Skák- og afmælishátíð KR fór fram með pompi og pragt í sumarblíðunni við Selvatn á Nesjavallaleið í síðustu viku. 48 skákmenn og -konur á öllum aldri mættu til leiks, sá yngsti 6 ára og sá elsti 86 ára. Stórmeistarinn Helgi Áss Grétarsson, fyrir miðri mynd, sigraði, Bragi Halldórsson, t.h., varð annar og Arnar Þorsteinsson, t.v., hafnaði í 3. sæti.

Hver var Jón Guðmundsson og af hverju hætti hann að tefla? Þessari spurningu hefur stundum verið varpað fram og ekki fengist svör en einhverjar undarlegar skýringar sem ekki er vert að eltast mikið við. En það liggur fyrir að Jón Guðmundsson var einn þeirra fimm Íslendinga sem skipuðu sveit Íslands á ólympíumótinu í Buenos Aires í Argentínu fyrir 80 árum. Aðrir í sveitinni voru Baldur Möller, Ásmundur Ásgeirsson, Einar Þorvaldsson og Guðmundur Arnlaugsson.

Ferðalag þeirra frá Reykjavík til Antwerpen hófst þann 17. júlí 1939. Jón vann afrek sem er einstætt í sögu ólympíumótanna; í úrslitakeppninni tefldi hann 10 skákir og vann þær allar – 100% árangur. Undankeppnina byrjaði hann hinsvegar á því að tapa þrem fyrstu skákum sínum, vann þá fjórðu og svo hófust úrslitin. Af þeirri frammistöðu má draga þá ályktun að það hafi tekið hann smátíma að vinna úr þeirri þekkingu og reynslu sem hann öðlaðist með látlausri taflmennsku um borð í skipinu Piriapolis sem flutti flesta keppendur ólympíumótsins frá Antwerpen í Belgíu til Buenos Aires í Argentínu. Ferðin tók 23 daga. Samkvæmt farþegalista sem greinarhöfundur hefur undir höndum var heimsmeistarinn Alexander Alékín um borð í skipinu.

Íslenska sveitin vann B-úrslitakeppnina og veglegan farandgrip, Copa Argentina, sem er í eigu Skáksambands Íslands. Þegar undanrásum ólympíumótsins var að ljúka réðust Þjóðverjar inn í Pólland en sá atburður markaði upphaf seinni heimsstyrjaldar. Englendingar hættu keppni og þrír úr sveitinni, C.H.O.D. Alexander, Harry Golombek og Stuart-Milner Barry, héldu heim á leið og hófu störf í Bletchley-garði í Buckingham-skíri, en vinnan þar hefur fyrir tilstilli kvikmyndarinnar The Imitation Game öðlast allt að því goðsagnakenndan sess í sögu Bretlands og styrjaldarinnar. Eftir ólympíumótið ákváðu meira en 20 keppendur að snúa ekki aftur til heimalands síns, sá frægasti var Pólverjinn Miguel Najdorf.

Í skákum Jóns Guðmundssonar frá þessu ólympíumóti var slavneska vörnin áberandi þegar hann hafði svart. Hann hafði greinilega næman skilning á þessari byrjun og vann skákir sínar án þess að andstæðingarnir kæmu við mikilli mótspyrnu. En svo bættust við greinilegir leikfléttuhæfileikar. Ég fann nokkur dæmi frá úrslitakeppninni sem sýna þetta ótvírætt:

Ól – Buenos Aires 1939; 5. umferð:

Jón Guðmundsson – J. Rebnord (Noregi)

Hvítur er manni yfir og með unnið tafl en krafturinn í úrvinnslunni er mikill:

26. Hg6! De5 27. Hd7 h4 28. Rf5 De1+ 29. Kg2 h3+ 30. Kxh3 Df1+ 31. Kh4 Had8 32. hxg7+ Kg8 33. Dd2!

Einfaldast. Svartur gafst upp.

Ól – Buenos Aires 1939; 6. umferð:

Jón Guðmundsson – O. Neikich ( Búlgaría)

34. Rxe6+! fxe6 35. Hxg8+ Kxg8 36. Dxg6+ Kf8 37. f5! exf5 38. Hxf5+ Bf6 39. Hxf6+ Rxf6 40. Bc5+!

– og Neikirch gafst upp.

 

 

Ól – Buenos Aires 1939; 6. umferð:

Hákon Upsahl (Kanada) – Jón Guðmundsson

Svartur er peði yfir en hvíti kóngurinn hefur nálgast c4-peðið og Jón sá fram úr því:

30. … e5! 31. Ke4 f5+!

Óþægilegur hnykkur. Hvítur má hvorugt peðið taka því þá kemur 32. … c3 og vinnur.

32. Ke3 f6! 33. h3 Ke6 34. g4 fxg4 35. hxg4 Kd5 36. f5 h6!

– Allur er varinn góður. 36. … Kxc5 vann líka en ekkert liggur á. Hvítur gafst upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 20. júlí 2019

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -