Átta skákmenn urðu efstir og jafnir á 34. Reykjavíkurskákmótinu sem lauk í Hörpu á mánudaginn. Að teknu tilliti til mótsstiga var röðin þessi: 1.-8. Lupulescu, Alireza, Grandelius, Jones, Parligras, Petrosjan, Tari og Gupta, allir með sjö vinninga af níu mögulegum.

Lupulescu er sigurvegari mótsins eftir stigaútreikning og er vel að því kominn. Hann tefldi á efsta borði nánast allt mótið og hafði um tíma vinnings forskot á næstu menn en tapaði fyrir Gawain Jones í áttundu umferð. Að svo margir skákmenn skipi efsta sætið kemur ekki á óvart því það að hafa einungis níu umferðir er of lítið í opnu móti með um 250 keppendur. Ekki er lagt síðan tefldar voru tíu umferðir á Reykjavíkurmótinu en mótshaldarinn vill halda í frídag svo hinir erlendu keppendur geti skoðað sig um eða tekið þátt í hinum ágætu hliðarviðburðum skákhátíðarinnar.

Hannes Hlífar Stefánsson fékk flesta vinninga íslensku skákmannanna, 6½ vinning af 9, og raðast í 18. sæti af þeim sem tíu sem voru með sömu vinningatölu. Hann átti ekki möguleika á einu af efstu sætunum er lokaumferðin rann upp en vann Guðmund Kjartansson sem var með 6 vinninga. Jóhann Hjartarson var þá einnig með möguleika á að komast í efsta sætið, átti vinningsmöguleika um tíma í skák sinni við hina ungu stjörnu Íran, Firouzja Alireza, en tapaði um síðir. Hann átti síðar um daginn flug til Helsinki og svo áfram þaðan til móts við íslenska landsliðið sem teflir þessa dagana á HM öldungasveita á grísku eyjunni Ródos. Knöpp ferðaáætlun var ekki eini streituvaldur Jóhanns því helsti galli Hörpu sem keppnisstaðar – mikill hávaði frá tónleikum, ráðstefnum og gestagangi – truflaði einbeitingu hans. Hvað sem því líður geta yngri skákmennirnir tekið sér Jóhann til fyrirmyndar; hann tefldi hverja einustu skák en aðrir af okkar bestu mönnum tóku a.m.k. eina ½ vinnings yfirsetu.

Mestu stigahækkanir íslensku keppenda komu í hlut Adams Omarssonar sem hækkaði um 91 Elo-stig og Stephans Briem sem hækkaði um 75 Elo-stig. Mótið var vel skipulagt í hvívetna og gott að hafa jafn hæfan tæknistjóra og Ingvar Þór Jóhannesson sem sá um beinar útsendingar. GAMMA var aðalstyrktaraðili mótsins.

Jón Kristinsson með fullt hús á Ródos

Íslensku liðin sem taka þátt á HM öldungasveita Ródos fara nokkuð vel af stað. Fyrrverandi Íslandsmeistari, Jón Kristinsson, hefur unnið allar skákir sínar. Jón, sem er kominn fast að áttræðu, fór létt með rússneskan stórmeistara í 2. umferð:

Jón Kristinsson – Nikoloja Puskov (Rússland)

Drottningarbragð

1. d4 Rf6 2. c4 e6 3. Rc3 d5 4. cxd5 exd5 5. Bg5 Rbd7 6. e3 c6 7. Bd3 Be7 8. Dc2 Rh5 9. Bxe7 Dxe7 10. Rge2 g6 11. O-O-O Rb6 12. Kb1 Rg7 13. Hhe1 Be6 14. Rf4 O-O-O 15. Ra4!

Jón er vel að sér í fræðunum. Þetta er talin besta leiðin til að berjast fyrir frumkvæðinu.

15. Rxa4 16. Dxa4 Kb8 17. Hc1 Bf5 18. Hc3 Bxd3+?

Þessi uppskipti eru ótímabær og bæta stöðu riddarans til muna. 18. … g5! var nauðsynlegur leikur.

19. Rxd3 Rf5 20. Ha3 a6 21. Hb3! Ka7 22. Da5

Vinnur fljótt en sterkara var þó 22. Hc1!

22. … Hb8?

Hann gat varist með 22. … Rd6.

23. Rc5 Hhc8 24. Hb6!

– og svartur gafst upp. Það er engin vörn gegn hótunnni 25. Hxa6+, 24. Ka8 er svarað með 25. Rxa6! o.s.frv.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 20. apríl 2019.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -