Mynd: Chess.com/Mike Klein.

Augu skákáhugamanna um allan heim munu beinast að London og beinum útsendingum þaðan klukkan 15:00 í dag. Síðasta skákin í einvígi ríkjandi heimsmeistara Magnus Carlsen (2835 elóstig) frá Noregi og áskorandans frá Bandaríkjunum Fabiano Caruana (2832 elóstig) fer þá fram. Fabiano stýrir hvítu mönnunum.

Hér eru á ferðinni tveir sterkustu skákmenn samtímans og hafa þeir ekki enn náð að knésetja hvorn annan og hefur öllum ellefu einvígisskákunum af tólf lokið með skiptum  hlut eða jafntefli. Ekki hefur vantað dramatíkina þó því báðir hafa misst af vinningum á einhverjum tímapunktum þó ekki hafi þeir verið auðsóttir. Það var helst í fyrstu skákinni þar sem Carlsen átti tiltölulega auðveldar vinningsleiðir sem hann missti af. Það gæti mögulega orðið dýrkeypt fyrir Magnus að hafa ekki nýtt sér augljósan taugatitring andstæðings síns í fyrstu skákinni undir pressunni sem menn finna í heimsmeistaraeinvígi.

Þrátt fyrir að allar skákirnar hafi endað með jafntefli er ljóst að Fabiano Caruana eiginlega þarf og verður að tefla til sigurs í síðustu skákinni. Ef síðasta skákin endar með jafntefli þurfa keppendur að heyja bráðabana með styttri tímamörkum líkt og Magnus Carlsen og Sergey Karjakin þurftu að gera í síðasta einvígi árið 2016. Þar telja flestir Magnús mun sigurstranglegri!

 

Af hverju hafa allar skákirnar endað með jafntefli?

Einvígið hefur þegar slegið metið yfir flestar jafnteflisskákir í röð til að byrja einvígi, ellefu talsins. Einvígið Carlsen-Karjakin var með jafntefli í fyrstu sjö skákunum áður en Carlsen yfirpressaði og tapaði áttundu skákinni. Garry Kasparov og Vishy Anand gerðu jafntefli í fyrstu átta skákunum 1995 áður en “all hell broke loose”! Metið fyrir flest jafntefli í röð er þó enn í fyrsta einvígi Garry Kasparov og Anatoly Karpov árið 1984 þegar þeir gerðu heil 17 jafntefli í röð í miðju einvígi. Þar voru forsendur þó aðrar þar sem þurfti 5 vinningsskákir til að vinna einvígið.

Jafnteflin hafa verið mismunandi. Fjölmörg jafnteflin hafa komið eftir gríðarlega baráttu og voru t.a.m. skákir eitt, sex og tíu algjörlega frábær skemmtun. Inn á milli hafa þó komið drepleiðinlegar skákir og hafa þær flestar verið þegar Carlsen hefur stýrt hvítu mönnunum. Tilfellið hefur nánast alltaf verið að Caruana er mun betur undirbúinn og hefur Carlsen fengið minna en ekki neitt úr byrjuninni í nánast öllum skákunum. Það var í raun aðeins í níundu skákinni sem hann fékk “sína” stöðu en ein fljótfærni kostaði hann möguleikann á að refsa Fabiano í þeirri skák. Litleysið í hvítu skákum Magnúsar er því í raun bæði frábærum undirbúningi Caruana og hans liðs að kenna en jafnframt sjáanlegu hugmyndaleysi hjá Carlsen og hans liði. Maður hefði haldið að heimsmeistarinn gæti komið með einhverjar hugmyndir í byrjunum til að pressa á áskorandann…það var aldrei vandamál fyrir Kasparov var það?

 

Er Carlsen að missa það?

Á einum blaðamannafundinum eftir skákirnar voru keppendur spurðir hver væri þeirra uppáhalds skákmaður. Carlsen svaraði “ég fyrir 3-4 árum” og uppskar mikil hlátrasköll fyrir þetta tilsvar. Svarið er eilítið hrokafullt en blandað svörtum húmor sem Carlsen á gjarnan til á fréttamannafundum. Tilsvar Magnúsar rennir þó stoðum undir þá kenningu að heimsmeistarinn sé ekki alveg upp á sitt besta. Carlsen fyrir nokkrum árum var nánast ósigrandi og elóstiga bilið milli hans og næsta manns of stórt til að nenna að spá í því. Nú er öldin önnur. Carlsen er enn bestur en hefur ekki sömu áru og hefur verið að gera meira meira af jafnteflum í skákum og stöðum sem hann hefði unnið fyrir nokkrum árum. Eru kollegar Magnúsar að ná í skottið á honum eða er hann að gefa eftir, orðinn saddur? Ef til vill væri tap gegn Caruana það sem Magnús þarf til að komast aftur í sitt allra besta form.

 

Hvað gerist í dag?

Skákirnar þar sem Fabiano hefur haft hvítt hafa verið mun skemmtilegri en þær sem Magnús hefur haft hvítt. Fabiano hefur alltaf leikið 1.e4 og Magnús farið í Sikileyarvörnina með 1…c5. Síðustu tvær skákir voru mjög tvíeggjaðar og sénsar á báða bóga. Tölvurnar eru yfirleitt hrifnari af hvítu stöðunni í afbrigðinu sem Fabiano hefur valið gegn Sveshnikov afbrigðinu með 7.Rd5 og grunar okkur hér á Skak.is að Magnús taki ekki áhættuna á því að Caruana sé með eitthvað í pokahorninu í slíkum stöðum. Styrkleikar Magnúsar liggja klárlega í bráðabanaeinvígjum og því vill hann fara þangað. Skak.is spáir því að Magnús rífi í kóngspeðið í dag og svari 1.e4 með 1…e5. Það er nánast öruggt að Fabiano verði einnig með hugmyndir þar en stöðurnar sem koma upp ættu strategískt ekki að vera jafn hættulegar og áhættumiklar og þeir sem hafa komið upp í Sveshnikov.

Getur Fabiano unnið?

Fabiano hefur reyndar ekki unnið Carlsen í kappskák síðan árið 2015 en hann hefur engu að síður oft unnið Magnús. Ef hann ætlar að gera það einhvern tímann aftur þá er rétti tíminn svo sannarlega núna! Bandaríkjamaðurinn hefur sannað á þessu ári að hann er í feykilega góðu formi og hefur haldið í við Magnús og unnið mót þar sem báðir taka þátt á árinu.

Flestir eru einnig á því að ef að Fabiano ætlar að hrifsa titilinn þá verði hann að gera það í kappskákunum þar sem Magnús er talinn hafa mun betri hæfileika og reynslu í styttri bráðabanaskákunum. Elóstiga munur keppenda er aðeins 3 stig í kappskákum en í atskákum er Magnús 91 elóstigi hærri og ef við færum okkur í hraðskákir munar heilum 172 elóstigum!

Hvað gerist ef Magnús tapar?

Ólíklegt er að mikið breytist ef Magnús tapar titlinum en þó má búast við mikilli fjölmiðlaathygli frá Bandaríkjamönnum ef þeir eignast heimsmeistara í skák. Fabiano myndi líklegast verða boðaður í spjallþætti og annað slíkt en það er þó ólíklegt að hafa mikil áhrif vestra. Fabiano er mun hlédrægari karakter heldur en Magnus og ólíklegur að heilla menn með persónutöfrum líkt og t.d. fyrirrennari hans Bobby Fischer gerði. Einnig eru allt aðrir tímar nú og ólíklegt að einhver skáksprengja verði í kjölfarið í Bandaríkjunum.

Ólíklegt er að Norðmenn missi dampinn en þó er spurning hvað gerist ef Magnús er ekki lengur heimsmeistari. Norðmenn fylgjast með hverri keppni sem Magnús tekur þátt í og er heimsmeistaraeinvígið ávallt í beinni útsendingu og engu til sparað í útsendingum. Magnús er þó enn heimsmeistari í hraðskák og er ristjórn nokkuð viss um að ef hann tapar titilinum myndi hann koma tvíefldur til leiks og hrifsa hann aftur árið 2020. Er svo ekki tilvalið að reyna að fá einvígið 2022 á klakann í tilefni 50 ára afmælis einvígis aldarinnar?

 

Hvar er best að fylgjast með einvíginu:

Fjölmargir möguleikar eru í boði til að fylgjast með. Þeir sem hafa sjónvarp er bent á NRK2 þar sem Norðmenn fylgjast spenntir með sínum manni. Útsendingar Chess24 eru mjög vandaðar þar sem heimsklassaskákmenn skýra það sem fram fer. Peter Svidler er áttfaldur Rússlandsmeistari í skák og Alexander Grischuk þrefaldur heimsmeistari í hraðskák. Chess.com hefur haft Hikaru Nakamura í settinu og fleiri aðrir góðir möguleikar í boði.

- Auglýsing -