Hraðskákmótið Harpa Blitz er enn einn fastur liðurinn á GAMMA Reykjavíkurskákmótinu. Keppendur láta sig yfirleitt ekki vanta og hefur verið fasti að 50-70 manns mæta á mótið. Keppendur að þessu sinni voru 75 talsins og stemmning góð!  Mótið er ekki reiknað til stiga þar sem viðburðir eru í Hörpu á sama tíma og létt stemmning og menn að fá sér veitingar.

Engu að síður er alvaran komin á fullt um leið og klukkurnar fara af stað og var mótið í ár engin undantekning. Tyrkinn Mustafa Yilmaz hafði unnið mótið tvö ár í röð en þar sem hann er ekki með á Reykjavíkurskákmótinu í ár var ljóst að nýr sigurvegari yrði krýndur.

Tefldar voru 9 umferðir með umhugsunartímanum 3+2 þ.e. 3 mínútur á skákina og 2 sekúndur í viðbótartíma, sömu tímamörk og á HM í hraðskák.

Enski skákmaðurinn Gawain Jones var í sérflokki framan af móti ásamt Tigran Petrosian en þeir lögðu hvern andstæðinginn á fætur öðrum og var Gawain efstur eftir 7 umferðir og lagði Tigran að velli. Næstu menn voru hálfum vinningi á eftir og því ljóst að baráttan myndi standa á milli þeirra. Mjög óvænt missti Gawain hinsvegar niður 1.5 vinning í síðustu tveimur skákum og Jorden van Foreest náði honum að vinningum með góðum endasprett. Það dugði hinsvegar ekki til þar sem Gawain var með betri stig enda á toppnum allan tímann. Tigan Petrosian endaði í þriðja sæti.

Björn Þorfinnsson var bestur Íslendinga

Björn Þorfinnsson stóð sig best Íslendinga en hann hlaut 7 vinninga af 9 mögulegum og var að tefla með árangur upp á 2555 hraðskákstig! Aðeins munaði hársbreidd í síðustu skákunum að Björn kæmist á pall en aðeins þrír efstu fengu verðlaun.

Efstu menn hlutu peningaverðlaun en jafnframt voru dregin út bókaverðlaun og þau hlaut Kanadamaðurinn Mike Mcdonald.

Gawain varð efstur
Jorden van Foreest í öðru sæti
Tigran Petrosian í þriðja sæti

Mótið á chess-results – úrslit og lokastaða

Fleiri myndir frá mótinu:

- Auglýsing -