Öflugt skákstarf hefur verið á leikskólanum Laufásborg í árabil. Fyrir þau börn sem vilja halda áfram í skákinni og búa í vesturhluta borgarinnar hefur lítið framboð verið af skákstarfi, bæði í skólum og íþróttafélögum. Þess vegna tóku Laufásborgar foreldrar sig saman og hafa frá áramótum unnið að því að koma á fót skákstarfi fyrir börn í KR. Hefur það verið gert í góðu samstarfi við Skákdeild KR en þar hefur verið öflugt skákstarf um árabil en ekki hefur verið í boði skák fyrir börn í lengri tíma.

Skákdeild KR mun nú í febrúar bjóða upp á tvo hópa, Skák I fyrir byrjendur og Skák II fyrir lengra komna, en frá og með mars verður bætt við æfingum á virkum dögum.

Fyrstu æfingar voru helgina 8.-9. febrúar í KR heimilinu í Frostaskjóli og fór mætingin fram úr björtustu vonum en á bilinu 80-90 börn mættu til að reyna fyrir sér í skáklistinni þá helgi.

Héðinn Briem sem fer fyrir skákkennslunni, ásamt félögum sínum í Miðbæjarskák, var hæstánægður með mætinguna og segir greinilega eftirspurn vera eftir skákstarfi í vesturhluta borgarinnar.

Skákdeild KR hvetur öll áhugasöm börn til að mæta á æfingar á laugardögum og sunnudögum.

Nánari upplýsingar á https://www.kr.is/skak/

- Auglýsing -