Aleksandra Goryachkina fer hamförum í Kazan. Mynd: FIDE

Áskorendamót FIDE fer fram þessa dagana í Kazan í Rússlandi. Þar tefla átta skákkonur um réttinn til að mæta hinni kínversku Ju Wenjun í heimsmeistareinvígi kvenna, væntanlega síðar á þessu ári.

Áskorandamótið er hluti af endurreisn FIDE en HM-keppni kvenna var í algjörum ólestri hjá fyrri forystu FIDE en með nýjum ráðamönnum þess undir forystu Arkady Dvorkovich, hefur það heldur betur breyst.

Á áskorendamótinu tefla átta skákkonur tvöfalda umferð, alls 14 skákir.

Hinn tvítuga rússneska skákkona, Aleksandra Goryachkina (2522) er í miklu stuði á mótinu. Þegar níu umferðum er lokið hefur hún 2½ vinnings forskot. Það virðist fátt geta komið í veg fyrir að hún verði áskorandi Jun Wenjun.

Séð yfir glæsilegan skáksalinn í Kazan. Mynd: FIDE.

Það sem gerir árangur Goryachkinu enn athyglisverðari er sú staðreynd að hún fékk keppnisrétt á mótinu sem varamaður Hou Yifan sem hafnaði boði um þátttöku.  Aleksandra hefur 7½ vinning. Í öðru sæti er hin rússneska Kateryna Lagno (2554) með 5 vinninga. Í 3.-4. sætu er úkraínsku systurnar Anna (2539) og Mariya Muzychuk (2563).

Staðan eftir níu umferðir

Góða umfjöllun um mótið má finna á Chess.com.

Mótinu er framhaldið með 10. umferð í dag. Mótinu lýkur þann 17. júní nema að komi til þess að tvær verði jafnar og efstar sem verður að teljast afar ólíklegt eins og staðan er núna.

- Auglýsing -