Séð yfir skáksalinn. Mynd: Fiona Steil-Antoni.

Armenarnir Sergei Movsesian og Robert Hovhannisjan deila efsta sæti með 15 ára gömlum Írana, Firouzja Alireza, þegar fimm umferðir eru búnar. Eins og kom fram í pistli sem ég skrifaði sl. laugardag er þessum unga Írana spáð miklum frama í skákinni. Það eru góð tíðindi, einkum þegar horft er til þess að klerkaveldið sem tók völdin í Íran árið 1979 bannfærði skáklistina um tíma en hófsamari öfl sneru við blaðinu.

Á eftir þremenningunum koma keppendur með fjóra vinninga og er enginn Íslendingur í þeim hópi. Jóhann Hjartarson, Hannes Hlífar Stefánsson, Bragi Þorfinnsson, Sigurbjörn Björnsson, Björn Þorfinnsson og Dagur Ragnarsson eru allir með 3½ vinning.

Í gær var frídagur en áður en sjötta umferðin hefst í dag fer fram skemmtilegur viðburður, „barna-blitz“, ætlað keppendum 12 ára og yngri. 16 ungmenni hefja keppni, þar af fimm stúlkur.

Eins og áður hefur komið fram hafa margir okkar manna verið að ná góðum úrslitum. Má þar nefna Braga Þorfinnsson og hinn 15 ára gamla Stephan Briem, og systir hans, Guðrún Fanney, níu ára, vann kunnan hollenskan skákmann. Og Dagur Ragnarsson sýndi strax í byrjun að hann gengur óhræddur til leiks gegn hverjum sem. Andstæðingur hans er einn besti skákmaður Hollendinga nú um stundir:

Reykjavíkurskákmótið 2. umferð:

Dagur Ragnarsson – Jorden Van Foreest

Slavnesk vörn

1. d4 d5 2. c4 c6 3. Rf3 Rf6 4. Db3 dxc4 5. Dxc4 Bg4 6. Db3 Db6 7. e3 Rbd7 8. Rbd2 e6 9. Be2 Dxb3 10. Rxb3 a5 11. a4 Bd6 12. 0-0 0-0 13. Bd2 Bc7 14. h3 Bf5 15. Hfc1 h6 16. Be1 Re4 17. Rfd2 Rxd2 18. Bxd2 Hfd8 19. Be1 Bb6 20. Ha3 Bc7 21. Bf3 Bg6 22. Bc3 e5

Það er ekki margt um þessa byrjun að segja þó að einhver gæti spurt hvað hrókurinn væri að gera á a3. Þar sem Dagur hafði teflt fram liði sínu á afskaplega hógværan hátt mátti kannski búast við miklum rólegheitum áfram.

23. d5 e4 24. dxc6 exf3 25. cxb7?!

Almennt er ekki mælt því að fórna liði í endatafli og hvítur gat einfaldlega leikið leikið 25. cxd7 og þá er staðan í jafnvægi. En mannsfórnin freistaði.

25…. Ha7

26. Bxa5!

Og hvítur fórnar öðrum manni!

26…. Bxa5 27. Rxa5 Hxa5 28. Hc8 Hf8 29. b4

Þetta var hugmyndin. Frípeð hvíts halda Van Foreest við efnið sem þarf nú að velja stað fyrir hrókinn.

29…. Hd5?

„Vélarnar“ telja að svartur geti unnið með 29…. Ha7 30. Hc7 Rb8 en þetta er ekki alveg einfalt eftir 31. gxf3, 29…. Hg5 var einnig góður leikur.

30. gxf3 Bd3 31. Hac3! Hg5+ 32. Kh2 Ba6 33. h4 Hg6 34. H3c7 Bxb7 35. Hxf8+ Kxf8 36. Hxb7 Re5 37. f4 Rg4+ 38. Kg3 Rxe3+ 39. Kf3 Rf5 40. b5

Frípeðin tryggja jafnteflið.

40…. He6 41. a5 Rd6 42. Hb6 Ke7 43. a6 Rxb5 44. Hxb5 Hxa6

– Jafntefli.

„Magno-saurus“ vann með yfirburðum í Aserbaídsjan

Norski heimsmeistarinn bætti enn einni rósinni í hnappagatið með yfirburðasigri á minningarmótinu um Vugar Gashimov. Armenski stórmeistarinn Aronjan „tísti“ nýrri nafngift á þennan mikla skákmannaskelfi: „Magno-saurus“.

Í lokaumferðinni vann Magnús Rússann Grischuk í 39. leikjum og munaði tveimur vinningum á honum og næstu mönnum. Lokastaðan:

1. Magnús Carlsen 7 v. (af 9). 2.-3. Karjakin og Ding 5 v. 4.-6. Anand, Radjabov og Grischuk 4½ v. 7.-8. Topalov og Navara 4 v. 9. Mamedyarov 3½ v. 10. Giri 3 v.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 13. apríl 2019.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -