Íslandsmeistararinn ásamt Sindra Guðjónssyni, formanni TG. Mynd: JHR

Lenka Ptacnikova sigraði í landsliðsflokki á Íslandsmóti kvenna sem lauk í Garðabæ í byrjun vikunnar. Lenka hlaut 6 vinninga af sjö mögulegum og var sigur hennar aldrei í hættu. Þetta er níunda árið í röð sem Lenka verður Íslandsmeistari en hún hefur unnið titilinn 12 sinnum.

Baráttan um 2. sætið var hörð en það setti strik í reikninginn að Sigurlaug Friðþjófsdóttir varð að hætta keppni vegna veikinda eftir þriðju umferð sem þýddi að úrslit hennar voru strikuð út af mótstöflunni. Lokaniðurstaðan varð þessi: 1. Lenka Ptacnikova 5 v. (af 6) 2. Lisseth Acevedo Mendez 4 v. 3. – 5. Hrund Hauksdóttir, Guðlaug Þorsteinsdóttir og Jóhanna Björg Jóhannsdóttir 3 v. 6. Tinna Kristín Finnbogadóttir 2½ v. 7. Sigríður Björg Helgadóttir ½ v.

Mótið var haldið við sérlega glæsilegar aðstæður í Sveinatungu í Garðabæ. Stefnt er að því að keppni í landsliðs- og áskorendaflokki Íslandsmótsins fari fram á sama stað og hefjist 28. mars. Skákmótahald á næstunni er þó í mikilli óvissu vegna kórónuveirunnar og stjórn SÍ hefur aflýst 35. Reykjavíkurskákmótinu og frestað seinni hluta Íslandsmóts skákfélaga fram á vor.

Gömul og vel gleymd afbrigði

Hyggjuvit reyndra skákmanna leiðir þá stundum á brautir gamalla og vel gleymdra afbrigða. Þetta rifjaðist upp fyrir mér um daginn þegar ég renndi yfir eftirfarandi skák Jóhanns Hjartarsonar gegn 18 ára gömlum Rúmena á einu sterkasta opna móti í heimi á Gíbraltar. Jóhann byrjaði vel og var með 4 vinninga af 5 mögulegum en lenti í smávegis mótbyr en að lokum hlaut hann 6 vinninga af 10 mögulegum og bætti ætlaðan árangur sinn en mótspyrnan var hörð.

Í skákinni sem hér fer á eftir valdi hann ítalska leikinn sem nýtur mikilla vinsælda nú um stundir en uppbygging hans minnti á leikaðferð sem Nigel Short beitti eitt sinn fyrir meira en 30 árum þegar hann tefldi við Viktor Kortsnoj. Samt fékk Jóhann lítið sem ekkert út úr byrjuninni en reyndist sleipari í miðtaflinu:

Gíbraltar 2020; 5. umferð:

Jóhann Hjartarson – Bogdan-Daniel Deac

Ítalski leikurinn

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bc4 Rf6 4. d3 Bc5 5. c3 d6 6. b4 Bb6 7. a4 a6 8. O-O O-O 9. Rbd2 Re7

Kortsnoj hafði sleppt því að leika d7-d6 og lék snemma d7-d5. Uppbygging hvíts er sú sama og hjá Short.

10. Bb3 Rg6 11. Rc4 Ba7 12. a5 Be6 13. Be3 Bxc4 14. Bxc4 c6 15. Bb3 d5 16. exd5 Bxe3 17. fxe3 cxd5 18. c4 e4 19. dxe4 dxc4 20. Bxc4 Rxe4 21. Db3 De7 22. Had1 Hac8 23. Rd4 Re5 24. Rf5 Dc7 25. Db2 Rf6 26. Bd5 Hcd8 27. e4 Kh8 28. h3 Hd7?

Ónákvæmni sem hvítur hefði getað notfært sér með því að leika 29. Bxb7! t.d. 29. … Rd3 30. Hxd3! Hxd3 31. Rxg7! með góðum færum. En Jóhann vildi halda stöðunni að mestu óbreyttri og lék…

29. Df2 Rg8 30. Dg3 g6 31. Hc1 Db8 32. Rd4 He8 33. Kh1 Dd6 34. Hc5 Rf6 35. Dc3 Kg7 36. Rc2 Hde7 37. Re3 h5

Svarta staðan er traust á yfirborðinu en það er erfitt að þróa hana frekar. Nú á hvítur tvo góða leiki.

38. b5!

Gott var einnig 38. Hd1 en þessi er enn betri.

38. … h4 39. b6 Hd7?

Hann varð að reyna 39. … Rh5! með óljósri stöðu.

40. Hc7! Hxc7 41. bxc7 Hc8

42. Hxf6! Dxf6

Eða 42. … Kxf6 43. Rg4+ og vinnur.

43. Bxb7 Hxc7 44. Dxc7 Rd3 45. Kh2!

– og svartur gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast Skák.is viku eftir birtingu í blaðinu sjálfu. Þessi þáttur er frá 7. mars 2020

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -