Í sérflokki Magnús Carlsen teflir við Vachier-Lagrave. Anand fylgist með.

Með yfirburðasigri á skákmótinu í Grenke í Þýskalandi sem lauk um síðustu helgi nálgast Magnús Carlsen eigið stigamet frá árinu 2014, 2.884 elo-stig. Hann hlaut 7 ½ vinning af níu mögulegum og komst með því upp í 2.875 elo-stig. Magnús er í algerum sérflokki þessa dagana, vann sitt þriðja stórmót á árinu og slær út helstu kempur skáksögunnar svo að einungis Garrí Kasparov, sem trónaði á toppi elo-listans í meira en 20 ár, stenst einhvern samanburð. Kasparov hefur það enn fram yfir Magnús að hafa unnið tíu mót í röð í kringum síðustu aldamót.

Þolgæði Magnúsar í löngum og ströngum endatöflum kom enn og aftur í ljós. Í fyrstu umferð byrjaði hann á því að vinna Þjóðverjann unga Martin Keymer í 81 leik og í þeirri næstu fékk hann upp stöðu með kóng, hrók og biskup gegn kóngi, biskupi og riddara í skák sinni við Spánverjann Vallejo Pons, gekk til dómarans og spurði hvort einhver undantekning væri í gildi á 50 leikja reglunni – og svarið var nei. Á því augnabliki lá fyrir að „vélarnar“ töldu stöðu Magnúsar unna, en það tæki 54 leiki með bestu taflmennsku. Hann vann hinsvegar skákina eftir 23 leiki frá því að umrædd staða kom upp. Eftir þrjú jafntefli vann hann svo fjórar síðustu skákir sínar gegn Meier, Aronjan, Svidler og Vachier-Lagrave. Lokastaðan var þessi:

1. Magnús Carlsen 7 ½ v. (af 9) 2. Caruana 6 v. 3.-4. Vachier-Lagrave og Naiditsch 5 v. 5. – 7. Anand, Svidler og Aronjan 4 ½ v. 8. Vallejo 4 v. 9. – 10. Meier og Keymer 2 v.

Fyrir síðustu umferð þurfti Magnús aðeins jafntefli til að tryggja sigur sinn í mótinu. En hann tefldi til vinnings og náði því markmiði. Skákin við Frakkann sem sjaldan tapar er svolítið dæmigerð fyrir það þegar jafnvel öflugustu skákmenn tefla eins og dæmdir menn:

Grenke 2019; 9. umferð:

Magnús Carlsen – Vachier-Lagrave

Enskur leikur

1. c4 c5 2. g3 g6 3. Bg2 Bg7 4. Rc3 Rc6 5. Rf3 d6 6. O-O Bf5 7. h3 Rf6 8. d3 O-O 9. Be3 a6 10. Dd2 b5?!

Þessi peðsfórn er óþörf og á ekki rétt á sér en Vachier-Lagrave hefur greinilega talið að eitthvað sérstakt þyrfti til í þessari viðureign.

11. cxb5 axb5 12. Rxb5 Da5 13. Rc3 Hab8 14. Hfc1 Hfc8 15. b3 e5 16. Bh6 Rd4 17. Bxg7 Rxf3 18. exf3!

Óvænt uppskipti en það kemur strax í ljós hvað býr að baki.

18. … Kxg7 19. f4!

Nú veikist staða svarts á miðborðinu.

19. … Da6 20. fxe5 dxe5 21. Ra4 Rd7 22. Hc3 Hb4 23. g4 Be6

24. Rxc5!

Eftir allt saman var það þá Magnús sem braust fram á drottningarvængnum.

24. … Rxc5 25. Hxc5 Hxb3 26. Hxc8 Bxc8 27. Hc1 Hxd3

Ekki 27. … Ha3 vegna 28. Hc6! t.d. 28. … Db7 29. Hxg6+ og drottningin fellur. Skást var 27. … Hb8.

28. De2 Be6 29. Dxe5 Kg8 30. Hb1 Hd8 31. Hb8 Hxb8 32. Dxb8 Kg7

33. Bd5!

Bráðsnjall leikur sem skýlir a-peðinu. Í drottningaendataflinu sem í hönd fer verður svartur að skapa mótfæri gegn kóngi hvíts. Það tekst ekki.

33. … Bxd5 34. De5+ f6 35. Dxd5 h5 36. gxh5 gxh5 37. Dd7+ Kg6 38. a4 De2 39. Dd5!

Valdar alla mikilvæga reiti.

39. … f5 40. a5 f4 41. Kg2! Kh6 42. Df5 Dc4 43. Kf3

– Nú fellur f4-peðið og kóngurinn leitar svo aftur skljóls á g2 eða á drottningarvængnum. Frekari barátta er vonlaus og Vachier-Lagrave gafst upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 4. maí 2019

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -