Heimsmeistarakeppnin í atskák og hraðskák fór fram um jólin frá 26.-30. desember og var hin besta skemmtun á að horfa. Og niðurstaðan féll í kramið hjá norsku þjóðinni sem gat fylgst með hverjum einasta leik Magnúsar Carlsen í beinum útsendingum NRK alla keppnisdagana. Magnús vann bæði mótin með glæsibrag og heldur nú heimsmeistaratitli í þremur keppnisgreinum skákarinnar. Hann endurtók því afrek sitt frá því 2014 og heimsmeistaratitlarnir eru nú orðnir ellefu talsins. Sigrarnir á skákmótum liðins árs eru því tíu talsins og bresku blöðin Guardian og Financial Times bættu því við að í byrjun desember sl. hefði Norðmaðurinn tyllt sér um stund í efsta sæti í knattspyrnuleiknum FPL, Fantasy Premier league, sem sjö milljón manns stunda á netinu og er vinsælt tómstundagaman meðal ýmissa spámanna verðbréfamarkaðanna.

Við upphaf atskákmótsins vakti athygli að hinn 16 ára gamli Írani, Alireza Firouzja, tefldi undir fána FIDE. Hann getur ekki sætt sig við kröfur sem gerðar eru til íranskra keppnismanna um að þeir mæti ekki til leiks ef Ísraelsmenn eru meðal þátttakenda. Firouzja dvelur nú í Frakklandi ásamt fjölskyldu sinni. Margir spá þessum unga manni heimsmeistaratitli í framtíðinni.

Í atskákinni náði Magnús forystunni um miðbik mótsins og lét hana aldrei af hendi eftir það, hlaut 11½ vinning af 15, Firouzja varð í 2. sæti með 10½ vinning og betri stigatölu en Nakamura og Rússinn Artemiev. Í kvennaflokki sigraði indverska skákkonan Humpy Koneru.

Hraðskákkeppnin tók tvo daga, 21 umferð, tímamörk 3 2 og mikill handagangur í öskjunni. Aftur náði Magnús forystunni um miðbikið en það var naumt og Nakamura yfirleitt ½ vinningi á eftir. Í 19. umferð tefldi Magnús við Firouzja. Eftir 66 leiki kom þessi staða upp:

HM í hraðskák; 19. umferð:

Alireza Firouzja – Magnús Carlsen

Þessi staða er jafntefli því það er of stutt á milli frípeðanna. En Firouzja féll á tíma! Í TR í gamla daga hefði skákstjórinn Hermann Ragnarsson dæmt jafntefli en reglur FIDE um slíkar stöður eru skýrar. Þar sem hægt er að stilla upp mátstöðu, þótt langsótt sé, fékk Magnús vinninginn. Firouzja undi þeirri niðurstöðu illa og mótmælti úrskurðinum og taldi að Magnús hefði truflað sig með því að bölva á norsku í miðri skák. Málinu var vísað frá. Magnús mátti hinsvegar sætta sig við jafntefli í lokaumferðunum og Nakamura náði honum að vinningum. Báðir hlutu 16½ vinning af 21 mögulegum, Vladimir Kramnik varð í 3. sæti með 15 vinninga. Í kvennaflokknum sigraði svo rússneska skákkonan Katerina Lahno.

Nú varð að leiða til lykta baráttuna í opna flokknum með stuttu einvígi og Armageddon-skák ef með þyrfti. Jafntefli varð í fyrri skákinni en í þeirri seinni vann Magnús glæsilegan sigur. Það var magnað að fylgjast með hæfni hans og keppnishörku.

Guðmundur Íslandsmeistari í atskák

Þrír skákmenn, Guðmundur Kjartansson, Hjörvar Steinn Grétarsson og Þröstur Þórhallsson urðu efstir og jafnir á Íslandsmótinu í atskák sem fram fór hjá TR sl. laugardag. Þeir hlutu 7½ vinning af 9 mögulegum. Guðmundur var með bestu mótsstigin og er því atskákmeistari Íslands 2019. Keppendur voru 46 talsins. Vetrarvertíðin hefst svo á morgun með Skákþingi Reykjavíkur.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 4. janúar 2020.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -