Norðurlandameistarar Jón Kristinn Þorgeirsson (t.v.) og Stephan Briem með verðlaunagripi sína. — Morgunblaðið/Gunnar Björnsson

Akureyringurinn Jón Kristinn Þorgeirsson og Stephan Briem úr Kópavogi unnu sína flokka á Norðurlandamóti ungmenna 20 ára og yngri, en mótið fór fram við góðar aðstæður í Borgarnesi um síðustu helgi. Norðurlandaþjóðirnar sex eiga tvo fulltrúa í hverjum hinn fimm aldursflokka og að vinna tvenn gullverðlaun í fimm flokkum er alltaf gott. Þess má geta að Vignir Vatnar Stefánsson var jafn Stephan í B-flokki mótsins, þ.e.a.s. í flokki keppenda sem eru fæddir á árunum 2002-2003, en Stephan var hærri á stigum og vann auk þess innbyrðis viðureign þeirra. Stephan er tvímælalaust maður mótsins og hækkar um 110 Elo-stig fyrir frammistöðu sína.

Jón Kristinn Þorgeirsson er ekki aðeins mesta efni sem Akureyringar hafa eignast, heldur einnig einn sterkasti skákmaður sem þaðan hefur komið. Hann kom akandi í þæfingsfærð yfir heiðar norðurlands á Suzuki Swift-bifreið sinni og sneri aftur sömu leið frá Borgarnesi með gull í farangrinum.

Á NM í fyrra unnu Íslendingar einnig tvenn gullverðlaun. Jón Kristinn hreppti þá brons í elsta aldursflokknum, var núna á síðasta aldursári og kvaddi þ.a.l. þennan keppnisvettvang. Hilmir Freyr Heimisson vann þá aldursflokk C með glæsibrag en eftir að hafa tapað fyrir Jóni í 2. umferð minnkuðu möguleikar hans umtalsvert. Hann vann samt góða sigra, fyrst yfir stigahæsta keppandanum, Finnanum Toivo Keinanen, og í síðustu umferð lét hann hann allt vaða:

NM ungmenna Borgarnesi 2019; 6. umferð:

Hilmir Freyr Heimisson – Andreas Fossan

Caro-Kann vörn

1. e4 c6 2. Rc3 d5 3. Df3 d4 4. Bc4 e6 5. Rce2 Re7 6. Dg3 a5 7. a3 b5 8. Ba2 Bb7 9. d3 Rg6 10. h4 Bd6 11. f4 Hg8 12. Rf3 Ra6 13. h5 Re7 14. Rexd4 Rc7 15. Be3 c5 16. Re2 Rc6 17. Df2 Ra6 18. h6 Dc7 19. e5 Be7 20. Rc3 Db6

Um byrjun þessarar skákar er það helst að segja að svartur hefur farið illa að ráði sínu, er peði undir með óteflandi stöðu. Hilmir gat landað vinningnum með ýmsum hætti en skemmtileg leið freistaði hans.

21. f5 exf5

22. Bxf7+!?

Gott var einnig 22. e6.

22. … Kxf7 23. Rg5+ Bxg5 24. Dxf5+ Bf6 25. exf6 gxf6 26. Dxh7+ Ke6 27. Rd5!

– Sjá stöðumynd 1 –

Glæsilega leikið.

27. … Kxd5 28. Df7+

Önnur vinningsleið var 28. Dd7+ Ke5 29. Bf4+! Kxf4 30. Hh4+! og svartur er óverjandi mát á e4, g4, eða h3.

28. … Ke5

Eftir 28. … Kd6 29. Bf4+ Re5 30. Dxf6 Kc7 31. Bxe5+ fellur svarta drottningin óbætt.

29. Hh5+ Hg5 30. Bf4+! Kxf4 31. Dxf6+ Kg3 32. Hh3+ Kg2 33. Df3+ Kg1

Og nú lýkur hvítur loks liðsskipan sinni…

34. O-O-O mát!

Í C-riðli, flokki keppenda sem fæddir eru 2004-2005, sigraði Norðmaðurinn Noam Vitenberg, í D-flokki þar sem keppendur eru fæddir 2006-2007 sigraði Svíinn Adrian Soderström og í flokki keppenda sem eru fæddir 2008 og síðar varð Norðmaðurinn Aksel Kvaloy efstur. Norðmenn fengu flesta vinninga samanlagt, en Íslendingar komu næstir ásamt Finnum.

Mansúba

Í síðasta pistli var sagt frá skemmtilegri skák á afmælismóti Magnúsar V. Péturssonar og frásögn Friðriks Ólafssonar. Í þessari stöðu átti Gunnar Gunnarsson leik:

Sæbjörn G. Larsen – Gunnar Gunnarsson

Svartur er óverjandi mát ef hann finnur ekki eina leikinn í stöðunni. Eftir nokkra umhugsun lék Gunnar Hg2+! og Sæbjörn gafst upp því að Kxg2 er svarað með Re3+ og næst Dg2 mát!

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 16. febrúar 2019.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -