Fullt hús Hjörvar Steinn með bikarinn fyrir sigurinn. — Morgunblaðið/Ingvar Þ. Jóhannesson

Egyptinn Ahmed Adly og Rússinn Mikhail Antipov urðu efstir á Ísey Skyr-mótinu sem lauk á Hótel Selfossi um síðustu helgi. Þeir hlutu báðir sex vinninga af níu mögulegum en í 3.-4. sæti urðu Hannes Hlífar Stefánsson og Hvítrússinn Sergei Zhighalko með fimm vinninga. Heimsmeistaraflokkurinn sem svo var kallaður var skipaður skákmönnum sem höfðu einhvern tíma unnið heimsmeistaratitil í sínum aldursflokki.

Í opnum flokki mótsins bar Hjörvar Steinn Grétarsson höfuð og herðar yfir aðra keppendur og vann allar skákir sínar, sjö talsins. Í 2. sæti varð Jón Viktor Gunnarsson, hlaut fimm vinninga, og í 3. sæti Vignir Vatnar Stefánsson með 4 ½ vinning.

Hjörvar þurfti lítið fyrir sigrum sínum að hafa en áberandi var hve illa andstæðingar hans voru að sér í þeim byrjunum sem upp komu. Að vinna mót með fullu húsi er afrek. Hitt er svo annað mál að taflmennska á mótum hér innanlands getur vart talist nægileg áskorun fyrir jafn öflugan skákmann og Hjörvar Stein.

Þátttaka Björns Þorfinnssonar, ef þátttöku skyldi kalla, var sérstakur kapítuli út af fyrir sig. Hann tefldi tvær skákir og vann þær báðar, fékk þrjár ½ vinnings yfirsetur en gat ekki mætt í tvær skákir og fékk þar engan vinning. Björn er drengur góður en afi hans, Björn á Löngumýri, hefði ráðlagt honum að sleppa frekar mótinu.

Margeir góður á EM

Einn sem veit hvað hann syngur í byrjunum og áfram þegar inn í miðtaflið er komið er Margeir Pétursson. Hann fann sinn stíl fyrir margt löngu. Á EM skákfélaga sem lauk í Svartfjallalandi á dögunum tefldu tvö íslensk lið og stóðu sig eftir væntingum en bestum einstaklingsárangri náði Margeir sem tefldi á 4. borði fyrir TR og hlaut 4 ½ vinning af 7 mögulegum. Í næstsíðustu umferð vann hann á sannfærandi hátt:

EM skákfélaga 2019; 6. umferð:

Margeir Pétursson – Miroslav Miljkovich

1. c4 e5 2. Rc3 f5 3. d4 exd4 4. Dxd4 Rc6 5. De3+!

Nákvæmur leikur sem truflar liðskipan svarts, 5. … De7 má t.d. svara með 6. Rd5 o.s.frv.

5. … Rce7 6. Rf3 Rf6 7. g3 Rg4 8. Dd2 g6 9. Dd4 Hg8 10. Bg2 Bg7 11. Dd2 d6 12. 0-0 c6 13. Hd1 Be6 14. b3 Dd7 15. Ba3 0-0-0 16. Hac1 d5?

Eftir slæma byrjun vill svartur nú verja d6-peðið. En það gengur ekki upp.

17. h3 Rf6 18. Rb5!

Ræðst strax til atlögu

18. … Re4

Vitaskuld ekki 18. … cxb5 19. cxd5+ og 20. dxe6 með auðunninni stöðu.

19. Df4 cxb5 20. cxb5+ Rc6 21. Rd4 g5 22. Df3 Bxd4 23. Hxd4 Kb8 24. bxc6 bxc6 25. Dd3 Ka8 26. Da6 Hc8 27. Bc5 Db7 28. Da3 Rxc5 29. Hxc5 De7 30. Ha4

Eykur þrýstinginn en 30. Hdxd5! var freistandi, gengur upp og kemur síðar.

30. … Hc7 31. Dc1 Dd6 32. Hd4 f4

33. Bxd5!

Eftir þennan öfluga leik hrynur svarta staðan.

33. … Bxd5 34. Hdxd5 De6 35. g4 He8 36. Hxg5 Dxe2 37. Dxf4 Hd7 38. Hge5! Hxe5 39. Hxe5 Dd1+ 40. Kg2 a6 41. He8+ Hd8 42. De4! Hxe8 43. Dxc6+ Ka7 44. Dxe8 Dd5+

Drottningarendataflið er auðunnið en svartur þráast við.

45. Kg3 Dd6+ 46. f4 Dd3+ 47. Kh4 Dd2 48. De4 Kb6 49. Dxh7 Dxf4 50. Dg6+ Kb7 51. Kh5 Dh2 52. De4+ Kb6 53. De3+ Kc6 54. a4 Dc2 55. h4 a5 56. Kh6 Kb7 57. g5 Dc7 58. De4+ Kb8 59. g6 Dd6 60. h5 Ka7 61. Kh7

– og loks gafst svartur upp.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 7. desember 2019

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -