Riddarameistarar.

Riddarameistarinn og riddaragaffall frá haustinu 1991

Ég hygg að það hafi verið árið 1991 sem Ríkissjónvarpið hafi í fyrsta skipti sýnt úrslitaeinvígi Íslandsmótsins atskák í beinni útsendingu. Útsendingin var mér minnistæð fyrir þær sakir að skákskýrendur og gestir í sal töldu sigurvegara mótsins, Þröst Þórhallsson, standa iðulega verr að vígi en andstæðingurinn og ekki síst fyrir þá sök að hann var með riddara á meðan andstæðingurinn var með biskup. Þröstur sýndi hins vegar leikni sína með riddaranum og benti á, í viðtali eftir einvígið, að þegar keppendur í skák ættu lítinn tíma, væri riddarinn jafnan brellinn taflmaður að eiga við. Nokkru eftir útsendinguna datt einhverjum í huga að nefna Þröst „Riddarameistarann“ og á meðal sumra skákmanna hefur það viðurnefni loðað við hann síðan þá.

Í landsliðsflokki, Skákþingi Íslands, haustið 1991 sýndi ég, með svörtu, gegn ríkjandi Íslandsmeistara, Héðni Steingrímssyni, mátt riddaragaffallsins, sbr. stöðumynd 1.

Stöðumynd 1 – Héðinn Steingrímsson gegn Helga Áss Grétarssyni, 1991

Svartur á leik

43…Dxf1+! og hvítur gafst upp enda taflið gjörtapað eftir 44. Kxf1 Re3+.

RTU-skákhátíðin í Riga 2019 – skák gegn næstyngsta stórmeistara sögunnar

Yfirgefum nú árið 1991 og skoðum skákir frá RTU skákhátíðinni í Riga í Lettlandi sem fram fór 3. – 11. ágúst síðastliðinn. Ég tók þátt í hátíðinni ásamt þrem öðrum íslenskum skákmönnum, þ.e. Guðmundi Kjartanssyni, Stefáni Bergssyni og Gauta Páli Jónssyni.

Að byrja aftur að tefla af fullum krafti á miðjum aldri, eins og ég er að standa í þessa dagana, getur verið erfitt. Satt best að segja þykir mér stundum getan mín í kappskák sé orðin álíka og þegar ég tefldi í mínum fyrsta landsliðsflokki haustið 1991. Eigi að síður er ég mjög bjartsýnn á að taflmennskan í lengri skákum lagist hratt á komandi mánuðum og þá muni það verkefni verða viðráðanlegra að eiga við ungan skákmann eins D Gukesh (2528) frá Indlandi en hann varð yngsti stórmeistari heims fyrr á þessu ári og sá næstyngsti í skáksögunni.

Við mættumst í kappskákmóti RTU-skákhátíðarinnar í 5. umferð, báðir með þrjá vinninga af fjórum mögulegum. Hann tefldi vafasama byrjun með svörtu og með réttu hefði ég átt að tryggja mér strategískt unnið tafl eftir eingöngu 15 leiki. En ég tefldi þá ónákvæmt og upphófst mikil barátta riddarapara beggja herja. Samkvæmt tölvuforritum var staðan um miðbik skákarinnar í jafnvægi en hún var vantelfdari á hvítt. Svo fór að sá ungi snéri á mig og gat tryggt sér sigur í eftirfarandi stöðu:

Stöðumynd 2 – Helgi Áss Grétarsson gegn D Gukesh, 8. ágúst 2019 (kappskák)

Svartur á leik

Við báðir höfðum í marga leiki í röð verið við það að falla á tíma í skákinni en hér sá ég að andstæðingurinn gat einfaldlega unnið með því að leika 35… Re3+ þar eð 36. Kd2 væri svarað með 36…Rf4+ og 36. Kb1 væri svarað með Hf1+ og tjaldið fellur. Á hinn bóginn valdi ungstirnið annan leik: 35…Re1+? 36. Kb2?! Betra var að leika 36. Kb1 en riddarann mátti ekki taka vegna gaffalsins á e3, 36. Dxe1 Re3+ og hrókurinn á g2 fellur.

36…Rd3+? svartur hefði unnið eftir 36…Rf2! þar eð þá eru riddaragafflarnir úti um allar koppa grundir, sjá stöðumynd 3: 

Stöðumynd 3 – Helgi Áss Grétarsson gegn D Gukesh, 8. ágúst 2019 (kappskák)

Hvítur á leik (afbrigði)

Hvítur tapar t.d. eftir 37. Dxe1 Rd3+ og 37. Hxf2 Hxf2 38. Dxf2 Rd3+.

Vindum okkur aftur í skákina.

37. Kb1?!

hvítur hefði staðið síst lakar að vígi eftir 37. Ka1! Hf4 38. Rd5.

37… Hf4 38. Hg3 Rc5 39. b4 Rb3

Stöðumynd 4 – Helgi Áss Grétarsson gegn D Gukesh, 8. ágúst 2019 (kappskák)

Hvítur á leik

Þegar hér var komið við sögu taldi ég mestu hættuna afstaðna og vildi nú tefla til vinnings. Ég sá auðvitað að ef riddarinn á c3 myndi missa valdið á e4-peðinu þá myndi svartur geta drepið það með hrók. Hins vegar sá ég allt í einu fyrir mér að hvítur gæti drepið riddara svarts á g4 og einhvers konar leppun væri á g-línunni og því myndi Rf6+ vinna skákina. Í stað þess að leika 40. Dd3 og hvítur stendur síst lakar, lék ég:

40. Rd5? og þegar Gukesh lék 40…Hxe4! þá snerti ég riddarann á g4 og sá um leið að ég væri að tapa drottningunni. Ég gafst því upp en í lokastöðunni stendur hvítur eingöngu aðeins verr eftir 41. Dd1.

Það verður að viðurkennast að ég lagði mikið í skákina gegn Gukesh og úrslitin voru mér ekki að skapi. Hins vegar átti ég marga fína spretti í skákinni og mun ég nýta hana til að draga ýmsar gagnlegar ályktanir. Mér leið þó ekki þannig fyrstu klukkutímana eftir skákina og sjálfsagt hafa vonbrigðin átt sinn þátt í því að ég lék af mér næstu skák í tveim leikjum, þ.e. í stað þess að vera með aðeins betra gegn töluvert stigalægri andstæðingi þá fyrst kom ég mér í vandræði og svo í næsta leik lék ég skákinni niður í tap. Þannig að eftir seinni tveggja skáka dag mótsins var ég kominn niður í 50% vinningshlutfall en komst upp fyrir það í síðustu þrem umferðunum með einum sigri og tveimur jafnteflum.

Hraðskákmótið um kvöldið 11. ágúst 2019

RTU-skákhátíðinni lauk með hraðskákmóti en það mót hafði ég unnið árið áður. Þetta kvöldið, þ.e. sl. sunnudag, 11. ágúst, var ég í feiknaformi. Taflmennskan á heildina litið var örugg, t.d. vann ég indverskan alþjóðlegan meistara í þriðju umferð og í þeirri fjórðu tefldi ég afar skemmtilega skák við tyrkneskan alþjóðlegan meistara, hinn 18 ára Kaan Cem Gokerkan (2344, hraðskákstig).

Sá tyrkneski, sem hafði hvítt, hélt frumkvæðinu framan af á sjálfu borðinu og það sem skipti eiginlega meira máli var að hann var með umtalsvert betri tíma. Í flóknu byrjunarafbrigði, þar sem ég var skiptamun undir en með peð upp í, ákvað ég að láta af hendi annan biskupinn í því skyni að losna við riddara andstæðingsins en fá í staðinn meira pláss fyrir riddarana mína. Á móti kom að andstæðingurinn var með biskupaparið og var áfram að þrýsta á stöðuna. Eftir að skiptist upp á svartreitu biskupunum og drottningunum náði ég að véla frípeð hvíts á c-línunni og í stað þess að hanga áfram í vörn fór ég að tefla upp á að máta andstæðinginn, jafnvel þótt sú sókn kostaði mig mikilvægt peð. Að lokum kom sú staða upp sem sést í stöðumynd 5: 

Stöðumynd 5 – Kaan Cem Gokerkan gegn Helga Áss Grétarssyni, 11. ágúst 2019 (hraðskák)

Hvítur á leik

Svarta staðan er orðin ansi álitleg, a.m.k. í hraðskák, og lék hvítur hér sig í mát:

1.Hc2?? Hd3+! 2. g3

Hvítur hefði einnig orðið mát eftir 2. Kh2 Rg4+ 3. Kh1 Hd1#.

2… Hxg3+ 3. Kh2 Rf3+

Stöðumynd 6 – Kaan Cem Gokerkan gegn Helga Áss Grétarssyni, 11. ágúst 2019 (hraðskák)

Lokastaðan

Síðustu tveir leikir svarts voru leiknir með smell og hvítur kaus að leggja niður vopnin enda mát eftir 4. Kh1 Hg1#.

Því miður tapaði ég illa með hvítu gegn rússneskum alþjóðlegum meistara í fimmtu umferð en náði vopnum mínum á ný með sigrum á heimamönnum í sjöttu og sjöundu umferð. Fyrir áttundu umferðina leiddi indverski stórmeistarinn J Chakkravarthy Deepan mótið með 6 ½ vinning en ég kom næstur ásamt öðrum með 6 vinninga. Skák okkar Deepan var áhugaverð með tilliti til riddarakúnsta, sbr. stöðumyndir 7-10.

Stöðumynd 7 – J Chakkravarthy Deepan gegn Helga Áss Grétarssyni, 11. ágúst 2019 (hraðskák)

Svartur á leik

Hér stendur svartur til vinnings en sá indverski hafði með hvítu teflt afar yfirborðskennt og ónákvæmt í síðustu leikjum. Hann hafði þó mikið tímaforskot. Hér sá ég leið sem síðan kom upp í skákinni.

20…Hb4??

Svartur hefði haft gjörunnið eftir 20… Re3 21. Be2 Hd8 þar eð riddarinn á c7 er dæmdur til að falla án fullnægjandi bóta. 

Stöðumynd 8 – J Chakkravarthy Deepan gegn Helga Áss Grétarssyni, 11. ágúst 2019 (hraðskák)

Hvítur á leik

21. b3??

Hvítur gat unnið með riddaragafli, 21. R7d5+ cxd5 22. Rxd5+ og hrókurinn á b4 fellur í valinn.

21…Bb7! 22. a3

Stöðumynd 9 J Chakkravarthy Deepan gegn Helga Áss Grétarssyni, 11. ágúst 2019 (hraðskák)

Svartur á leik

Þetta var staðan sem ég hafði séð fyrir mér áður en ég lék 20…Hb4??. 22… Hxc4! 23. bxc4 Hc8 24. R7d5+ cxd5 25. cxd5 Re3 og svartur hefur nú unnið tafl enda lauk för riddarans á e3 á hinum fallega d6-reit þar sem hann skorðað vel frípeð hvíts og hægt og sígandi bætti svartur stöðu sína. Lokastaðan var falleg, sbr. stöðumynd 10:

Stöðumynd 10 – J Chakkravarthy Deepan gegn Helga Áss Grétarssyni, 11. ágúst 2019 (hraðskák)

Lokastaðan

Snoturt og óvenjulegt mát.

Að loknum átta umferðum hafði ég því tekið forystuna á mótinu ásamt nokkrum öðrum skákmönnum með 7 vinninga en því miður sá ég ekki til sólar gegn tyrkneskum stórmeistara í níundu umferð, lék mig að lokum í mát. Í tíundu og næst síðustu umferð lagði ég öflugan þýskan alþjóðlegan meistara að velli og var svo grátlega nærri því að vinna indverskan stórmeistara í lokaumferðinni; ég hafði yfirspilað hann alla skákina en hann barðist um hæl og hnakka og að lokum lyktaði skákinni með jafntefli. Ég lauk því keppni með 8½ vinning af 11 mögulegum og lenti í fimmta sæti, fjórir efstu keppendurnir fengu 9 vinninga.

Riddaraparið er víst par!

Skákmeistarinn Benóný heitinn Benediktsson hélt mikið upp á riddarana í skák og sagði eitt sinn að „…biskupaparið, það væri ekkert par“. Þeirri einörðu afstöðu er ég ósammála en eins og skákævintýri mín í Riga sýna fram á, þá geta riddararnir reynst mörgum erfiðir ljár í þúfu.

Riddarakúnstir í Riga í ágúst 2019 verða því mér ávallt minnistæðar og lærdómsríkar.

Að lokum vil ég koma eftirfarandi á framfæri:

Áfram Helgi!

Eftir Helga Áss Grétarsson (birt á fésbókarsíðu HÁG, 14. ágúst 2019)

- Auglýsing -