Myllubakkaskóli í Reykjanesbæ var heimsóttur í vikunni en heimsóknin var hluti af Fræðsluverkefni Skáksambands Íslands. Markmið verkefnisins er að kynna nemendur fyrir leyndardómum skáklistarinnar en um leið að leiðbeina kennurum um hvernig standa megi í framhaldinu að skákkennslu og skákstarfi.

Björn Ívar Karlsson heimsótti 9. bekk skólans en Sigurður Ingimundarson, umsjónarkennari árgangsins, er mkikill áhugamaður um skák. Hann hefur, að eigin frumkvæði, kennt nemendum sínum skák og haft það að markmiði að þau fái að tefla að minnsta kosti einu sinni í viku. Björn eyddi hálfum skóladegi með Sigurði og nemendum hans og fór yfir víðan völl í skákkennslu og yfir helstu atriði sem gagnast nemendum í að ná frekari tökum á skáklistinni.

Skólinn er vel búinn nýlegum skáksettum en þar sem þau eiga ekki skákklukkur hafa þau leyst það mjög lipurlega með því að nota sniðugt skák-app sem kallast Chess clock fyrir spjaldtölvur og síma. Þar sem hver einasti nemandi 9. bekkjar Myllubakkaskóla er búinn spjaldtölvum var auðvelt að nota þær sem skákklukkur. Björn kynnti nemendur einnig fyrir skákvefnum skakkennsla.is og leiðum til þess að æfa sig og tefla í gegnum netið. Innan tíðar voru allir nemendur árgangsins búnir að búa sér til aðgang að chess.com í spjaldtölvunum sínum og byrjaðir að tefla þar, enda skákáhugi meðal nemenda mikill. Björn endaði heimsóknina á því að tefla blindskákir við nokkra áhugasama nemendur árgangsins sem vakti mikla lukku.

Skólastjórnendur Myllubakkaskóla hafa ásamt Sigurði mikinn áhuga á því að koma skákinni inn á stundatöflu í skólanum í framtíðinni með leiðsögn frá Skáksambandinu.

- Auglýsing -