Sulypa og Björn Ívar í heimsókn þess fyrrnefnda fyrr í ár.

Verkefninu Skákframtíðinni var hleypt af stokkunum í byrjun mars síðastliðinum. Markmið verkefnisins er að efla afreksstarf fyrir íslensk ungmenni. Stofnaðir voru tveir úrvalsflokkar fyrir nemendur á aldrinum 9-12 ára og 13-16 ára. Úkraínski stórmeistarinn og skákþjálfarinn Oleksandr Sulypa kom til landsins í mars og hélt æfingabúðir ásamt Birni Ívari Karlssyni, einum af umsjónarmönnum verkefnisins. Þar spreyttu nemendur sig á fjölbreyttum verkefnum og þreyttu próf til þess að meta getu þeirra. Í framhaldinu hafa verið haldnir reglulegir fyrirlestrar og kennsla í gegnum Skype sem nemendur hafa getað fylgst með og tekið þátt í að heiman. Ásamt Sulypa hefur kollegi hans, úkraínski stórmeistarinn og þjálfarinn, Adrian Mikhalchishin komið að fyrirlestrunum ásamt Birni Ívari og hafa þeir hlotið góðar viðtökur nemenda. Þess á milli hafa nemendur unnið í heimaverkefnum, skilað úrlausnum til þjálfaranna, og fengið til baka ábendingar og aðstoð.

Verkefninu verður framhaldið og áfram er unnið í því að gefa fleiri áhugasömum þátttakendum kost á að kynnast verkefninu og taka þátt í því. Eitt af því sem stefnt er að er meðal annars að hópurinn taki þátt í æfingabúðum erlendis á næstu misserum.

- Auglýsing -