A-sveit Fjölnis sló heldur betur í gegn í fyrri hlutanum. Samsett mynd: Fjölnir

A sveit Fjölnis virkaði nokkuð kunnuglega skipuð í upphafi 1. deildar Íslandsmóts félagsliða 2018 – 2019 sem hófst sl. fimmtudag. Spá forseta 3. sæti þótti undirrituðum nokkuð bjart, enginn Héðinn á 1. borði að þessu sinni og ekki virk taflmennska í gangi hjá nokkrum sveitarmönnum. En liðstjórinn býr við forréttindi, því að fyrir mótið gat hann verið viss og stólað á sama liðið allar umferðirnar. Allir liðsmenn meira en tilbúnir að tefla í stemmnigsliði og leggja sig fram. A sveitin byrjaði með látum í 1. umferð, kom sjálfri sér ennþá meira á óvart í annarri umferð, stórsigur í 3. umferð og vinningsforskot. Fyrsta skákin tapaðist í 25. skákinni í 4. umferð. Eftir valtaratakta gegn KR ingum í lokaleiknum reyndist uppskeran 1. sætið og mótið rúmlega hálfnað. 25 sigrar, 12 jafntefli og 3 töp.

A-sveit Fjölnis hóf mótið með stórsigri á b-sveit Hugins, 7,5-0,5.

Áfram skal haldið og heilögu markmiði deildarinnar haldið að byggja upp traust lið í kringum uppalda Fjölnisskákmenn. Hvernig þetta endar getur enginn fullyrt um enda deildin talsvert meira spennandi á toppnum en í fyrra. Það var ánægjulegt að lesa að af átta liðsmönnum höfðu sjö þeirra hækkað á stigum. Rimaskólaljónin Dagur, Oliver Aron og Jón Trausti hækkuðu mest á miðjuborðunum, umkringdir í báða enda traustum skákmönnum sem veittu þeim ungu fullan stuðning og innblástur. A sveit Fjölnis hefur í gegnum árin verið heppin með erlenda skákmenn sem ætlað er að ná árangri á efstu borðum. Þeir Jesper Thybo, Evrópumeistari U18 og Svíinn Pontus Carlson eru greinilega með stórt Fjölnishjarta og gefa allt sitt í hverja skák. Báðir skiluðu þeir 90% vinningshlutfalli við sterka andstæðinga. Davíð Kjartansson er vel tengdur við Grafarvoginn og liðstjóri Rimaskóla þegar Norðurlandameistaratitlar unnust 2008 og 2013. Þekkir vel sína menn. Tómas Björnsson er okkar demantur á 8. borði og veit ekki hvað það er að tapa skák. Loks ber að nefna Sigurbjörn J. Björnsson sem hefur fundið sig afar vel í „Fjölnisbúningnum“ ómissandi reynslubolti sem gerir allt vel sem lagt er fyrir hann.

B-sveit Fjölnis

B sveit Fjölnis á það sammerkt með A sveitinni að fyrrverandi Rimaskólameistarar eru um helmingur sveitarinnar hverju sinni. Skákdeildinni er það mikill heiður og gleði að hafa þessi flottu ungmenni innan félagsins og samheldnin heldur áfram ekki síst í gegnum Västerås ferðirnar sem efla ekki bara skákfærnina heldur ekki síður vináttuböndin. Eins og flestum er kunnugt um sem fylgdust með þá er önnur deildin mjög jöfn, öllum liðum ennþá fært að komast upp í 1. deild. Markmið okkar er að halda sveitinni í deildinni en 1. deildar sæti myndum við langt í frá afþakka. Fjórir liðsmenn B sveitar tefldu allar fjórar skákirnar, þeir Jón Árni Halldórsson, Erlingur Þorsteinsson, Hörður Aron Hauksson og hinn 18 ára Jóhann Arnar Finnsson sem fiskaði flest stigin og fór taplaus í gegnum fyrri hlutann. Dagur Andri og Hrund, önnum kafnir námsmenn stóðu sig mjög vel og eftirsótt í sveitina í hverri umferð.

C- og d-sveitir Fjölnis mættust í fjórðu deild.

C-og Ung – A sveitir Fjölnis skipuðu grunnskólakrakkar úr Grafarvogi sem nældu sér í góða reynslu af keppnisskákum og fylltust áhuga og ánægju af þátttöku á því glæsilega móti sem Íslandsmót skákfélaga er hverju sinni. Elsti liðsmaður Fjölnis að þessu sinni og svo oft áður er Finnur Kr. Finnsson sem vann fyrstu starfsár skákdeildarinnar að þjálfun og kom mörgum afrekskrakkanum á flot. Sá yngsti í fyrri hluta var 9 ára Húsaskólapiltur, Eiríkur Emil Hákonarson. Hann tefldi eina skák og var nokkuð fljótur að vinna. Eftir það gat drengurinn heilsað upp á náfrænda sinn, sjálfan Sigga Dan.

Skákdeild Fjölnis heldur áfram að taka skref fyrir skref upp á við.

Helgi Árnason.

- Auglýsing -