Helgi Áss að tafli í Sarpsburg í Noregi í sumar.

Eftir Helga Áss Grétarsson (birt á fésbókarsíðu HÁG, 24. ágúst 2019, lítillega lagfærð 28. ágúst 2019)

Í fjórðu umferð aðalmóts RTU skákhátíðarinnar í Riga í Lettlandi, sem lauk fyrr í þessum mánuði, tefldi ég eftirminnilega skák gegn nokkuð harðsnúnum ungum þýskum skákmanni. Í skákinni kom upp stef sem er í senn fremur sjaldgæft og vanmetið. Til einföldunar byggir stef þetta á þeirri hugmynd að stundum krefst stöðubaráttan í skák þess að keppandi bíði með að ákveða hvar eigi að staðsetja sinn eigin kóng. Slík bið getur leitt til síðbúinnar sóknarhrókeringar, líkt og gerðist í fyrrnefndri skák minni.

Áður en vikið verður nánar að skák minni í Riga eru fáeinar hugleiðingar settar fram um stöðu kóngs á upphafsreitnum og hver sé jafnan tilgangur hrókeringar í skák. Gömul sóknarskák Friðriks Ólafssonar er rifjuð upp í þessu samhengi. Því næst eru ýmis áhugaverð dæmi sýnd þar sem síðbúin hrókering leikur stórt hlutverk við að útkljá skákina. Að svo búnu verður sóknarskák minni gerð skil. Í lokin verður efnið dregið saman.

Og kóngurinn stóð enn á upphafsreitnum – sóknarskák með Friðriki Ólafssyni

Byrjendum í skák er gjarnan kennt að koma kóngi sínum í skjól sem fyrst með því að hrókera. Rökin að baki þessari grundvallarreglu eru margvísleg. Í stað þess að vera á upphafsreitnum á miðju borðinu, þar sem kónginum er iðulega hætta búin, er honum komið fyrir nær jaðri borðsins þar sem flóknara er fyrir andstæðinginn að sækja að honum. Einnig er reglan um snemmbúna hrókeringu reist á því að með slíkri tilfærslu verður liðskipan hraðari og allir þungu mennirnar á upphafs reitaröðinni (þeirri fyrstu eða áttundu) ná að tengjast.

Vandinn hins vegar við þumalputtareglu sem þessa er að frá henni eru ótal undantekningar, t.d. getur verið æskilegt að bíða með að ákveða hvort eigi að stutthrókera eða langhrókera. Kosturinn við að bíða með að hrókera getur falist í því að staðan býður upp á fleiri valkosti á hverjum tíma og flóknara er fyrir andstæðinginn að sjá fyrir aðgerðir þess sem bíður með hrókeringuna. Einnig getur verið best að halda kóngnum á miðborðinu og dæmi um þá aðstöðu er kunn sóknarskák Friðriks Ólafssonar með hvítu gegn argentíska stórmeistaranum Miguel Najdorf á Ólympíuskákmótinu í Moskvu árið 1956.

Mig minnir að þessi skák hafi verið birt í bók Friðriks, Við skákborðið í aldarfjórðung: 50 valdar sóknarskákir Friðriks Ólafssonar og gripið er í skákina eftir 19. leik svarts, 19…Dd8-e8.

Stöðumynd 1 – Friðrik Ólafsson gegn Miguel Najdorf, 1956, Moskva

Hvíta staðan er umtalsvert betri enda standa menn hans á kóngsvængnum vel til sóknar. Næstu leikir Friðriks voru kraftmiklir:

20. g5! Rh5 21. Rxh5 gxh5 22. Bxc5! dxc5 23. Be2 a5 24. Rd1 Dg6 25. Dxh5 Dxh5 26. Hxh5

Stöðumynd 2 – Friðrik Ólafsson gegn Miguel Najdorf, 1956

Hvítur er nú peði yfir ásamt því að peðastaða svarts er í molum. Á hinn bóginn hefur svartur biskuparið og gerist hvítur sig sekan um ónákvæmni getur svartur fengið öflugt mótspil. Friðrik hélt hins vegar öllum slíkum vonarneistum svarts í skefjum:

26…Bd7 27. Hc1 Hc8 28. Bc4 Be8 29. Hh2 Bf8 30. Re3 Hcb8 31. Hcc2 Bg6 32. Hhd2 Bd6 33. Ba2 Kg7 34. Rc4 Bc7 35. d6 Bd8 36. Rxe5 Bxg5 37. Rc6 H4b6 38. Rxb8 Bxd2+ 39. Hxd2 Hxb8 40. e5 og svartur gafst upp.

Stöðumynd 3 – Friðrik Ólafsson gegn Miguel Najdorf, 1956 (lokastaðan)

Snotur lokastaða, hvítur er með gjörunnið tafl eftir 40 leiki, jafnvel þótt kóngur hans hafi alla skákina hvorki hreyft legg né lið.

Sóknarhrókeringar úr skáksögunni – frá Paul Morphy til Garry Kasparovs og Boris Gelfands

Stundum getur síðbúin hrókering verið óvænt sóknartilfærsla og eru mörg dæmi um slíkt í skáksögunni, t.d. er talið að undrabarnið Paul Morphy, þá 13 ára, hafi með hvítu, árið 1850, gefið föður sínum a1-hrókinn í forgjöf og lokið skákinni með máthrókeringu:

Stöðumynd 4 – Paul Morphy gegn föður sínum, 1850, New Orleans (staðan eftir 17. leik svarts)

18. O-O mát!

Mörg skemmtileg mát með hrókeringu eru nefnd á vefslóðinni: http://www.chessgames.com/perl/chesscollection?cid=1036960.

Dæmin sem hér eru nefnd til sögunnar byggja einnig á áhugaverðri grein sem ber titilinn When Castles Attack og er birt á skákþjóninum chess.com, eftir bandaríska meðlim klúbbsins að nafni batgirl. Nokkuð skemmtileg máthrókering kom upp í skák sem tefld var á heimsmeistaramóti landsliða í Dresden í Þýskalandi undir 26 ára hið ágæta ár 1969:

Stöðumynd 5 – Oswald Seuss gegn Harry Hurme, 1969, Dresden (staðan eftir 17. leik svarts)

18. Rg5+!! fxg5 19. O-O! mát.

Hrókeringar voru stöku sinnum lokaleikir í skákum Garry Kasparovs, fyrrverandi heimsmeistara í skák (1985-2000), m.a. sá hann sig tilneyddan til að gefast upp gegn Vassily Ivansjúk á ofurskákmóti í Horgen í Sviss árið 1995:

 Stöðumynd 6 – Garry Kasparov gegn Vassily Ivansjúk, 1995, Horgen (staðan eftir 31. leik hvíts)

31…O-O!  og hvítur gafst upp enda á hann ekki lengur sóknarfæri og tapar liði eftir t.d. 32. He4 Db2. Þrem árum síðar tefldi Garry atskákeinvígi við Jan Timman í Prag og í einni skákinni, með svörtu, þvingaði hann Niðurlendinginn til uppgjafar:

Stöðumynd 7 – Jan Timman gegn Garry Kasparov, 1998, Moskva (staðan eftir 30. leik hvíts)

30…O-O! og hvítur gafst upp enda staða hans gleðisnauð í meira lagi, t.d. eftir 31. Bxe5 Hc8 32. Bb2 Bxd1 33. Hxd1 Hc2.

Skák Borisar Gelfands og Michael Adams, sem tefld var á afar sterku atskákmóti í London í árslok 2013, er afar gott dæmi um óvænta hrókeringu. Adams, sem hafði svart, hafði teflt mun betur og hafði þjarmað að Gelfand með snjöllum stöðulegum tilfæringum. Á hinn bóginn gleymdi hann sér eitt augnablik og lék síðast 24…Rf6-d7??

 Stöðumynd 8 – Boris Gelfand gegn Michael Adams, 2013, London (staðan eftir 24…Rf6-d7??)

