Gawain Jones lagði Konstantin Lupolesco að velli í dag. Mynd: Fiona

Áttunda og næstsíðasta umferð Reykjavíkurskákmótsins var tefld í Hörpu í dag. Fyrir umferðina hafði Rúmeninn Konstantin Lupulescu eins vinnings forskot á nokkra keppendur. Breski séntilmaðurinn Gawain Jones sem margoft hefur teflt á Íslandi fékk tækifæri til að ná Lupulescu ynni hann innbyrðis skák þeirra. Fljótlega eftir byrjunina hafði Lupulescu uppi þónokkra sóknartilburði og flæktist taflið. Jones náði að greiða úr flækjunum og vann öruggan sigur í endatafli. Jones, Lupulescu og landi hans Mircea-Emilan Parligras eru efstir fyrir síðustu umferðina með sex og hálfan vinning.

Íslandsvinirnir Nils Grandelius og Gupta gerðu jafntefli í afar spennandi skák. Mynd: Fiona

Guðmundur Kjartansson átti góðan dag þegar hann vann indverska undrabarnið Gukesh. Gukesh sem er ekki orðinn þrettán ára er yngsti stórmeistari heims. Sannarlega vel gert hjá Guðmundi sem hefur átt gott mót. Guðmundur og Jóhann Hjartarson eru efstir Íslendinga með sex vinninga. Dagur Ragnarsson vann þýskan stigalægri skákmann og er með fimm og hálfan vinning. Jafntefli á morgun tryggja honum alþjóðlegan meistaratitil.

Dagur Ragnarsson að tafli í dag. Geri hann jafntefli á morgun tryggir hann sér alþjóðlegan meistaratitil.

Lokaumferðin hefst klukkan 11:00 í fyrramálið. Parligras hefur þá hvítt á Lupulescu og Jones hefur hvítt á hollenska stórmeistarann Erwin L´Ami sem sigraði á Reykjavíkurskákmótinu fyrir fáeinum árum. Jóhann Hjartarson teflir við íranska skákmanninn Alireza Firouzja sem að mörgum er talinn mesta skákefni í heiminum í dag. Hann er aðeins 15 ára og gæti orðið sá yngsti í sögunni til að fara yfir 2700 skákstig.

Endurspilun á útsendingu 8. umferðar hér

 

- Auglýsing -