Skákmenn Agnar Tómas Möller leikur fyrsta leikinn á Meistaramóti Skákskóla Íslands fyrir sigurvegarann sem síðar varð, Vigni Vatnar Stefánsson. — Morgunblaðið/
63 skákmenn eru skráðir til leiks á opna Íslandsmótinu sem hefst í dag í salnum Hamrar í menningarsetrinu Hofi í miðbæ Akureyrar. Mótið er haldið í tilefni 100 ára afmælis Skákfélags Akureyrar og er jafnframt minningarmót um Guðmund Arason, fyrrum forseta SÍ, sem einnig fæddist árið 1919 en fyrirtækið sem hann stofnaði, Guðmundur Arason smíðajárn er helsti styrktaraðili mótsins.
„Opna Íslandsmótið“ var haldið fyrst fyrir nokkrum árum og skipulag þess dregur dám af Reykjavíkurskákmótunum; tefldar verða níu umferðir á átta dögum eftir tímamörkunum 90 30 á 40 leiki og 30 30 til loka skákar, allir geta verið með og eru 15 erlendir skákmenn á þátttakendalistanum. Fara þar fremstir stórmeistararnir Ivan Sokolov og Tiger Hillarp Persson. Þá eru fjórir indverskir skákmenn meðal þátttakenda og einn frá Íran.

Elsti keppandinn kemur frá Bandaríkjunum, Viktors Pupols, en hann er fæddur árið 1934, tefldi við Bobby Fischer á bandaríska unglingameistaramótinu árið 1955 – og vann!

Hannes Hlífar Stefánsson, Héðinn Steingrímsson, Helgi Áss Grétarsson, Guðmundur Kjartansson, bræðurnir Bragi og Björn Þorfinnssynir, Þröstur Þórhallsson eru stigahæstir okkar manna.

Vignir Vatnar sigraði á Meistaramóti Skákskóla Íslands

Vignir Vatnar Stefánsson varð efstur í A-flokki Meistaramóts Skákskóla Íslands sem fram fór um síðustu helgi. Þar tefldu skákmenn með meira en 1600 elo-stig allir við alla og hlaut Vignir 6 ½ vinning af sjö mögulegum. Í 2. sæti varð Aron Thor Mai með 6 vinninga af sjö og í 3. sæti kom Gauti Páll Jónsson 4 ½ vinning.
Í flokki skákmanna undir 1600 elo stigum voru þátttakendur 22 og þar sigraði Benedikt Þórisson með glæsibrag, hlaut 7 ½ vinning af átta. Jafnteflið er til komið vegna yfirsetu í 4. umferð sem var á dagskrá á meðan Eurovision söngvakeppnin fór fram. Stefán Davíðsson varð í 2. sæti með 5 ½ vinning og í 3. – 6. sæti komu Tómas Möller, Ingvar Wu Kristján Dagur Jónsson, Ingvar Wu og Iðunn Helgadóttir með 5 vinninga.

Meistaramótið hefur verið sterkasta unglingamót sem fram fer hér a landi ár hvert en keppt er um fjölmarga ferðavinninga. Aðalstyrktaraðili mótsins var GAMMA.

Útsmogin gildra á heimsbikarmótinu í Moskvu

Á heimsbikarmótinu í Moskvu sem nú stendur yfir hófu 16 stórmeistarar útsláttarkeppni um síðustu helgi. Keppt er um tvö sæti í átta manna áskorendamóti sem fram fer á næsta ári. Nú standa eftir Nepomniachtchi, Nakamura, Grischuk og Wojtaszek. Einvígin byrja með tveim kappskákum og verði jafnt, 1:1, er gripið til at-skáka, 25 10. Í slíkum mótum eru vinningarnir harðsóttir því þessir menn skilja flest og kunna allt. En gildran sem heimsmeistarinn í at-skák, Danill Dubov féll í gegn Nakamura var óvenjulega útsmogin:
Heimsbikar í Moskvu 2019; 3. umferð:

Daniil Dubov – Hikaru Nakamura

Síðasti leikur hvíts var 33. Ha8-d8. Nakamura gat varist með 33. … Bxc5 34. dxc5 Be4 með jafnteflislegri stöðu en hann valdi annan leik:

33. … Be7! 34. Hxd5?

Þetta hefði hann betur látið ógert.

34. .. Bc8! 35. Kf1 Hb5!

Hrókurinn á d5 er í herkví. Eftir

36. Ke2 Be6 37. Rxe6 Hxd5

var svartur skiptamun yfir en úrvinnslan ekki einföld. Nakamura tókst þó að vinna eftir 79 leiki.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 25. maí 2019

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -