Fyrir fjórum árum þegar lokaumferð ólympíuskákmótsins rann upp í Tromsö í Noregi höfðu þrír meðlimir íslensku skáksveitarinnar í opna flokknum ekki tapað skák. Fyrir lokaumferð ólympíumótsins í Batumi í Georgíu hafði íslenska sveitin tapað 15 skákum. Hægt er að grípa til alls kyns samanburðar en fyrir mann sem hefur verið í liði sem sat við háborð þessarar miklu keppni, ólympíumót eftir ólympíumót, er niðurstaðan óásættanleg. Á þeim tíma voru liðsmenn á kafi í taflmennsku út um allan heim og dæmi má finna af móti þar sem liðið hafði ekki tapað nema einni skák í fyrstu sjö umferðum þess.

Héðinn Steingrímsson sem gaf kost á sér til að tefla á 1. borði byrjaði ekki vel, tefldi 10 skákir, þar af sjö sinnum með hvítt. Hafði eftir sex umferðir tapað fjórum skákum þar af þrisvar þegar hann hafði hvítt. Að tapa með hvítu á 1. borði „kemur ekki til greina“ á ólympíumóti. Greinarhöfundur tefldi á 1. borði árin 1984, ´86 og ´90 og í þessum þrem mótum tapaðist ein skák á hvítt – fyrir Anand, en ég átti unnið tafl um tíma. Héðinn tefldi ekki á neinu alvöru móti í aðdraganda ólympíumótsins og réð ekki við verkefnið sem hann tók að sér.

Jóhann Hjartarson hefði betur skipað þetta sæti en hann tefldi margar góðar skákir í Batumi, Hannes Hlífar Stefánsson hefur oft teflt betur, Íslandsmeistarinn Helgi Áss Grétarsson er enn ekki búinn að ná fullum styrk eftir langt hlé og Guðmundur Kjartansson missti af mörgum góðum færum.

Það sem stóð liðinu fyrir þrifum á mikilvægum augnablikum þessa ólympíumóts var þessi skortur á slagkrafti á mikilvægum augnablikum. Tökum nokkur dæmi:

9. umferð:

Westerberg – Helgi Áss

Staðan kom upp í viðureign Íslendinga við Svía. Helgi Áss hafði unnið tvær síðustu skákir og mætti ákveðinn til leiks. Eftir talsvert umrót á borðinu er nauðsynlegt að aðlaga sig breytingum á stöðunni en Helgi lék hinsvegar umsvifalaust:

24. … fxg2? og eftir 25. Hd4 Dh5? 26. Df5! var hvítur með betri stöðu og vann í 46 leikjum.

Hann gat leikið 24. … Rf4! sem vinnur. Þá dugar ekki 25. Df5 vegna 25. … Dxf5 26. Rxf5 Re2+ og 27. … Rxc3, vinnur skiptamun og á auðunnið tafl. Annar möguleiki er 25. gxf3 en þá vinnur 25. .. Dh5! strax. Að lokum: 25. g3 Hxe3 26. fxe3 Dxe3+ 27. Kh1 f2! og vinnur.

11. umferð:

Héðinn – Djukic

Þó að hvítur hafi átt peði meira eftir byrjunina virtust jafnteflisúrslit býsna líkleg. En hér eru menn hvíts tilbúnir fyrir atlögu að kónginum. Héðinn lék …

36. fxg5? og eftir 36. … Bd4 37. Ha4 Bf2 38. Bf4 Hb1 hafði svartur nægilegt mótspil til að ná jafntefli.

En í þessari stöðu blasir vinningurinn við: 36. Ha8+ Kg7 37. f5! Bxf5 ( eða 37. … Hb1 38. f6+! Kh6 39. Hh8+ Bh7 40. Hxh7+ Kxh7 41. Be4+ og hrókurinn fellur ) 38. Bxg5 Kg6 39. Bf6 og vinnur.

Á 4. borði kom þessi staða upp í viðureigninni við Svartfjallaland:

11. umferð:

Draskovic – Guðmundur

Guðmundur lék 27. … Rd4+? og eftir 28. Kf2 axb4 29. axb4 Kg8 er ekki eftir neinu að slægjast og keppendur sömdu um jafntefli eftir 36 leiki. En svartur gat leikið 27. … Df6! því að 28. Dxb5 er svarað með millileiknum 28. … Db2+! og tekur síðan hrókinn með skák.

Sigur í stað taps hefði skilað okkur 30 sætum ofar.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 13. október 2018.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -