slandsmeistarar Piltarnir í Lindaskóla hlutu 31 vinning af 32 á Íslandsmóti grunnskóla í 1.-3. bekk. F.v. Birkir Hallmundarson, Sigurður Páll Guðnýjarson, Engilbert Viðar Eyþórsson og Arnar Freyr Orrason. — Morgunblaðið/Orri Freyr Oddsson

Á best skipaða Íslandsmóti kvenna fyrr og síðar sem hófst í Garðabæ á fimmtudaginn bar helst til tíðinda að Jóhanna Björg Jóhannsdóttir vann Guðlaugu Þorsteinsdóttur með tilþrifum í fyrstu umferð, en Guðlaug, sem er margfaldur Íslands- og Norðurlandameistari kvenna, er næststigahæsti keppandinn í flokknum á eftir Lenku Ptacnikovu, sem gerði jafntefli eftir harða baráttu í skák sinni við Tinnu Kristínu Finnbogadóttur. Sjö af átta þátttakendum tefldu á opna mótinu í Prag í síðasta mánuði. Önnur úrslit í 1. umferð urðu á þann veg að Lisseth Acevedo vann Hrund Hauksdóttur en Sigríður Björg og Sigurlaug gerðu jafntefli. Töfluröðin er þessi:

1. Jóhanna Björg Jóhannsdóttir 2. Tinna Kristín Finnbogadóttir 3. Sigríður Björg Helgadóttir 4. Lisseth Acevedo 5. Hrund Hauksdóttir 6. Sigurlaug Friðþjófsdóttir 7. Lenka Ptacnikova 8. Guðlaug Þorsteinsdóttir.

Skák Jóhönnu og Guðlaugar á fimmtudaginn gekk þannig fyrir sig:

Landsliðsflokkur kvenna 2020; 1. umferð:

Jóhanna Björg Jóhannsdóttir – Guðlaug Þorsteinsdóttir

Ítalskur leikur

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bc4 Bc5 4. c3 Rf6 5. d3 d6 6. Bb3 0-0 7. Rbd2 a5 8. 0-0 Ba7 9. He1 Re7 10. Rf1 Rg6 11. Rg3 c6 12. h3 h6 13. d4 Dc7 14. Dc2 a5 15. a4 Hb8 16. Be3 Bd7 17. Had1 Db7 18. Bc1 Hfe8

Í hefðbundnum ítölskum leik, kannski að leiknum 7. … a5 undanskildum, hefur Jóhanna byggt vel upp stöðu sína og stendur greinilega betur að vígi. Hér varð Guðlaug að leika 18. … c5 og halda þannig í horfinu þótt ekki sé leikurinn fagur.

19. Rf5! Dc7

Eða 19. … Bxf5 20. exf5 og síðan 21. dxe5.

– Sjá stöðumynd –

20. Rxd6! Dxd6 21. dxe5 De7 22. exf6 gxf6 23. Bxh6 Kh7 24. Be3 Bxe3 25. Hxe3 Hg8 26. e5! f5

Hvítur hefur teflt af miklum krafti og nú kemur lokahnykkurinn.

 

 

27. Bxf7! Hg7

Vitaskuld ekki 27. … Dxf7 28. Rg5+ og drottningin fellur.

28. e6

– og svartur gafst upp.

Dagur og Guðmundur efstir á Skákhátíð MótX

Dagur Ragnarsson og Guðmundur Kjartansson unnu skákir sínar í sjöundu umferð Skákhátíðar MótX sem fram fór á mánudagskvöld. Þeir hlutu báðir sex vinninga af sjö mögulegum. Dagur vann Ingvar Þ. Jóhannesson í lokaumferðinni og Guðmundur vann Halldór Grétar Einarsson. Dagur var úrskurðaður sigurvegari mótsins vegna betri stigatölu. Komst hann upp í 2.400 Elo-stig og þarf einungis einn áfanga að alþjóðlegum meistaratitli til að vera sæmdur þeim titli. Hjörvar Steinn Grétarsson varð einn í 3. sæti með 5 vinninga. Þá bætti Guðmundur stigatölu sína umtalsvert.

Í B-flokki urðu í efstu sætum Guðni Stefán Pétursson, Pétur Pálmi Harðarson og Jóhanna Björg Jóhannsdóttir. Þau hlutu öll 5½ vinning af sjö mögulegum en Guðni Stefán var með bestu stigatöluna og er því sigurvegari flokksins.

Í mótslok afhenti Viggó Hilmarsson verðlaun fyrir hönd MótX og bætti vel í miðað við það sem áður hafði verið boðað. Stuðningur fyrirtækisins við þetta mót í Stúkunni er mikils metinn af velunnurum skáklistarinnar í Kópavogi.

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast Skák.is viku eftir birtingu í blaðinu sjálfu. Þessi þáttur er frá 29. febrúar 2020

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -