Klippa úr Landanum
Það er skákdagur í grunnskólanum í Stykkishólmi. Nýjasti stórmeistari landsins, Bragi Þorfinnsson, er kominn í Hólminn á vegum Skáksambands Íslands til að kynna þessa hugans íþrótt. „Það er gaman að koma hingað og finna hvað áhuginn er mikill. Flest kunna þau mannganginn sem er magnað,” segir Bragi. Hann segir að skák fari aldrei úr tísku.

„Þetta er leikur sköpunar sem býður upp á endalausa möguleika og það má segja að skákin sé svona núvitundartæki.”

Í flestum grunnskólum hefur verið mikil umræða um notkun farsíma og annarra snjalltækja.

„Við vildum ekki fara þá leið að banna þessi tæki en þess í stað reyna að takmarka notkun þeirra með því að skaffa eitthvað annað í staðinn. Við settum upp borð með taflborðum og ýmiss konar spilum og það hefur virkað. Krakkarnir velja í auknum mæli að sleppa símanum í frímínútunum,“ segir Berglind Axelsdóttir skólastjóri Grunnskólans í Stykkishómi.

Sjá í heild sinni sem og myndbrotið úr Landanum á vef RÚV. 

- Auglýsing -