlegt en satt var aðeins einn spámaður sem fékk stig hér sem er ótrúlegt miðað við að skekkjumörk voru 7 sæti til að fá stig. Menn höfðu greinilega tröllatrú á liðinu en Daníel Njarðarson var eini sem fékk 8 stig hér. Hann klikkaði hinsvegar á síðustu tveim spurning á undan og toppurinn því óbreyttur, 8 efstir og jafnir eftir þessa spurningu.

Helgi liðsstjóri í opnum flokki

Lokastaðan í kvennaflokki var 63. sætið sem var nokkuð nálægt stigaröð liðsins og því mun fleiri sem fengu stig hér. Erlingur Þorsteinsson spáði sætinu akkúrat og hlaut því heil 10 stig og tók forystu en fjölmargir voru innan skekkjumarka fyrir 8 stig þar á meðal t.d. Páll Sigurðsson, Jón Viktor og Flóvin Þór Næs.

Svíþjóð stóð sig langbest Norðurlanda í opnum flokki og enduðu í 11. sæti! Sextán höfðu trú á Svíunum og fengu 6 stig fyrir þessa spurningu. Þeir sem styrktu sig mest í toppbaráttunni við rétt svar hér voru Páll Sigurðsson, Þórir Benediktsson og Aðalsteinn Thorarensen.

 

Noregur varð efst Norðurlanda í kvennaflokki og ellefu manns fengu 6 stig fyrir það. Af topp baráttu mönnum voru það aftur Páll og Þórir sem styrktu sig en einnig Erlingur og Jóhann Ragnarsson. Skak.is vill nota tækifærið og óska Degi Ragnarssyni til hamingju með sitt eina rétta svar í þessari getraun!

Næsta spurning snerist um að velja það land úr fyrirfram ákveðnum hópi sem myndi enda hæst miðað við styrkleikaröð. Í boði voru Íran, Úzbekistan, Finnland, Færeyjar, Madagascar, Suður-Kórea og Suður-Súdan. Þessi spurning var svolítið að krydda blæti mitt og Björns Ívars fyrir grjóthörðu liði Suður-Súdan. Framan af stefndi allt í að Suður-Kórea myndi vinna hér en þeir féllu niður töfluna í lokina og Suður-Súdan voru langefstir miðað við stigaröð, heilum 42 sætum en næst var Úzbekistan sem var 20 sætum hærra en styrkleikaröðin í upphafi! Skemmst er frá því að segja aðeins tveir höfðu rétt svar hér. Annar þeirra var ekki löglegur keppandi í getrauninni, sjálfur Björn Ívar og hinn var fullkomlega meðvitaður um blæti vort fyrir Suður-Súdan en það var formaður TR, Kjartan Maack. Góðu fréttirnar fyrir Kjartan voru því að hann var sá eini til að hljóta 8 stig en slæmu fréttirnar að eina rétta svarið þar utan var Arkadij Dvorkovich!

Næst átti að velja þá sem fengu flesta vinninga fyrir íslenska liðið bæði í opnum flokki og kvennaflokki. Flesta vinninga fengu þau Hannes Hlífar og Guðlaug. Þar sveiflaðist nokkuð toppbaráttan því nokkrir voru með Jóhann hér en Hannes fór yfir hann að vinningum í lokaumferðinni. Einungis tveir voru með bæði Hannes og Gullu rétt en það voru þeir Jóhann Ragnarsson og Tryggvi Marteinsson. Tryggvi lyfti sér aðeins upp en Jóhann styrkti sig verulega í toppbaráttunni.

Fyrir lokaspurninguna var Erlingur Þorsteinsson efstur en Jóhann og Páll komu næstir og gat lokastaðan sveiflast á síðustu spurningunni.

Síðasta spurningin var að velja þann skákmann sem hlyti flesta vinninga í opnum flokki. Enginn var með Mashala Kabamwanishi frá Congo og enginn með Andre Stratonowitsch frá Seychelles. Báðir hlutu þeir 9.5 vinning! Stig voru þó í boði fyrir að velja þann sem fengi flesta vinninga af þeim sem voru tilnefndir í getrauninni. Þar voru það þeir Davíð Kjartansson og Björn Ívar Karlsson sem völdu Alireza Firouzja frá Íran sem fékk 8 vinninga og flesta vinninga af þeim sem voru valdir. Þetta gaf 5 stig í búið hjá þeim en hafði engin áhrif á toppbaráttuna. Björn Ívar hefði skotist í annað sætið en sökum tengingar við íslensku liðin sem liðsstjóri var hann ekki með í getrauninni.

Lokastaðan varð því:

  1. Erlingur Þorsteinsson 35 stig
  2. Páll Sigurðsson 33 stig
  3. Jóhann H. Ragnarsson 33 stig
  4. Daníel Njarðarson 32 stig
  5. Davíð Kjartansson 31 stig
  6. Þórir Benediktsson 31 stig

Neðsti keppandinn ætti eiginlega að fá skammarverðlaun en hann hlaut aðeins 2 stig. Sá hefur keppt fyrir Íslands hönd á Ólympíumótum 😉

Fyrstu verðlaun eru ferðaskáksett og klukka og verðlaun fyrir annað og þriðja sætið eru bókaverðlaun ásamt smá glaðningi. Einnig verða dregin út aukaverðlaun og verður drátturinn í beinni á Facebook síðu íslenskra skákmann og verður svo bætt við fréttina.

Afhending verðlauna verður við upphaf 2. umferðar á U2000 móti Taflfélags Reykjavíkur sem hefst miðvikudaginn 24. október klukkan 19:30.

- Auglýsing -