Sjöunda umferðin bauð upp á miklar sviptingar og ljóst að keppendur voru mættir til að berjast í sjöundu umferð á Heimsmeistaramótinu. Ísey Skyr Skákhátíðin hefur gengið vel og nú er Heimsmeistaramótið og Opna Suðurlandsmótið á lokametrunum á Hótel Selfossi.

Þremur skákum lauk með því að einhver varð að lúta í dúk og jafnteflisskákirnar báðar voru skákir þar sem glötuð tækifæri gætu kostað andvökunætur. Andvökunæturnar verða þó varla verri en hjá Semyon Lomasov sem lék skák sinni úr nokkuð öruggu jafntefli í tap í nokkrum leikjum í tiltölulega einföldu endatafli.

Héðinn vs Hannes

Héðinn tefldi af krafti gegn Hannesi og var greinilega staðráðinn að bæta fyrir brokkgengt gengi framan af móti. Héðinn fékk vænlega sóknarstöðu á meðan að Hannes vanrækti liðsskipan drottningarvængs síns.

Héðinn tefldi framhaldið nægjanlega vel til að hala inn vinningnum. Nokkrir “linir” leikir komu inn á milli en svarta staðan hafði ekki burðarþol í lélega liðsskipan og leiki eins og …h6 og Héðinn lét loks til skrar skríða á f7 eftir þann leik.

33…h6? leyfði 34.Bxf7! en biskup eða riddari e6 hefði mögulega komið Hannesi inn í skákina.

 

Sara vs Adly

Á einhvern óskiljanlegan hátt varð úr maraþon skák hjá Söru og Ahmed Adly þegar þau tefldu steindautt mislinga endatafl í 50-60 leiki þegar hægt var að semja algjörlega strax. Mikil orka fór í að giska á  hvernig nokkrum manni datt í hug að tefla stöðuna svona lengi og til hvers!

Ekki var það svekkelsi hjá svörtum því Adly þurfti að hafa mikið fyrir því að ná jafnteflinu. Sara tefldi stöðulega og af miklu öryggi og tefldi gegn stöku peði Adly.

Sara fékk mjög vænlegt endatafl með biskupparið og svartur með passífa stöðu. Algjör draumastaða hjá hvítum en hér leyfði hún svörtum að losa veikleikann sinn eftir 36.Ke2? d4! Ef hún hefði þessi í stað haldið blokkeringunni á d4 og bætt stöðuna jafnt og þétt ætti hún jafnvel góða sénsa á stórmeistaraáfanga en þess í stað náði Adly að verjast.

 

Leitao vs Dinara

Það er eiginlega með öllu óskiljanlegt hvernig Leitao vann ekki sína skák. Hann tefldi algjöra módelskák í þessu afbirgði í enskum leik, stoppaði allt mótspil svarts og spólaði sig í gegn á drottningarvæng.

Hér virðist hvítur geta valið úr vinningsplönum og svartur á ekkert mótspil. Tölvurnar segja +13 á tvo bestu leiki hvíts hér! Einhvern veginn náði Dinara að hanga inn í skákinni en undirritaður skilur samt engan veginn hvernig skákin endaði í jafntefli!

 

Zhigalko vs Helgi

Helgi var í hörku pósaskák gegn Zhigalko. Lengi vel var ekkert ljós hvor stæði betur og í tímahraki sneri Zhigalko taflinu sér í vil. Eftir slakan leik 30…Dd8 kom 31.exf5 gxf5

Hér gaf svo 32.Rxe5 hvítum betra tafl og var 33.Bf7! í kjölfarið sérlega smekklegur leikur!

Lomasov vs Antipov

Rússarnir Lomasov og Antipov eru kannski mestu mátar utan skákborðsins en við borðið var enginn vinskapur. Margir bjuggust jafnvel við stuttu jafntefli hjá þeim félögum og lengi framan af leit ekki út fyrir neitt annað. Antipov hélt samt áfram að djöflast og uppskar endatafl sem var eitthvað betra á hann. Vinningur var þó líklegast ekki í sjónmáli.

Þá komum við í þessa stöðu. Þetta gæti verið vendipunkturinn á öllu mótinu! Lomasov sem var fyrir umferðina í dauðafæri á að ná sér í stórmeistaraáfanga þurfti aðeins að leika hér 45.Bxe6 og peðsendataflið er jafntefli með nokkrum nákvæmum andspænisleikjum. Þess í stað lék hann 45.Bxa6?? og biskupinn varð að lokum auðveld bráð fyrir svarta kónginn og Antipov vann 13 leikjum síðar. Hvað ætli Lomasov hafi yfirsést? Tóku taugarnar kannski yfir?

Í öllu falli gríðarlega mikilvægur sigur fyrir Antipov sem nú er kominn aftur í efsta sætið og skiptir um sæti við Lomasov. Það stefnir svo í æsispennandi lokaumferð  ef allt fer að óskum þar sem Antipov og Adly munu mætast.

Útsending 7. umferðar

https://www.twitch.tv/videos/514060619

Skákir 7. umferðar (veljið skákir með því að smella á bláa þrípunktinn)

Úrslit 7. umferðar

 

Staða eftir 7 umferðir

 

Pörun 8. umferðar

Úrslit og staða á chess-results

Heimasíða mótsins

- Auglýsing -