25. O-O-O! og hvítur vann skiptamun sem dugði til sigurs þrjátíu leikjum síðar.

Sóknarskák frá RTU-skákhátíðinni í Riga 2019

Að loknum þremur umferðum á aðalmóti RTU-skákhátíðarinnar hafði ég tvo vinninga og í fjórðu umferð mætti ég Vinzent Spritzl, þýskum ungum skákmanni. Þar sem ég hafði svart og andstæðingurinn bærilega traustur skákmaður gerði ég ráð fyrir að erfitt yrði að skapa sóknarfæri. Hann tefldi óvenjulega byrjun og ég svaraði henni með hugmyndum sem reistar voru á samtali okkar Guðmundar Kjartanssonar eftir að ég tapaði óheppilega mikilvægri hraðskák gegn litháiskum alþjóðlegum meistara á hraðskákmóti sem haldið var fyrsta dag RTU-skákhátíðarinnar. Sá litháíski endaði aðalmótið glæsilega, náði áfanga að stórmeistaratitli en sigurskák hans gegn mér í hraðskákinni varð uppspretta byrjunar á skák sem mér verður lengi minnisstæð. Hefjum umfjöllun um hana eftir 19. leik hvíts, b3-b4:

Stöðumynd 9 – Vinzent Spritzl gegn Helga Áss Grétarssyni, 7. ágúst 2019, Riga (staðan eftir 19. b3-b4)

Staðan er í dínamísku jafnvægi en augljóst má vera að ég lagði allt undir til að vinna, bæði byrjunarvali mínu sem og þeim sókndjörfu áætlunum að halda kóngnum á miðborðinu ásamt því að vaða áfram með h- og f-peðin mín. Samkvæmt tölvuheilanum er best fyrir svartan að leika 19…Bh3 en ég reiknaði hér mikið út og taldi best að leika 19…hxg3. Framhaldið varð eftirfarandi:

20. fxg3 axb4 21. axb4 Hxa1 22. Hxa1 Rxb4 23. Db3 Rc6 24. Ha8+ Rd8

Stöðumynd 10– Vinzent Spritzl gegn Helga Áss Grétarssyni, 7. ágúst 2019, Riga

Þetta var staðan sem ég hafði reiknað út þegar ég lék 19…hxg3. Aðalatriðið í mínum huga var að koma riddaranum aftur í vörnina á d8 svo að biskupinn væri frjáls til að verja d6-reitinn. Á hinn bóginn segir tölvuheilinn að hvítur standi betur núna eftir 25. Rc4. Andstæðingur minn lék hins vegar 25. gxf4? og þegar við stúderum skákina eftir á taldi hinn ungi Þjóðverji að með þessum leik hefði hann verið að tryggja sér vænlega stöðu enda mikil pressa sett á e5- og d4- peð svarts. Á hinn bóginn er sá gamli ekki dauður úr öllum æðum og sá ýmis sóknarfæri sem fylgdu þeirri ákvörðun andstæðings að hleypa riddaranum á g6 í sóknina. Næstu leikir voru eftirfarandi:

25…Rxf4 26. Rxe5 Df5

Stöðumynd 10a– Vinzent Spritzl gegn Helga Áss Grétarssyni, 7. ágúst 2019, Riga

Vart þarf að taka fram að þessi staða er mjög flókin og báðir keppendur, aðallega ég, vorum orðnir naumir á tíma. Sá þýski lék nú 27. Rxg4 en í stúderingum eftir skákina sáum við ekki hvernig svarta sóknin héldi áfram eftir 27. Db5+. Í því tilviki er tölvuheilinn hins vegar fljótur að sjá vinning eftir 27…Kf8 28. Rxg4 Re2+! 29. Kh1 Dxg4

 

Stöðumynd 11– Vinzent Spritzl gegn Helga Áss Grétarssyni, 7. ágúst 2019, Riga (afbrigði)

Í stúderingum okkar Þjóðverjans eftir skákina sáum við ekki vinning í þessari stöðu eftir að hvítur leikur 30. Rf1 eða 30. Rf3. Á hinn bóginn er sú staðan unnin á svart í báðum tilvikum þar eð í bæði skiptin leikur svartur 30…Df4 og hótar þá 31…Hh8-Hxh2+, 32. Kxh2 Rg3+ 33. Kg1 De3 mát!

Stöðumynd 12– Vinzent Spritzl gegn Helga Áss Grétarssyni, 7. ágúst 2019, Riga (afbrigði)

Ekki amalegt mát þetta! Annað afbrigði væri:

30. Dxb7 (í stað 30. Rf1 eða 30. Rf3) 30…Hxh2+ 31. Kxh2 Df4+ 32. Kh1 Dh4+

Stöðumynd 13– Vinzent Spritzl gegn Helga Áss Grétarssyni, 7. ágúst 2019, Riga (afbrigði)

Hvítur er mát í næsta leik.

Jæja, við skulum ekki týna okkur í of flóknum afbrigðum. Aðalatriðið er að hvítur er svo veikur á svörtu reitunum að hið frábæra samspil hróksins á h8, riddarans á e2 og svörtu drottningarinnar leiðir til þess að hvítur getur ekki varist máti eftir að hann skákar á drottningu með b5. Textaleikurinn í staðinn, þ.e. 27. Re5-xg4, bjargaði hvítu stöðunni ekki heldur. Framhaldið varð eftirfarandi: 27… Dxg4 28. Dxb7

Stöðumynd 14– Vinzent Spritzl gegn Helga Áss Grétarssyni, 7. ágúst 2019, Riga (eftir 28. Dxb7)

Og hérna komum við að aflvaka þessara greinarskrifa, leik sem ég er afar stoltur af:

28… O-O!!

og svartur vinnur í öllum afbrigðum þar sem í fyrsta lagi hótar svartur drottningunni á b7 og í öðru lagi hótar hann Rf4-Rh3+ og fylgja því eftir með Dg4-Dd1+. Kjarninn er sá að aðstaðan hefur breyst og hrókurinn á h8 hefur þjónað sínu hlutverki. Nú þarf svarta sóknin á honum að halda á f-línunni ásamt því að kóngurinn er kominn í öruggara skjól á g8. Jafnframt bætti svartur einni hótun í safnið þar sem drottning hvíts er núna hótað af riddaranum á d8 þar sem hann er ekki lengur leppur! Síðastnefndu hótuninni svaraði hvítur með:

29. Hxd8

Aðrir leikir hefðu einnig tapað. Sem dæmi vinnur svartur drottninguna eftir 29. Df3 Re2+ og framhaldið gæti orðið 30. Kf2 Hxf3+ 31. Bxf3 De6! 32. Bxe2 Bh4+ og hvítur kemur engum vörnum við, t.d. eftir 33. Kf1 Dh3+ 34. Kg1 De3+, sbr. stöðumynd 15:

 Stöðumynd 15– Vinzent Spritzl gegn Helga Áss Grétarssyni, 7. ágúst 2019, Riga (afbrigði)

Bxd8 30. h3 Dg3! 31. Bxd4 Re2+ 32. Kh1 De1+ 33. Kh2 Rxd4 34. Dd5+ Re6

Stöðumynd 16– Vinzent Spritzl gegn Helga Áss Grétarssyni, 7. ágúst 2019, Riga (lokastaðan)

Og hér gafst hvítur upp enda stutt í mátið eftir Bd8-c7+ ásamt því að svartur er hróki yfir.

Skák er dínamísk!

Í skák eru margar góðar og gildar meginreglur. Ein slík meginregla er að hrókera sem fyrst í því skyni að koma kóngnum í öruggara skjól en þegar hann er enn á upphafsreitnum. Frá þeirri meginreglu eru margar undantekningar, m.a. vegna þess að bið eftir því að ákveða hvar eigi að koma kóngnum fyrir getur skapað óvænta og dínamíska möguleika. Einn slíkur möguleiki er að geta hrókerað þegar langt er liðið á skákina. Mörg dæmi um slíka síðbúna hrókeringu hafa verið sýnd í þessari grein en auðvitað þykir mér vænst um þá yngstu, þ.e. þegar ég lék 28…0-0 gegn Vinzent Spritlz hinn 7. ágúst síðastliðinn. Afbrigðin sem eru rakin í sóknaratlögu svarts í þeirri skák eru einnig lærdómsrík og áhugaverð, m.a. með hvaða hætti er hægt að nýta veikleika í kóngsstöðu andstæðings þegar engir menn eru til staðar að verja reiti að ákveðnum lit, í þessu tilviki svörtu reitina í kringum hvíta kónginn.

Sókn er, sem fyrr, besta vörnin.

Að lokum vil ég koma eftirfarandi á framfæri:

Áfram Helgi!

- Auglýsing -