Fyrir 50 árum, nánar tiltekið þann 17. júní árið 1969, rættist spádómurinn um Boris Spasskí – að hann myndi einn daginn verða heimsmeistari í skák. Þjóðhátíðardagur Íslendinga var einnig 40 ára afmælisdagur Tigrans Vartan Petrosjan sem hafði borið skákkrúnuna í sex ár. Tveim vinningum undir og með tapaða biðstöðu í 23. skák bauð Armeninn jafntefli sem Spasskí þáði með sigurbros á vör. Lokaniðurstaðan varð 12½ : 10½.

Örlögin höguðu því svo að Spasskí kom til Íslands þrem árum síðar til að verja titilinn. Má geta þess að Guðmundur G. Þórarinsson, sem þá var forseti SÍ, er að skrifa bók um einvígið 1972, en hann var í Moskvu á dögunum og reyndi að ná fundi Spasskís, sem ekki tókst því að þessi ágæti vinur okkar hefur lengi átt við vanheilsu að stríða.

Af einhverjum ástæðum hefur Spasskí verið vanmetinn heimsmeistari en ástæður þess eru sennilega þær að eftir að hafa tapað titlinum tefldi hann ekki af sama þrótti og áður, jafntefli voru of mörg, metnaðurinn virtist horfinn og ljóminn í kringum nafn hans dofnaði. Hann taldi sjálfur að besta tímabil sitt hefði verið árin 1964-1970 og þar var allt annar maður á ferð, slyngari en nokkur annar í miðtöflum. Hann vann áskorunarrétinn með yfirburðasigri í kandídataeinvígjum árið 1968 við Geller, Larsen og Kortsnoj. Við í skáklandsliði Íslands vorum með honum rúma viku í æfingabúðum við Selvatn haustið 1988 og það var gaman að hlusta á frásagnir frá baráttunni við Petrosjan. Eitt af því sem hann kvaðst hafa gert með þjálfara sínum, Igor Bondarevskí, var að skoða ljósmyndir af Petrosjan við taflið. Gátu þeir lesið eitt og annað út úr svipbrigðum og atferli, t.d. að þegar hann var áberandi taugaóstyrkur var hann í raun hættulegastur. Í 24 skáka einvíginu þeirra ´69 komst Petrosjan strax yfir, en Spasskí jafnaði fljótlega og náði tveggja vinninga forskoti. Petrosjan vann þá tvær skákir og eftir 16 viðureignir var staðan jöfn. Í næstu skák komst Spasskí yfir, jók síðan forskot sitt í þeirri nítjándu og vann öruggan sigur. Bestu sigurskákir Spasskís voru frábærlega tefldar af hans hálfu:

17. einvígisskák:

Boris Spasskí – Tigran Petrosjan

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 d6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 Rf6 5. Rc3 a6 6. Bg5 Rbd7 7. Bc4 Da5

Petrosjan tefldi nokkrum sinnum svona gegn Bg5-leið Najdorf-afbrigðisins. En hann stefndi yfirleitt að langri hrókun.

8. Dd2 h6?!

Þessi leikur lætur lítið yfir sér en það mat Spasskís að best sé að láta biskupinn strax af hendi reyndist hárrétt. Síðar á ferlinum lék Petrosjan 8. … e6 og síðan –b5, Bb7 o.s.frv.

9. Bxf6! Rxf6 10. O-O-O e6 11. Hhe1 Be7 12. f4 O-O 13. Bb3 He8 14. Kb1 Bf8 15. g4!

Opnar línur á kóngsvængnum. Svartur gerir best í að taka peðið.

15. … Rxg4 16. Dg2 Rf6 17. Hg1 Bd7 18. f5 Kh8

18. … e5 er einfaldlega svarað með 19. Rf3! sem hótar 20. Dg6. Svartur á enga haldgóða vörn við þeirri hótun.

19. Hdf1 Dd8 20. fxe6 fxe6

21. e5!

Þetta gegnumbrot ræður úrslitum.

21. … dxe5 22. Re4! Rh5

Um annað var ekki að ræða, 22. … Rxe4 er svarað með 23. Hxf8+! Hxf8 24. Dxg7 mát.

23. Dg6! exd4

 

24. Rg5!

Gerir út um taflið, 24. .. hxg5 er svarað með 25. Dxh5+ Kg8 26. Df7+ Kh7 27. Hf3 og mátar. Petrosjan gafst upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 15. júní 2019

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -