Tveir góðir Hjörvar Steinn og Guðmundur Kjartansson tefldu saman í 3. umferð. — Morgunblaðið/Helgi Ólafsson

Stórmeistarinn Hjörvar Steinn Grétarsson hélt uppteknum hætti, tefldi létt og leikandi og vann öruggan sigur í þriðju umferð á Skákhátíð MótX sem tefld var þriðjudagskvöldið 21. janúar.  Andstæðingur Hjörvars að þessu sinni var enginn aukvisi, alþjóðlegi meistarinn margreyndi Guðmundur Kjartansson. Þegar Guðmundur lék ónákvæmt í tuttugasta leik, tók Hjörvar Steinn öll völd á borðinu og blés til stórsóknar á kóngsvæng. Hann lét kné fylgja kviði og einsýnt var um úrslit er Gummi lagði niður vopn í 31. leik. Hjörvar Steinn hefur nú náð 2592 elóstigum á lifandi stigalista íslenskra skákmanna og stefnir óðfluga á 2600 stiga múrinn. Spennandi verður að fylgjast með múrbrjótnum efnilega í næstu umferðum.

Á öðru borði voru skákmeistararnir prúðu, Vignir Vatnar og Jón Viktor, í friðarhugleiðingum. Þeir slíðruðu sverð sín snemmhendis, sömdu um skiptan hlut og var hvortveggi allsáttur við þau úrslit.

Gauti Páll og Ingvar Þór áttust við á þriðja borði. Skákin var í jafnvægi framan af en svo fór að þeim fyrrnefnda skrikaði fótur, Ingvar Þór gekk á lagið og landaði öðrum sigri sínum í röð.

Ungu mennirnir bráðefnilegu, Dagur Ragnarsson og Símon Þórhallsson, öttu kappi á fjórða borði. Dagur var einbeittur vel og vann nokkuð öruggan sigur.

Önnur úrslit voru ekki óvænt, nema hvað vert er að geta góðs sigurs efnispiltsins unga, Birkis Ísaks, á Magnúsi Pálma Örnólfssyni. Birkir Ísak hefur komið sér upp vænlegri stöðu í öllum þremur umferðum mótsins, en náði loks að knýja fram sigur.

Frekari úrslit má sjá hér: http://chess-results.com/tnr505105.aspx?lan=1&art=2&rd=3

Heiðursskákstjóri var stórmeistarinn geðþekki, Helgi Ólafsson. Setti hann skemmtilegan svip á upphaf umferðarinnar og kunnu keppendur vel að meta viðveru þessa mikla meistara sem hefur gert ótrúlega mikið fyrir íslensku skákhreyfinguna á undanförnum áratugum. Helst mætti nefna Jóhann Þóri heitinn í sömu andrá og Helga í þeim efnum að öðrum skákfrömuðum ólöstuðum. Helgi nýtti meðal annars einstakt næmi sitt fyrir góðum aðbúnaði keppenda með því að koma fyrir lampa við 2. borð en þar hafði skuggi hreiðrað um sig. Eftir að skákstjórinn hafði komið lampanum á sinn stað var sem himnesk friðarbirta léki um taflborð og keppendur og var þeim vettergis vant til að sýna hvað í þeim bjó.

Gunnar Erik vann óvæntan sigur á Aroni Þór. Mynd: helgi Ólafsson. 

Keppendur á tveimur efstu borðum B-flokks voru friðsamir og sömdu um jafntefli. Pétur Pálmi Harðarsson, sem hefur skotist leifturhratt upp elóstigalistann, vann góðan sigur og sama mátti segja um Hörð Aron Hauksson sigurvegara B-flokksins árið 2017. Á fimmta borði vann svo Gunnar Erik góðan og óvæntan sigur á Aroni Þór Mai. Keppni í B-flokknum er afar jöfn og ljóst er að margir keppendur ætla sér að tróna þar á tindi.

Frekari úrslit má sjá hér: http://chess-results.com/tnr504996.aspx?lan=1&art=2&rd=3

Húsfyllir var og meðal áhorfenda má nefna Gunnar Björnsson forseta Skáksambandsins, Pálma Ragnar Pétursson, yfirMáta, fyrrverandi formann Hugins og fyrrverandi varaforseta SÍ, Magnús Matthíasson, fyrrverandi varaforseta SÍ og fyrrverandi formann SSON, Vigfús Óðin Vigfússon, fyrrverandi formann Hellis og varaformann Hugins, Kristófer Gautason, formann Skákdeildar Breiðabliks, Kristján Örn Elíasson eftirlitsmann FIDE og formann skákdómaranefndar SÍ  og Omar Salama alþjóðlegan skákdómara. Við þökkum þessum góðu gestum áhugann og mikilvægan stuðning þeirra við mótið.

Teflt er á hverjum þriðjudegi fram til 18. febrúar og hefst taflmennska klukkan 19:30. Gestir eru velkomnir, heitt er á könnunni og bruðerí af bestu gerð! Fjórða umferð fer fram þriðjudaginn 28. janúar.

Höfundar greinar: Halldór Grétar Einarsson, Jón Þorvaldsson og Pálmi Ragnar Pétursson.

- Auglýsing -