Byrjar vel Jóhann Hjartarson teflir þessa dagana á Opna Gíbraltar-mótinu. Myndin er frá síðasta Reykjavíkurskákmóti. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson

Hjörvar Steinn Grétarsson er í efsta sæti á Skákþingi Reykjavíkur og á skákhátíð MótX í Kópavogi. Í fyrrnefnda mótinu hefur Hjörvar hlotið 5½ vinning af sex mögulegum en í 2.-3. sæti eru Sigurbjörn Björnsson og Guðmundur Kjartansson, báðir með 5 vinninga. Sigurbjörn og Hjörvar tefla í 7. umferð en þá mætir Guðmundur hinum unga Stephani Briem.

Nokkuð var um að menn gleymdu hvað tímanum leið í þriðju umferð skákhátíðar MótX á þriðjudagskvöld; Jón L. Árnason féll á tíma þegar hann var að leika afar slunginn leik í flókinni stöðu gegn Hjörvari Steini og Karl Þorsteins féll líka, með unnið tafl gegn Baldri Kristinssyni.

Hjörvar Steinn komst einn í efsta sætið með 3 vinninga en í 2.-4. sæti eru Þröstur Þórhallsson, Guðmundur Kjartansson og Baldur Kristinsson, allir með 2½ vinning.

Jóhann Hjartarson tók yfirsetu í þessari umferð, en hann situr nú að tafli á opna mótinu á Gíbraltar í vikunni og er með 2½ vinning af þremur eftir sigur í fyrstu og þriðju umferð og jafntefli við rússneska stórmeistarann Vitiugov í 2. umferð.

Viðureign Davíðs Kjartanssonar og Guðmundar Kjartanssonar í 6. umferð á miðvikudaginn var ein innhaldsríkasta viðureign Skákþings Reykjavíkur. Eftir mikinn darraðardans hafði Guðmundur betur:

Davíð Kjartansson – Guðmundur Kjartansson

Caro-Kann vörn

1. e4 c6 2. d4 d5 3. e5 Bf5 4. Rc3 e6 5. g4 Bg6 6. Rge2 c5 7. Be3 h5!?

Eitt hvassasta afbrigði Caro-Kann varnar er komið upp og þessi leikur er sjaldséður. Algengara er 7….Rc6.

8. Rf4 Rc6 9. Rxg6 fxg6 10. Re2 hxg4 11. Rf4 cxd4 12. Bxd4 Rxd4 13. Dxd4 Kf7 14. Bd3?!

Hér missir hvítur frumkvæðið. Eðlilegra er 14. 0-0-0 strax og síðan jafnvel c2-c4.

14….Re7 15. 0-0-0 Rf5 16. Da4 a6 17. c4? b5!

Guðmundur bregst hart við og hvítur hefur ratað í mikil vandræði.

18. cxb5 axb5 19. Dxb5 Dc7+ 20. Kb1 Da7 21. Bc4 Hb8 22. Dc6

– Sjá stöðumynd-

22….Hxb2+?

Algerlega óþörf hróksfórn þegar litið er til þess að svartur átti tvo góða kosti, 22….Hb6! eða jafnvel 22….Rd4 með hugmyndinni 23. Rxd4 Hxb2+! og vinnur, t.d. 24. Ka1 Hxa2+! o.s.frv.

23. Kxb2 Dxf2+ 24. Ka1

Og hér var 24. Kb1! rétti leikurinn.

24….Dxf4 25. Hxd5

25….Bb4 !? 26. Hd7+ Kg8 27. Hd8+ Kh7 28. Hxh8+ Kxh8 29. Hd1 Rd4! 30. Dc8+ Kh7 31. Bxe6 Rxe6 32. Dxe6 Bc3+ 33. Kb1 De4+ 34. Kc1 Bxe5 35. Db3?

Báðir voru í miklu tímahraki. Best var 35. Dd5 og hvítur á jafnteflisvon.

35….Bxh2 36. Dd3 Bf4+ 37. Kc2 Dg2+ 38. Kb3 g3 39. Df1 Dxf1 40. Hxf1 Be3!

– og hvítur gafst upp.

Magnús Carlsen efstur í Wijk aan Zee

Magnús Carlsen er heldur betur kominn í gang í efsta flokki skákmótsins í Wijk aan Zee. Í 10. umferð vann hann Indverjann Anand í 76 leikjum. Lengi vel virtust jafntefli líklegustu úrslitin en Norðmanninum tókst að vinna riddaraendatafl með þrjú peð gegn tveimur – öll á sama væng. Helsti keppinautur hans á lokasprettinum sem hófst í gær virðist ætla að verða heimamaðurinn Giri. Þeir tefla saman í lokaumferðinni á morgun. Staðan: 1. Magnús Carlsen 7 v. (af 10) 2. Giri 6½ v. 3.-5. Nepomniachtchi, Liren Ding og Anand 6 v. 6.-7. Radjabov og Vidit 5 v. 8.-11. Fedoseev, Rapport, Duda og Shankland 4½ v. 12.-13. Van Foreest og Mamedyarov 4 v. 14. Kramnik 2½ v.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 26. janúar 2019

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -