Vann fjórar fyrstu Björn er ½ vinningi frá efsta manni í Portoroz. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson

Hannes Hlífar Stefánsson varð einn efstur á lokaða alþjóðlega mótinu í Budeejovice í Tékklandi sem lauk um síðustu helgi. Hannes hlaut 6 vinninga af níu mögulegum og varð ½ vinningi á undan Tékkanum Jan Vykouk sem 5½ vinning. Frammistaða Hannesar er glæsileg einkum fyrir þá staðreynd að hann tapaði tveim fyrstu skákum sínum, vann þá fimm í röð og klykkti út með tveim jafnteflum. Í svipinn man greinarhöfundur ekki eftir mörgum mótum þar sem sigurvegarinn byrjar á því að tapa tveim fyrstu skákum sínum. Sigur Alexander Beljavskí í Tilburg árið 1986 kemur þó upp í hugann. Í gær hóf Hannes taflmennsku í hollensku borginni Leiden í Hollandi en þar fer fram alþjóðlegt með sama sniði og í Tékklandi, 10 skákmenn tefla allir við alla. Meðal þekktra meistara sem eru á meðal keppenda eru Predrag Nikolic frá Bosníu og heimamaðurinn John Van der Wiel en stigahæsti keppandinn er Indverjinn Babu Lalith. Hannes er þriðji stigahæstur.

Björn og Stefán á toppnum í Portoroz

Íslenskir skákmenn hafa verið iðnir við kolann á alþjóðavettvangi undanfarið. Björn Þorfinnsson og Stefán Bergsson stefndu skónum á opna mótið í Portoroz sem hófst 6. júlí sl. Þessi litli bær við strendur Adríahafsins hefur mikið aðdráttarafl meðal íslenskra skákmanna ekki síst vegna þess að þar komst Friðrik Ólafsson í hóp kandídata árið 1958.

Birni og Stefáni hefur báðum tekist að blanda sér í toppbaráttuna, Björn vann fjórar fyrstu skákir sínar og er sem stendur í 2.-6. sæti með 5½ vinning af 7. Efstur er Ítalinn Luigi Pier Basso með 6 vinninga. Tefldar verða níu umferðir og lýkur mótinu um helgina.

Stefán Bergsson komst í hóp fimm efstu manna með með sigri í 6. umferð en tapaði í 7. umferð. Stefán teflir djarft og skemmtilega og hikar ekki við að taka mikla áhættu. Í sjöttu umferð gekk dæmið upp hjá hinum í stuttri skák við einn af stigahæstu keppendum mótsins:

Opna Portoroz-mótið 2019:

Nenad Fercec – Stefán Bergsson

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 e6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 Rc6 5. Rc3 Dc7 6. Be3 a6 7. Dd2 Rf6 8. f3

Hægfara leikur í vinsælu afbrigði sikileyjarvarnar.

8…. Be7 9. 0-0-0 b5 10. Df2 Bb7 11. Kb1 Hc8 12. g4 Rxd4 13. Bxd4 b4 14. Ra4

Allt með kyrrum kjörum.

14…. Rxe4?!

Þessi leikur er ekki alls kostar réttur. Kannski vissi Stefán það.

15. fxe4 Bxe4 16. Bd3 Bxh1 17. Bxg7?

Hvítur gat leikið 17. Hxh1 sem svartur getur svarað með 17…. Dc6 en þá kemur 18. Hf1! og ekki gengur 18…. Dxa4 vegna 19. Dxf7+ Kd8 20. Bb6+ og vinnur. Betra er 18…. f6 en hvíta staðan er betri.

17…. Hg8 18. Bd4 Dc6 19. Hf1 f6 20. Bxf6 Hf8 21. g5 Be4 22. Bxe4 Dxe4 23. b3 a5 24. h4 Hc6! 25. Rb2 Bxf6 26. gxf6 Hxf6!

Glæsilegur lokahnykkur sem byggist á hugmyndinni 27. Dxf6 Dxc2+ 28. Ka1 Dc1+! og mátar. Hvítur gafst upp.

Áttundi sigur Magnúsar í röð

Heimsmeistarinn Magnús Carlsen vann glæsilegan sigur á stórmótinu í Zagreb í Króatíu. Hann gaf ekkert eftir á lokasprettinum og vann Vachier-Lagrave í síðustu umferð. Lokastaðan varð þessi: 1. Magnús Carlsen 8 v. (af 11) 2. So 7 v. 3.-4. Aronjan og Caruana 6 v. 5.-7. Ding, Nepomniachtchi og Giri 5½ v. 8. Karjakin 5 v. 9.-11. Anand, Mamedyarov og Vachier Lagrave 4½ v. 12. Nakamura 4 v.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 13. júlí 2019

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -