Vignir Vatnar og Hilmir Freyr tefla í fyrsta skipti fyrir a-lið Íslands á EM í nóvember.

Hilmir Freyr Heimisson, 18 ára, og Vignir Vatnar Stefánsson, 17 ára, unnu til gullverðlauna í sínum flokkum á Norðurlandamóti ungmenna sem fram fór í Fredericia í Danmörku um síðustu helgi. Hilmir, sem tefldi í aldursflokki A fyrir keppendur fædda á árabilinu 2000-2002, hlaut 5 vinninga af 6 mögulegum og varð einn efstur. Sigur hans hékk þó á bláþræði því helsti keppinautur hans, Svíinn Isak Storme, hefði með sigri yfir Bárði Erni Birkissyni í lokaumferðinni getað náð Hilmi að vinningum og unnið á betri mótsstigum. En til þess kom ekki því að Bárður tefldi af óbifanlegu öryggi í þessari mikilvægu skák, gerði jafntefli og það tryggði Hilmi sigur.

Vignir var með kvefpest allt mótið en lét það ekki hafa áhrif á sig. Hann varð í 1.-2. sæti i B-flokknum, sem skipaður var keppendum fæddum 2002 og 2003. Jafn honum að vinningum varð Norðmaðurinn Noam Vitenberg en Vignir var hærri á stigum. Það skipti sköpum að Stephan Briem vann mikilvæga skák í lokaumferðinni og bætti með því við stigatölu Vignis svo um munaði.

Þetta er þriðja árið í röð sem Íslendingar vinna til tvennra gullverðlauna í fimm flokkum en flokkarnir eru vel skipaðir. Þannig státa Norðmenn, sem fengu flesta vinninga samanlagt, af mikilli breidd sem rekja má til hinnar miklu uppsveiflu skákarinnar í í Noregi. Hilmir Freyr hefur tvisvar unnið sinn flokk á Norðurlandamótunum en hóf keppni á þessum vettvangi í Bifröst árið 2013. Vignir Vatnar hefur einnig unnið tvisvar og byrjaði einnig í Bifröst.

Bárður og Stephan Briem deildu 3. sæti með öðrum í sínum aldursflokkum. Íslenski hópurinn taldi tíu keppendur þar af fjóranýliðar. Allir sýndu góða takta, t.d. Ingvar Wu Skarphéðinsson sem tefldi á efsta borði í næstsíðustu umferð. Benedikt Briem átti eina skemmtilegustu fléttu mótsins sem spratt upp úr þessari stöðu í hinum sterka c-riðli:

NM ungmenna 2020; 2. umferð:

Oscar Veiergang ( Danmörk ) – Benedikt Briem

Benedikt lék nú …

35. … Rge3!

Vinnur ekki með bestu taflmennsku en er áhættunnar virði því að svartur getur ekki tapað.

36. fxe3 Rxe3 37. Dc7??

Liggur beint við en best var 37. De4! með hugmyndinni 37. … Rxc2+ 38. Kh1 og hvítur nær þráskák því að riddarinn á c2 er í uppnámi og einnig g6-peðið.

37. … Dd4! 38. Hf2?

Tapar strax. Fyrstu athuganir virtust benda til þess að hvítur gæti varist með árangri með 38. Hd2, t.d. 38. … Da1 39. He2! og vinnur. En svartur lumar á kynngimögnuðum leik, 38. … De4!

Nú dugar auðvitað ekki 39. Bxe4 vegna 39. … Hf1 mát en hótun svarts er jafnframt 39. … Dxg2+ 40. Hxg2 Hf1 mát. Hvítur getur reynt 39. Bh3 en þá kemur 39. … Rc4! 40. Hd1 De3+ 41. Kh1 Df3+ og hrókurinn á d1 fellur.

38. … Hxf2! 39. Kxf3 Rxd5+

– og hvítur gafst upp því að drottningin fellur.

Hannes efstur fyrir lokaumferðina í Prag

Hannes Hlífar Stefánsson hefur staðið sig með mikilli prýði í áskorendaflokki skákhátíðarinnar í Prag. Hann náði strax í upphafi forystu í mótinu en fyrir síðustu umferð sem fram fór í gær höfðu þrír komist upp við hlið hans og voru allir með 5 vinninga af átta mögulegum. Í síðustu umferð átti Hannes að tefla með svörtu við Hollendinginn Jorden Van Foreest.

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast Skák.is viku eftir birtingu í blaðinu sjálfu. Þessi þáttur er frá 22. febrúar 2020

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -