Wesley So og Magnús Carlsen gerðu jafntefli í gær. Mynd: Lennart Ootes/Grand Chess Tour.

Það er spennandi sunnudagur framundan. Lokaumferðin á Grand Chess Tour mótinu í Zagreb í Króatíu fer fram. Einnig fer fram fer fram lokaumferðin á alþjóðlega mótinu í Budejovice í Tékklandi þar sem Hannes Hlífar Stefánsson hefur farið mikinn. Þrír Íslendingar tefla í Paracin og Björn Þorfinnsson og Stefán Bergsson hófu taflmennsku í Portoroz í gær. Þá fer fram aðalfundur norska skáksambandsins í dag þar sem greidd verða atkvæði um hvort eigi að þyggja 730.000.000 kr. styrk frá veðmálafyrirtæki.

Zagreb-mótið

Öllum skákum tíundu og næstsíðustu umferðar lauk með jafntefli í gær. Heimsmeistarinn Magnús Carlsen (2875) hefur hálfs vinnings forskot á Wesley So (2775) fyrir lokaumferðina sem fram fer í dag. Magnús teflir við MVL (2880) en So við Aronian (2775) í lokaumferðinni sem hefst kl. 14:00 í dag.

Nánar á Chess.com.

Budejovice-mótið

Hannes Hlífar Stefánsson (2561) gerði stutt jafntefli í lokaumferðunum tveimur. Hann hlaut 6 vinninga í 9 skákum. Við förum nánar yfir árangur Hannesar í frétt síðar.

Paracin-mótið

Eftir þrjár umferðir hefur Vignir Vatnar Stefánsson (2293) 2 vinninga í a-flokki en Gauti Páll Jónsson (2080) er enn ekki kominn í blað. Arnar Milutin Heiðarsson (1777) sem teflir í b-flokki hefur 2 vinninga. Frídagur er í dag.

Portoroz-mótið

Björn Þorfinnsson (2381) og Stefán Steingrímur Bergsson (2149) hófu í gær taflmennsku á alþjóðlegu móti í Portoroz. Báðir unnu þeir sigur í fyrstu umferð á stiglægri andtæðingum.

Tvær umferðir fara fram í dag. Ekki virðist vera boðið upp á beinar útendingar.

Skákstríðið í Noregi

Aðalfundur norska skáksambandsins fara fram í Larvik í Noregi. Þar hafa verið mikil átök um hvort þiggja eigi 730.000.000 kr. styrk frá veðmálafyrirtækinu Kindred. Þess í stað myndi norska skáksambandið berjast fyrir afnámi einokunar á norskum veðmálamarkaði.

Magnús Carlsen hefur verið beinn aðili að átökunum og stofnaði skákklúbb, Offerspill. Hann hvetur til að aðalfundurinn samþykki samninginn og telur annað svik við framtíð norsks skáklífs. Nánar í frétt á Skák.is.

Áhugasamir geta fylgst með fundinum í beinni útsendingu á heimasíðu norska skáksambandsins og jafnvel á NRK.

- Auglýsing -