Mynd: Morgunblaðið.

Vignir Vatnar Stefánsson varð einn efstur á alþjóðlegu skákmóti sem nefnt hefir verið Glorney Gilbert-skákhátíðin og fram fór í Hrafnadal á Írlandi og lauk á miðvikudaginn. Stærsti viðburður hátíðarinnar var keppni unglingalandsliða frá Englandi, Frakklandi, Wales, Írlandi, Holland og Skotlandi þar sem teflt var á 20 borðum í hverri viðureign. Tíu skákmenn tefldu allir við alla og fékk Vignir 7 vinninga af níu mögulegum og náði með því áfanga að alþjóðlegum meistaratitli. Vignir er aðeins 16 ára gamall en hefur þrátt fyrir ungan aldur umtalsverða reynslu á skákmótum víða um heim. Áður en hann varð 14 ára gamall komst hann yfir 2400 elo-stig og var þá í hópi allra fremstu skákmanna heims í sínum aldursflokki. Þó hann hafi lækkað eitthvað á þeim skala er hann mun öruggari skákmaður en áður var. Á mótinu á Írlandi vann hann fimm skákir, gerði fjögur jafntefli og tapaði aldrei. Keppinautar hans eru flestir lítt þekktir skákmenn og margir þeirra frá Írlandi. Tilgangur mótsins var að gefa ungum skákmönnum og stúlkum tækifæri til að ná alþjóðlegum titiláfanga. Vignir þurfti talsvert að hafa fyrir vinningunum. Stysti sigurinn kom í síðustu umferð:

Glorney Gilbert-skákmótið; 9. umferð:

Vignir Vatnar Stefánsson – Darragh Moran (Írlandi)

Slavnesk vörn

1. d4 d5 2. c4 c6 3. Rc3 Rf6 4. cxd5 exd5 5. f3!?

Vinsæl byrjun hjá yngri skákmönnum Íslands. Hvítur getur fengið hættulega sókn ef svartur er ekki vel með á nótunum.

5. … Rc6 6. e4 dxe4 7. d5 Re5 8. fxe4 a6 9. Rf3 Rxf3+ 10. Dxf3 e6 11. Bg5 Be7 12. O-O-O Da5 13. Bc4 Rxd5!

Snarplega teflt en Vignir finnur leið til að halda mikilli spennu í stöðunni jafnvel þó hann sé peði undir.

14. exd5 Bxg5+ 15. Kb1 O-O 16. Re4 Bh6 17. g4!

„Sendiboði eyðileggingarinnar.“

17. … exd5?

Einu mistök svarts í skákinni. Best var 17. … Dc7 sem hótar – Df4 og þá er hægt að svara 18. g5 með 18. … Bxg5 21. Rxg5 Dxc4 og það er erfitt að finna sóknaráætlun fyrir hvítan.

18. Hxd5 Dc7 19. g5!

Sjá stöðumynd.

Skyndilega stendur svartur frammi fyrir óyfirstígalegum erfiðleikum. Ef nú 19. … Bxg5 þá kemur 20. Hxg5 Dxc4 21. Hxg7+ Kxg7 22. Df6+ Kg8 23. Hg1+ og mátar.

19. … Dxc4 20. gxh6 g6 21. Hc1! Dxd5

Það var enga vörn að finna, víki drottningin til b4 kemur 22. Df6 og mátar.

22. Rf6+ Kh8 23. Rxd5 Bf5+ 24. Ka1 Hac8 25. Hxc8 Hxc8 26. De3

– og svartur gafst upp.

Næsta verkefni Vignis er þátttaka á EM ungmenna sem hefst 2. ágúst í Bratislava í Slóvakíu.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 27. júlí 2019

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -