Eftir tvo góða sigra var komið að Hvítrússum í 8. umferðinni. Þeir hafa nokkuð þétt lið og meðal annars Kovalev á fyrsta borði sem var með kolunnið tafl fyrir skemmstu gegn Magnúsi Carlsen á Grand Swiss mótinu. Þjálfari þeirra er hinn þrautreyndi Vladimir Tukmakov. Ljós að erfitt verkefni var framundan en liðsmenn eigðu von um góð úrslit í þessari viðureign eftir mikil batamerki í undanförnum viðureignum.

Skemmst er frá því að segja að Hannes gerði nokkuð auðvelt jafntefli gegn Kovalev. Hannes frumsýndi Petroffs vörn á móntu en hann hefur lítið sem ekkert teflt þá byrjun og kom Hvítrússanum á óvart. Kovalev hugsaði sig um og valdi saklaust afbrigði með uppskiptum á drottningum sem gaf ekkert í aðra hönd og þráleikið var tiltölulega snemma.

Bragi náði líka uppskiptum á drottningum með svörtu en hann beitti Caro-kann vörn að þessu sinni. Snjall leikur andstæðings hans í miðtaflinu Hh5 var eitthvað sem Bragi missti af og tapaði hann peði og var auk þess með stöðulega verra tafl. Braga tókst ekki að klóra í bakkann og úr varð tap.

Gummi setti töluverða pressu á Zhigalko með mannsfórn í miðtaflinu en eftir að Zhigalko gaf manninn til baka virtist frumkvæði hvíts fjara út og jafntefli líklegasta niðurstaðan sem úr varð raunin.

Manni var einnig fórnað fyrir peð hjá Helga Áss á fjórða borði en áður hafði Helgi misst af gríðarlega vænlegri leið með d6 framrás sem hefði getað leitt til gríðarlega fallegrar lokastöðu. Skákin varð samt stórskemmtileg en Helgi lenti í vörn en reyndi allt hvað hann gat til að þeyta ryki í augu andstæðings síns sem var sjáanlega mjög stressaður enda líklega í bullandi normasénsum. Svo fór að Helgi náði að rugla hann í ríminu og tryggja jafntefli úr erfiðri vörn.

Naumt tap því niðurstaðan 1.5-2.5 en Helgi mjög ósáttur að hafa misst af þessari vænlegu leið með d6 leiknum.

Rússar gerðu jafntefli við Englendinga og það nýttu Úkraínu menn sér og unnu stórsigur í sinni viðureign. Liðin eru því jöfn að stigum en Úkraína virðist standa betur að vígi þegar kemur að stigaútreikningum. Ljóst er því að lokaumferðin verður stórspennandi. Við höldum að sjálfsögðu með Ivanchuk, Sulypa og félögum 🙂

Í kvennaflokki leiða þær rússnesku með einu stigi og nægir líklega jafntefli í síðustu viðureign sinni til að tryggja titilinn.

Íslenska liðið mun mæta liði Kósóvo í lokaumferðinni. Þar er að ferðinni annars “skyldusigur” sem ætti að fleyta okkar upp töfluna í lokin.

Lokaumferðin hefst eldsnemma 7:00 að íslenskum tíma og útsending því 7:15.

- Auglýsing -