Sigurvegari Levon Aronjan, til hægri, að tafli í St. Louis. Sergei Karjakin situr andspænis honum. — Morgunblaðið/Chess.com

Það kom að því að sigurganga Magnúsar Carlsen var stöðvuð og það gerðist á skákmótinu í St. Louis í vikunni þegar fjórða mótið í syrpu móta sem kallast Grand Chess Tour fór fram, en „túrinn“ er nokkurs konar blanda úr þremur keppnisgreinum skákarinnar; kappskák, at-skák og hraðskák.

Magnús Carlsen hafði unnið átta skákmót í röð þegar keppnin hófst, þar af fyrstu tvö mótin, á Fílabeinsströndinni og í Króatíu, og almennt var búist við því að sigurgangan héldi áfram. En svo bregðast krosstré sem önnur tré. Norski heimsmeistarinn náði sér aldrei á strik. Í atskákarhlutanum hlaut hann hann fjóra vinninga af níu mögulegum og í hraðskákarhlutanum, þar sem keppendurnir tefldu tvöfalda umferð var hann með níu vinninga af 18 mögulegum, eða 50%. Hvað varðar tímamörk í St. Louis er aðeins brugðið frá því sem viðgengst annars staðar og gætir þar áhrifa Kasparovs; í hraðskákinni eru þau t.d. 5 3 Bronstein, sem er mun „þægilegra“ tempó en 3 2 sem notað er í heimsmeistaramótinu í hraðskák.

Magnúsi gekk alveg sérstaklega illa gegn kínversku skákmönnunum Ding Liren og Yu Yangyi og í sex skákum gegn þeim hlaut hann aðeins 1½ vinning. Tónninn var gefinn strax í byrjun atskákhlutans:

St. Louis 2019 1. umferð:

Liren Ding – Magnús Carlsen

Magnús lék síðast 42. … Df7xh5 og hafði vonast eftir 43. c8(D) Dd1+ og hann nær þráskák. En þá heyrðist í fjarska gamalkunnur bjölluhljómur og síðan kom „kínversk drottningarfórn“.

43. Dxg7+! Kxg7 44. c8(D)+ Kf6 45. Dd8+!

– og svartur gafst upp, 45. … Ke5 er svarað með 46. Dd4 mát og eftir 45. … Kg6 46. De8+ fellur drottningin á h5.

Magnús virtist vera búinn að rétta hlut sinn nokkuð í hraðskákinni en á lokasprettinum tapaði hann hins vegar þrem skákum í röð.

Mótið var mikill sigur fyrir Armenann Levon Aronjan sem hlaut 22 vinninga (eða stig) samanlagt, 13 í atskákinni þar sem hver vinningur gilti tvöfalt og níu vinninga í hraðskákinni. Í 2-4. sæti komu Ding Liren, Yu Yangyi og Maxime Vachier-Lagrave með 21½ vinning. í 5. sæti varð Sergei Karjakin með 19½ vinning og Magnús Carlsen varð svo í 6. sæti með 17 vinninga.

Hann heldur þrátt fyrir allt forystunni á Grand Chess Tour með 38 stig úr þremur mótum en Vachier-Lagrave kemur næstur með 33,3 stig úr fjórum mótum og síðan Aronjan. Þá er Norðmaðurinn einnig efstur á peningalistanum en ljóst er þó að hann heldur ekki lengur efsta sæti á stigalistanum í öllum þremur keppnisgreinunum.

Í dag hefst svo kappskákmótið sem fram fer með hefðbundnum umhugsunartíma, hið svonefnda Sinquefield Cup, en þar eru keppendur tíu talsins, þ. á m. Magnús Carlsen.

Vignir Vatnar með góðan árangur á EM ungmenna í Bratislava

Vignir Vatnar Stefánsson náði bestum árangri íslensku keppendanna sem tóku þátt í EM ungmenna sem lauk í Bratislava í Slóvakíu um síðustu helgi. Vignir vann skák sína í síðustu umferð og hlaut 6 vinninga af 9 mögulegum. Hann varð í 8.-22. sæti af 127 keppendum í flokki keppenda 16 ára og yngri . Nokkrir aðrir náðu góðum árangri en mestu stigahækkanir komu í hlut Birkis Ísaks Jóhannssonar, sem tefldi í flokki keppenda 18 ára og yngri og hækkaði um 81 Elo-stig, og Benedikts Þórissonar, sem tefldi í flokki keppenda 14 ára og yngri og hækkaði um 68 Elo-stig.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 17. ágúst 2019.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -