Teflandi skákdómari Halldór G. Einarsson (t.v.) hefur haft í ýmsu að snúast á Skákhátíð MótX. Hann teflir og er jafnframt skákstjóri. Með honum á myndinni er aldursforseti mótsins, Benedikt Jónasson.

Guðmundur Kjartansson og Dagur Ragnarsson eru jafnir í efsta sæti þegar ein umferð er eftir í A-flokki Skákhátíðar MótX sem staðið hefur yfir frá janúarbyrjun en teflt hefur verið einu sinni í viku í Stúkunni á Kópavogsvelli. Þeir hafa báðir hlotið 5 vinninga af sex mögulegum og eru vinningi á undan næstu mönnum sem eru Hjörvar Steinn Grétarsson, Ingvar Þ. Jóhannesson, Halldór G. Einarsson og Davíð Kjartansson sem eru allir með 4 vinninga.

Í síðustu umferð sem fer fram næsta þriðjudagskvöld hefur Dagur svart gegn Ingvari Þ. Jóhannessyni en Guðmundur teflir við Halldór G. Einarsson einnig með svart. Báðir efstu menn eru þessa dagana að keppa að ákveðnu marki, Guðmund vantar lítið upp á til að verða stórmeistari og Dagur stefnir að titli alþjóðlegs meistara.

Í B-riðli komust Pétur Pálmi Harðarson og Guðni Pétursson í efsta sætið með sigri sl. þriðjudag og eru báðir með 5 vinninga af sex mögulegum. Arnar Milutin og Jóhanna Björg Jóhannsdóttir koma næst með 4½ vinning.

Hannes Hlífar byrjar í Prag

Hannes Hlífar Stefánsson vann skák sína í fyrstu umferð í áskorendaflokki Skákhátíðarinnar í Prag sem hófst á miðvikudaginn. Í flokknum tefla tíu skákmenn allir við alla og þar sem Hannes var sá eini sem náði að vinna í fyrstu umferð er hann einn í efsta sæti. Sigurvegarinn í áskorendaflokknum öðlast rétt til að tefla í efsta flokki að ári. Þar hófu leikinn á miðvikudag kappar á borð við Íranann Firouzja, Tékkann Navara, Indverjann Vidit, Svíann Grandelius og Bandaríkjamanninn Shankland svo nokkrir séu nefndir.

Sigur Hannesar Hlífars í fyrstu umferð var sannfærandi en skemmtilegir biskupsleikir hans í miðtaflinu virtust slá andstæðinginn út af laginu. Úrvinnsla Hannesar eftir að hann vann peð var fumlaus:

Skákhátíðin í Prag; 1. umferð:

Hannes Hlífar Stefánsson – Tadeas Kriebel (Tékkland)

Sikileyjarvörn

1.e4 c5 2. Rf3 e6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 Rc6 5. Rc3 Dc7 6. Be2 Rf6 7. 0-0 Be7 8. Be3 0-0 9. f4 d6 10. Kh1 Rxd4 11. Dxd4 e5 12. Dd3 b6 13. Had1 Bb7 14. Bf3 Had8 15. f5 Hfe8 16. Bf2 Dc8

Svartur hefur lagt mikið upp úr því að sleppa „skylduleiknum“ a7-a6 og þarna er ástæðan komin fram. Hann vill skjóta biskupnum til a6 en það er raunar ekki merkilega hótun.

17. Hfe1 Ba6 18. Dd2 d5!

Best. Svartur væri mjög aðþrengdur án þessa leiks.

19. Rxd5 Rxd5 20. exd5 Dxf5 21. He4 Bd6 22. Bh4 Hc8 23. Hde1 Dd7 24. Bh5?!

Þessi leikur er í raun fremur vafasamur ef svartur bregst rétt við.

24…. Hf8?

Hann gat leikið 24…. g6! og möguleikar svarts eru betri því að hvorki 25. Dh6 eða 25. Bf6 er hættulegir leikir.

25. Bf6!

Bráðsnjallt og byggist á einfaldri hugmynd: 25…. gxf6 26. Hg4+ Kh8 27. Dh6 og vinnur.

25…. Df5 26. Bxe5 Hcd8?

Eftir þennan leik er eftirleikurinn auðveldur. Hann varð að leika 26…. Bxe5 27. Hxe5 Dxc2 og svartur getur varist. Nú er hann peði undir og hefur engar bætur.

27. Bf3 Bxe5 28. Hxe5 Df6 29. b3 Dd6 30. He7 Bc8 31. Hxa7 Bd7 32. Df2 f5 33. Hb7 Hf6 34. c4 Hh6 35. h3 Hf8 36. De3 Hhf6 37. He2 Bc8 38. He7 Dg3 39. Df2 Dd6 40. Dh4 Bd7 41. H2e5 h6 42. b4 Ba4 43. a3 Bc2 44. H5e6 Dd8 45. Dg3 H6f7 46. De5 Be4 47. hxf7 Kxf7 48. Bh5+

– og svartur gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast Skák.is viku eftir birtingu í blaðinu sjálfu. Þessi þáttur er frá 15. febrúar 2020

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -