Pal Benkö t.v. og Boris Spasskí var boðið til dagskrár tileinkaðrar minningu Bobbys Fischers í mars 2018. Hér ræða þeir málin í Ráðhúsi Reykjavíkur. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson

Heimsmeistaranum Magnúsi Carlsen hefur sennilega fundist nóg komið þegar hann gerði sitt níunda jafntefli á stórmótinu í St. Louis sem kennt er við aflvaka þess og kostanda, Rex Sinquefield. Jafnteflunum hafði rignt niður og Norðmaðurinn jafn sekur og aðrir í þeim efnum. En hann hristi af sér okið og vann tvær síðustu skákir sínar, í tíundu umferð var Wesley So lagður að velli og í lokaumferðinni Vachier-Lagrave. Lokaniðurstaðan varð þessi: 1.-2. Carlsen og Ding Liren 6½ (af 11) 3.-4. Anand og Karjakin 6 v. 5.-8. Nepomniachtchi, Caruana, Giri og Mamedyarov 5½ v. 9.-10. Nakamura og Vachier-Lagrave 5 v. 11.-12. Aronjan og So 4½ v.

Efstu menn tefldu svo styttri skákir um sigurinn. Tveimur atskákum lauk með jafntefli en síðan vann Ding Liren báðar hraðskákirnar og telst því sigurvegari Sinquefield-bikarsins. En Magnús, sem hefur nú teflt 90 kappskákir án taps, eygir þann möguleika að geta slegið við Kínverjanum, sem tefldi nýlega 100 kappskákir í röð án þess að tapa.

Í síðustu umferð varð Magnús að vinna með svart. Hann vissi að undir þeim kringumstæðum er það hæpin hernaðaráætlun að ráðast fram strax í byrjun tafls; hann skipaði liði sínu fram á rólegan og yfirvegaðan hátt og beið færis. Nokkrir leikir hans í miðtaflinu eru sérstaklega athyglisverðir:

St. Louis 2019; 11. umferð:

Maxime Vachier-Lagrave – Magnús Carlsen

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 Rc6 3. Bb5

Sneiðir hjá afbrigði Svesnikovs.

3…. g6 4. Bxc6 bxc6 5. d4 cxd4 6. Dxd4 f6 7. O-O d6 8. c4 c5 9. Dd3 Bg7 10. b3 Rh6 11. Rc3 Hb8 12. Bd2 O-O 13. Hae1 Rf7 14. h4 Hb7!?

Hróksleikurinn lætur ekki mikið yfir sér en á eftir að koma að notum síðar.

15. h5 g5 16. Rh2 Re5 17. Dg3 Kh8 18. f4 gxf4 19. Bxf4 Hg8 20. He3 Rc6 21. Df2 f5 22. Rf3

Hvítur átti tvímælalaust að leika 22. exf5 þótt svarta staðan sé liprari eftir 22…. Bxf5. En næsti leikur svarts er bráðsnjall.

(Sjá stöðumynd)

22…. Bxc3! 23. Hxc3 e5

Opnar fyrir hrókinn á b7 og hyggst svara 24. Bc1 með 24…. f4 og sóknin eftir g-línunni verður ekki stöðvuð.

24. Hd3!?

Ekki verra en hvað annað og Magnús kvaðst ekki hafa tekið þenn leik með í reikninginn. Nú strandar 24…. fxe4 á 25. Rxe5! og hvítur vinnur.

24…. exf4 25. Db2+ Hbg7 26. h6 fxe4 27. Hd2 exf3 28. hxg7+ Hxg7 29. Hxf3 Dg5

Þrátt fyrir leppunina eru varnir svarts tryggar og hann er með unnið tafl. Úrvinnslan er fumlaus.

30. Hdf2 Rd4 31. Hxf4 Bf5 32. b4 Be6 33. Hf8+ Bg8 34. bxc5 dxc5 35. Db8 De3 36. Dd6 Dc1+ 37. Kh2 Dg5 38. Dd5 Dh4+ 39. Kg1 De7 40. Dh5 De3 41. Dh4 Re2+ 42. Kh1 Dc1+ 43. Hf1 Rg3+ 44. Kg1 De3+

– og hvítur gafst upp.

Pal Benkö

Pal Benkö, sem lést hinn 26. ágúst sl., 91 árs að aldri, var mikið í fréttum hér á landi eftir að Stúdentamótinu í Reykjavík lauk sumarið 1957. Hann hafði teflt fyrir ungversku skáksveitina en sótti um hæli sem pólitískur flóttamaður. Um haustið hélt hann vestur um haf og varð síðar bandarískur ríkisborgari. Benkö var frábær skákmaður en samdi einnig ógrynnin öll af skákdæmum og sagan segir að Bobby Fischer hafi veðjað við hann um að honum tækist að finna lausn eftirfarandi dæmis á innan við hálftíma – en ekki tekist. Getur þú betur, lesandi góður?

Hvítur leikur og mátar í 3. leik.

Lausn í næsta pistli.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 31. ágúst 2019.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -