Mynd frá fyrri viðburði Miðbæjarskákar.

Íslandsmótið í hugi og hönd 2020 fer fram föstudaginn 24. janúar næstkomandi klukkan 19:30. Menningarfélagið Miðbæjarskák heldur mótið í samstarfi við TR og Billiardbarinn en teflt er skáksalnum Faxafeni 12. Mótið verður í anda Skemmtikvöldanna sem haldin voru hér áður fyrr. 

Hugur og hönd gengur út á það að tveir eru saman í liði og sér annar um að segja hvaða mann eigi að leika (hrókur t.d) og hinn velur svo einhvern mögulegan leik með hrók, svo dæmi sé tekið. Tefldar verða sjö umferðir með tímamörkunum 5+5. 1000 króna þátttökugjald er á sveit og 4500 elo hraðskákstiga hámark er á hvert tveggja manna lið. Menn geta ákveðið lið áður en mótið hefst, en einnig verður hægt að mynda lið á staðnum. Arnar Ingi Njarðarson verður skákstjóri mótsins. Veitt verða verðlaun fyrir þrjár efstu sveitirnar. Hægt verður að skrá sig hér en einnig verður hægt að skrá sig á staðnum. Þegar skráða keppendur má finna hér

Klukkan 21, í hléi, verður opnað yfir í Billiardbarinn hvar skákmenn geta vætt kverkarnar áður en haldið er áfram með mótið. Bjórinn verður á 800 krónur fyrir alla þáttakendur í mótinu. 20 ára aldurstakmark er í mótið og öll meðferð áfengis er bönnuð í húsakynnum taflfélagsins. 

Verður þetta fyrsta mót Miðbæjarskákar 2020, en hingað til hafa mót félagins farið fram á kaffihúsinu Stofunni, en einnig hefur félagið haldið mót í Iðnó og Bíó Paradís.  Næsti viðburður verður svo í febrúar og verður það auglýst betur þegar nær dregur. 

- Auglýsing -