Nú í nóvember eða næstu 4 miðvikudaga fer Kappteflið  um SKÁKSEGLIÐ fram í 10. sinn á vegum RIDDARANS, skákklúbbs eldri borgara. 

Mótaröðin er haldin í minningu þeirra mörgu félaga sem kvatt hafa þessa jarðvist,  lokið lífsgöngu sinni og siglingu um óravíddir manntaflsins. Hátt á annan tug af fastafélögum klúbbsins eru horfnir á braut yfir móðuna miklu á liðnum 20 árum frá því klúbburinn var stofnaður.

Andi þeirra mun því væntanlega svífa yfir vötnunum og töflunum í Vonarhöfn, Strandbergi, safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju næstu vikurnar.

Eðli málsins samkvæmt og sem betur fer hafa yngri skákáhugamenn fyllt hin stóru skörð eftir því sem þeir hafa náð aldri til.

Í fyrra var ákveðið að breyta um þema mótsins. Kappteflið um SKÁKSEGLIÐ að hausti er nú helgað minningu þeirra allra en ekki bara Gríms heitins Ársælssonar eins og áður var.  Mótið SKÁKHARPAN að vori er nú helgað skákæskunni – verðandi meisturum framtíðarinnar.

Áletrun á verðlaunagripinn var þá breytt í þessa veru:

     MINNINGIN LIFIR

     MÓTARÖÐ UM FALLNA FÉLAGA

         sem sigldu seglum þöndum

             um hugans djúpu höf.

Allir sem vilja heiðra minningu hinna gengnu meistara eru hvattir til að taka þátt og geta telft með í einhverju þessarra fjögurra miðvikudagsmóta í nóvember óháð stigakeppninni sjálfri. Keppnin er með GrandPrix sniði þar sem sem þrjú bestu mót hvers keppanda telja til stiga og vinnings. (10-8-6-5-4-3-2-1)

Sigurvegarar fram til þessa hafa verið þeir:

2009 Sigurður A. Herlufsen; 2010 Þór Valtýsson; 2011 Guðfinnur R. Kjartansson; 2012 Jón Þ. Þór; 2013 Guðfinnur R. Kjartansson; 2014 Friðgeir K. Hólm; 2015 Ingimar Halldórsson; 2016 Björgvin Víglundsson; 2017 Gunnar Kr. Gunnarsson

Mótin hefjast kl. 13 og lýkur um kl. 17  – Tefldar eru 11 umf. með 10. mín. uht.

Allir velkomnir og engina aldursmörk.

/ESE

 

- Auglýsing -