Skákstemming í Iðnó!. Mynd: Þórir Benediktsson.

Sunnudaginn 29. september síðastliðinn fór fram Iðnómótið 2019 – Teflt við Tjörn. Mótið er hluti mótaraðar Miðbæjarskákar, sem eru nýstofnuð félagasamtök með það að markmiði að halda reglubundin skákmót í Miðbæ Reykjavíkur. Undanfarið hafa mótin farið fram mánaðarlega í kjallara kaffihússins Stofunnar, Vesturgötu 3, en nú varð í fyrsta sinn breyting þar á. Upphaflega átti mótið að fara fram í salnum á efri hæð hússins en þar sem hátíðarsalurinn frægi var laus gafst mótshöldurum hið frábæra tækifæri að halda mótið þar. Iðnó á skilið mikið hól fyrir þá ráðstöfun, sem gerði það að verkum að hægt var að opna skráningu að nýju og bæta við fleiri keppendum. 

Sviðið var glæsilegt í Iðnó. Mynd: Þórir Beneditsson.

Að lokum mættu 69 þáttakendur til leiks, framar öllum vonum. Þess má geta að aðeins er rými fyrir rúmlega 40 keppendur í Stofukjallaranum en mótin njóta greinilega slíkra vinsælda að það þarf stærri sal til að allir sem vilji komist. Frasinn “We’re gonna need a bigger boat” úr kvikmyndinni Jaws (1975) kemur strax upp í hugann! Af þessum 69 keppendum voru tveir stórmeistarar, tveir alþjóðlegir meistarar, átta Fide-meistarar (!), einn stórmeistari kvenna og kandidatameistarinn Halldór Brynjar Halldórsson. Fjögur lífsreynd viðaskákborð voru brúkuð á efstu borðunum fjórum, sem voru á sjálfu sviðinu, nánast flóðlýst upp í skammdeginu. Sviðið eignaðist snemma trausta fastagesti, en einnig leit margur skákmaðurinn stutt við á pallborði þeirra bestu. 

Kampakátir verðlaunahafar ásamt mótshöldurum. Mynd: Héðinn Briem.

Svo fór að lokum að stórmeistarinn Helgi Áss Grétarsson vann mótið á glæsilegan hátt með sjö og hálfan vinning í skákunum níu. Tapaði hann eingöngu fyrir Braga Þorfinnssyni og gerði jafntefli í lokaumferðinni gegn Ingvari Þór. Þrír skákmenn hlutu sjö vinninga, bræðurnir Bragi og Björn Þorfinnssynir, auk Ingvars. Fimm skákmenn hlutu sex og hálfan vinning. Lokastöðuna og öll úrslit má finna á chess-results. Peningaverðlaun ásamt inneign hjá Domino’s voru veitt fyrir fyrsta, annað og þriðja sæti, sem fóru til Helga, Braga og Björns. Þar að auki voru veitt verðlaun fyrir bestan árangur miðað við eigin stig sem og fyrir efstu tvo keppendur í flokki U1800. Þess má geta að Domino’s lagði mótahaldinu lið með glæsilegu framlagi til verðlaunafjár, í formi inneigna og pizzaveislna að andvirði 40.000 króna, kunnum við þeim miklar þakkir fyrir það framlag. Í flokki aukaverðlauna varð Björgvin Ívarsson Schram efstur skákmanna undir 1800 stigum og skammt á hæla hans í öðru sæti Gunnar Erik Guðmundsson, báðir með fimm vinninga af níu mögulegum. Báðir fengu þeir pizzaveisu frá Domino’s. Aukinheldur fékk Gunnar Erik stærðarinnar inneign hjá Domino’s því hann varð einnig efstur miðað við eigin stig! (e. rating performance). Búast má við að allt kolvetnið í flatbökunum muni styrkja heilabú Gunnars mikið og auka þar með árangur hans við skákborðið. Taflfélag Reykjavíkur styrkti unglingaverðlaun, einkatíma hjá Guðmundi Kjartanssyni, og hlaut Vignir Vatnar Stefánsson þau en hann fékk 6.5 vinning í mótinu. Þeir sem hækkuðu mest á stigum voru Gunnar Erik Guðmundsson (+72), Guðlaug Þorsteinsdóttir (+56), Símon Þórhallsson (+47) og Björgvin Ívarsson Schram (+42). Glæsilegur árangur!

Umsjón með mótinu og undirbúning þess höfðu Elvar Örn Hjaltason, Héðinn Briem, Arnar Ingi Njarðarson og Gauti Páll Jónsson. Allir tefldu þeir nema Héðinn, sem sá um skákstjórn. Við erum himinlifandi hvernig til tókst með mótið en til að halda áfram frá sem horfir óskum við eftir fleiri styrktaraðilum. Fljótlega birtist auglýsing um næsta mót, sem haldið verður um miðjan október á Stofunni þar sem hámarksfjöldi keppenda verður um 30 manns, en stefnt er að öðru stóru móti í nóvember svipað að sniði og Iðnómótið var í september. 

Fleiri myndir frá Þóri Beneditssyni má finna hér.

Með skákkveðju, Mótshaldarar. 

 

- Auglýsing -