Mikilvæg skák Helgi Áss tefldi við Frode Urkedal í 6. umferð. — Ljósmynd/Heimasíða Norðurlandamótsins 2019

Magnús Carlsen er aftur kominn í fréttirnar í Noregi vegna stofnunar skákfélags sem hefur það yfirlýsta markmið að semja við veðmálafyrirtækið Kindret sem hefur boðið Norska skáksambandinu samstarfssamning til fimm ára og býðst til að greiða fyrir upphæð sem nemur um 730 milljónum íslenskra króna á ári hverju, en samningsdrög gera ráð fyrir því að skáksambandið leggi veðmálafyrirtækinu lið í því baráttumáli að ríkiseinokun á veðmálastarfsemi verði aflétt í Noregi. Í stjórn Skáksambands Noregs sitja menn sem eru andvígir veðmálastarfsemi í kringum skákina og þar stendur hnífurinn í kúnni. Norski heimsmeistarinn hefur hinsvegar hvatt til þess að gengið verði til samninga og er að beita sér í málinu. Á dögunum stofnaði hann nýtt skákfélag, Offerspill sjakklubb, og greiddi meðlimagjöld fyrstu þúsund félagsmannanna. Hið nýja félag gæti hugsanlega fengið 40 fulltrúa á aðalfundi Norska skáksambandsins sem fram fer 7. júlí og haft mikil áhrif. Spennandi mál, sem Gunnar Björnsson, forseti SÍ, hefur vakið athygli á, en hann er nýkominn frá Noregi þar sem hann lét af embætti forseta Norræna skáksambandsins.

En svo var Magnús farinn úr landi því að í Zagreb í Krótaíu hófst á miðvikudaginn annað mótið – með venjulegum umhugsunartíma – í Grand chess tour og Carlsen byrjaði á því að vinna Giri í 23 leikjum með svörtu en varð svo að sætta sig við jafntefli í hagstæðu endatafli gegn Anand. Hann gæti unnið áttunda mótið í röð. Eini maðurinn á svæðinu sem getur státað af slíku, Garrí Kasparov, sem í kringum síðustu aldamót vann 10 mót í röð, lék fyrsta leikinn fyrir Giri. Hann var spurður hvernig það gæti gerst að jafn öflugur skákmaður og Giri gæti tapað í svo fáum leikjum. Kasparov svaraði því til að mun betri skilningur á stöðunni sem upp kom hefði ráðið úrslitum:

Anish Giri – Magnús Carlsen

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 Rc6 3. Bb5 e6

Hefðbundið en kemur samt á óvart. Magnús hefur undanfarið leikið 3. … g6 með góðum árangri.

4. Bxc6 bxc6 5. d3 Re7 6. h4 h5 7. e5 d6 8. exd6 Rg6 9. Rfd2

Eðlilegra virðist 9. Rbd2 og síðan – Rc4.

9. … Bxd6 10. Rc4 Be7 11. Rc3 Ba6 12. Df3 Bxc4 13. Dxc6 ¢f8 14. dxc4 Rxh4 15. O-O Rf5 16. Re2 Hc8 17. Da4 Hc7!?

Vélarnar mæla með 17. … h4 eða jafnvel 17. … g5 en þessi leikur er „mannlegri“.

18. Bf4 Hd7 19. c3 g5!

Skyndilega ryðjast peðin fram á kóngsvæng en þar er hvítur fáliðaður.

20. Had1 Hxd1 21. Hxd1 Da8 22. Bc7 h4!

Staðan eftir 22…h4.

23. f3 h3

– og Giri gafst upp. Hann er algerlega varnarlaus, t.d. 24. Rg3 Rh4 o.s.frv.

Helgi Áss í 7. sæti á Skákþingi Norðurlanda

Íslendingar áttu tvo fulltrúa á Skákþingi Norðurlanda í Sarpsborg í Noregi sem lauk á fimmtudaginn. Íslandsmeistarinn 2018, Helgi Áss Grétarsson, var með og einnig Lenka Ptacnikova. Norðmaðurinn Frode Urkedal sigraði á mótinu, hlaut 8 vinninga af níu mögulegum. Hann mun tefla í heimsbikarkeppni FIDE sem fram fer á eyjunni Mön í október nk. Framan af var Helgi Áss í toppbaráttunni. Hann tapaði hinsvegar tveim skákum á lokasprettinum og hafnaði í 7.-12. sæti en var efstur á stigum þeirra sem hlutu 6 vinninga. Lenka Ptacnikova hlaut 4 vinninga og varð í 47. sæti af 66 keppendum.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 29. júní 2019

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -