Frá ádegismótum KR. Myndskreyting: ESE

Varla líður sá laugardagur að eldhressir morgunhanar – les árrisulir ástríðuskákmenn – mæti ekki til tafls í Vesturbænum til að hrista af sér svefndrungan og slenið í vöntun annars betra.  Sumir hafa jafnvel stungið sér til sunds eða gengið upp að steini á Esjunni áður en sest er að tafli.

Ársdegismótin hafa farið vaxið að vinsældum undanfarin ár og eru nú  oft á tíðum orðin fjölsóttari en hin hefðbundu mánudagskvöldmót sem haldin eru allan ársins hring eins og mótin á laugardögum. Allir viðburðir hjá KR eru að sjálfsögðu opnir jafnt ungum sem öldnum.

Frá síðasta árdegismóti. Mynd: ESE

Sigurvegararnir er fjölmargir enda eðlilegt að menn sé misjafnlega fyrirkallaðir eins og gengur ekki síst svo árla dags.  Kristján Stefánsson, hrl., formaður klúbbsins, sem oft hefur krafist þess að haldið sé áfram að tefla þangað til hann sé orðinn efstur, tókst óvænt að vinna síðasta mót þann 15. des.sl. án þess að til þess kæmi með 7 vinningum af 9 mögulegum.  Þórarinn Sigþórsson, alias Tóti Tönn, vermdi annað sætið, en hann hefur verið sigursæll á þessum mótum, alkunnur baráttumaður með einbeittan sigurvilja.  Mótið 8. desember vann Björgvin Ívarsson Scram með 8.5 vinningi af níu. Þar áður Ólafur Þórsson, tvö mót í röð. Jón Úlfljótsson hefur einnig komist á pall, auk Guðfinns R. Kjartanssonar, sem hefur verið drjúgur enda háir honum enginn frammistöðuskortur frekar en mörgum öðrum, sem of langt mál yrði hér upp að telja. Öll úrslit eru birt á feisbúkk klúbbsins fyrir áhugasama.

Skáksalurinn í KR: Mynd: ESE

Nú er framundan sérstakt árdegismót með jólaívafi á laugardaginn kemur, 22. desember. Gómsætir vinningar í verðlaun. Um að gera að mæta áður en haldið er út í jólahasarinn.  Þátttökugjald kr. 500 en aðeins lægra fyrir fastagesti     /ESE

- Auglýsing -