Fyrsti leikurinn Ottó Tulinius, barnabarn Ottós Tulinius konsúls, fyrsta formanns Skákfélags Akureyrar, leikur fyrsta leikinn í skák Örnu Daggar Kristinsdóttur og formanns bæjarráðs, Guðmundar Baldvins Guðmundssonar, á aldarafmæli Skákfélags Akureyrar. — Morgunblaðið/Sigurður Arnarson

Skákfélag Akureyrar fagnaði þann 10. febrúar sl. aldarafmæli sínu en vegna afmælisins hafa félagar og velunnarar þess efnt til margháttaðrar dagskrár sem hófst haust sem leið og nær hámarki með Íslandsmótinu 2019 á Akureyri, sem verður með sniði opins alþjóðlegs móts og stendur yfir dagana 25. maí 1. júní.

Saga Skákfélags Akureyrar er merk en um hana ritaði Jón Þ. Þór bókina Skák í hundrað ár sem var gefin út árið 2001. Þetta er saga félagslegrar auðlegðar, afreka, margháttaðra skákviðburða og skemmtilegra persónuleika.

Eftir að Íslandsmót skákfélaga, sem fyrstu árin gekk undir nafninu „Deildakeppnin“ , hófst formlega á Akureyri haustið 1974 hafa sveitir félagsins sett sterkan svip á keppnina og í fyrirrúmi verið tryggð við „sitt gamla félag,“ eins og það var einu sinn orðað. Fyrrverandi formaður SA og heiðursfélagi SÍ, Gylfi Þórhallsson, tefldi í hverri einustu umferð Íslandsmótsins áratugum saman og nefna má aðra félagsmenn sem koma ekki langt að baki hvað slíka þátttöku varðar.

Í haust hafði formaðurinn, Áskell Örn Kárason, veg og vanda af því að bjóða 8-9 ára nemendum í fimm grunnskólum Akureyrar upp á reglulega skákkennslu og er áætlað að þessi kennsla hafi náð til u.þ.b. 500 skólabarna.

Næsta stóra verkefni hjá SA er hátíðarútgáfa af Skákþingi Norðlendinga og hefst það 22. mars nk. Þetta verður 85. Norðurlandsmótið.

Hannes Hlífar í 2. sæti í Portúgal

Hannes Hlífar Stefánsson var ekki langt frá efsta sæti á opna mótinu sem lauk í Portúgal um síðustu helgi. Hannes hlaut 7 vinninga af níu mögulegum, hafnaði i 2. – 9. sæti, taplaus. Hann var ½ vinningi á eftir sigurvegaranum Bonelli Iturrizaga frá Venesúela sem hlaut 7 ½ vinning.

Mansúba

Á skákdeginum 26. janúar sl. heilsaði Friðrik Ólafsson upp á nokkra þá sem stóðu fyrir skákviðburðum á höfuðborgarsvæðinu en víða um land var taflið tekið fram og margt skemmtilegt sem þar gerðist er rakið á heimasíðu skákhreyfingarinnar, skak.is. Magnús V. Pétursson hélt afmælismót sitt í tengslum við skákdaginn og þangað mætt Friðrik, heilsaði upp á keppendur og fylgdist með mótinu. Hann hefur ósjaldan gaukað að mér fróðleik úr heimi skáklistarinnar sbr. eftirfarandi dæmi:

Afmælismót Magnúsar V. Péturssonar:

Sæbjörn G. Larsen – Gunnar Gunnarsson

Í tölvupósti sem hann sendi mér stóð þetta ritað m.a.:

„Ég sendi þér lokin á skákinni milli Sæbjörns og Gunnars Gunnarssonar úr sjöttu umferð Magnúsar P. – mótsins núna á dögunum en þau minntu mig strax á þá tíma þegar skákin átti sitt blómaskeið á gullaldarárum íslamska heimveldisins (ca. 750-1258). Skákþrautir af þessu tagi voru nefndar “mansúba“, sem einfaldlega útleggst tafllok. Lausn mansúba var í því fólgin, að sá sem á leikinn verður að finna leið til að máta andstæðing sinn, annars verður hann mátaður sjálfur. Það er ljóst að svartur er óverjandi mát í næsta leik, ef hann finnur ekki mótleik. Í fyrstu virtist mér Gunnar ætla að leika 1. … Dxa4, sem að sjálfsögðu bjargar ekki neinu. En svo birti allt í einu yfir ásjónu hans og gamalkunnugt blik kom í augun. Hann greip annan mann. Hver var sá maður og hver var leikurinn?“.

Við birtum svarið í pistli eftir viku.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 16. febrúar 2019.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -