Fyrsti leikurinn Jón L. Árnason leikur riddaranum fram fyrir Sadukassovu. — Morgunblaðið/Páll Jökull.

Jón L. Árnason lék fyrsta leikinn á Ísey-skyrs-skákhátíðinni sem hófst á Hótel Selfossi sl. mánudag og er haldin í tilefni 30 ára afmælis SSON, Skákfélags Selfoss og nágrennis. Af nokkrum skákviðburðum sem efnt hefur verið til af þessu tilefni ber hæst lokað mót 10 skákmanna sem eiga það sameiginlegt að hafa á einhverjum tímapunkti fagnað heimsmeistaratitli ungmenna í sínum aldursflokki.

Jón L. var fyrstur Íslendinga til að vinna þetta afrek í Cagnes sur mer við frönsku rivíeruna haustið 1977. Meðal keppenda þar var hinn 14 ára gamli Garrí Kasparov. Tíu árum síðar endurtók Hannes Hlífar Stefánsson afrek Jóns og sama ár vann Héðinn Steingrímsson heimsmeistaratitilinn í flokki barna 12 ára og yngri. Helgi Áss Grétarsson varð svo heimsmeistari unglinga 20 ára og yngri árið 1994.

Vel hefur tekist til með þá keppendur sem þarna tefla. Jón L. kom því ekki við að tefla á mótinu en þarna eru tvær ungar stúlkur, önnur frá Íran og hin frá Kasakstan, báðar fyrrverandi heimsmeistarar í stúlknaflokki.

Eftir þriðju umferð á fimmtudagskvöldið var staðan þessi: 1. Antipov (Rússland) 2½ v. 2.-3. Lomason (Rússland) og Leitao (Brasilía) 2 v. 4.-6. Hannes Hlífar Stefánsson, Zhigalko (Hvíta-Rússland) og Adly (Egyptaland) 1½ v. 7.-10. Helgi Áss Grétarsson, Héðinn Steingrímsson, Sadukassova (Kasakstan) og Khademalsharieh (Íran) 1 v.

Rússnesku skákmennirnir, Antipov og Lomasov, komu skemmtilega fyrir. Þegar þeir voru nýlentir seinni part mánudags eftir langt ferðalag frá Moskvu litu þeir við í Stúkunni á Kópavogsvelli og tefldu við unga skákmenn sem voru mættir á æfingu. Búast má við þeim í baráttunni um sigurinn enda taktarnir skemmtilegir sbr. eftirfarandi skák sem tefld var í fyrstu umferð:

Ísey-skyr-skákhátíðin; 1. umferð:

Dinara Sadukassova – Mikhail Antipov

Grunfelds-vörn

1. Rf3 Rf6 2. c4 g6 3. Rc3 d5 4. cxd5 Rxd5 5. h4 Rxc3 6. bxc3 Bg7 7. h5

Gallinn við þessa leið er kannski sá að það vantar smá kraft til að fylgja henni eftir. En bjartsýnin er ósvikin.

7…. c5 8. e4 Rc6 9. Bb5 Bg4 10. Db3 Bxh5 11. Rg5?!

Annar möguleiki og ekki síðri var 11. Rh2 sem hótar 12. g4. Svartur getur svarað því með 11…. g5.

11…. 0-0 12. Rxh7

Lítur vel út en í meðförum Antipovs virkar atlagan eins og vindgustur á þakskeggi.

12…. Kxh7 13. g4 Rd4!

Snarplega leikið og upphafið að magnaðri gagnsókn. 14. cxd4 er svarað með 14…. Dxd4 sem hótar hróknum á a1 og 15…. Dxe4+.

14. Db1 Rf3+ 15. Ke2 Dc8! 16. gxh5 Dg4 17. hxg6+ Kg8 18. Kf1 Rh4 19. Ke1.

(Skárra var 19. Hxh4 Dxg4 20. Bc4 e6 21. Dd3 en svarta staðan er léttunnin eftir 21…. Had8 o.s.frv.)

19…. Rg2+ 20. Kf1 fxg6 21. Be2

21…. Hxf2+! 22. Kf2 Hf8+ 23. Kg1 Re3+!

 

 

 

 

 

 

– Glæsilegur lokahnykkur. Hvítur gafst upp því að mát er óumflýjanlegt:

23. Bxg4 Hf1+ 24. Kh2 Be5+ 25. Kh3 Hxh1 mát.

Keppni í opnum flokki mótsins hófst á fimmtudaginn. Tefldar verða sjö umferðir. Þar eru meðal 19 keppenda Hjörvar Steinn Grétarsson, Guðmundur Kjartansson, Jón Viktor Gunnarsson, Bragi Þorfinnsson og Björn Þorfinnsson.

Umgjörð mótsins er með miklum ágætum og er heimasíðan, sson.is/selfoss-chess-festival/, t.a.m. afar vel heppnuð.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 23. nóvember

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -