Fyrsti leikurinn Anatolí Karpov, fyrrverandi heimsmeistari, lék fyrsta leikinn fyrir Anish Giri. — Morgunblaðið/Heimasíða

Nú þegar viðburðum í hinum aðskiljanlegustu keppnisgreinum hefur verið frestað eða þeir verið slegnir af virðist Alþjóðaskáksambandið FIDE ekki láta útbreiðslu COVID-19-veirunnar trufla starfsemina og áskorendamótið hófst á tilsettum tíma í Yekaterinburg í Rússlandi á þriðjudaginn. Leitin að áskoranda Magnúsar Carlsen er þar með hafin en ef að líkum lætur mun heimsmeistaraeinvígið fara fram í haust þó að staðsetning liggi ekki fyrir.

Í Yekaterinburg tefla átta af sterkustu stórmeisturum heims tvöfalda umferð. Það hefur ýmislegt gengið á í mótinu og í aðdraganda þess. FIDE hafnaði málaleitan Teimour Radjabov um að mótinu yrði frestað og Aserinn dró sig þá úr keppni en Frakkinn Vachier-Lagrave kom í hans stað.

Á þessu móti mæta keppendur með það eina markmið að vinna mótið. Vissulega eru sumir sigurstranglegri en aðrir. Í gær var fyrsti frídagurinn en hart hefur verið barist í fyrstu þrem umferðunum og línur ekkert farnar að skýrast. Mesta athygli vakti að Liren Ding tapaði tveim fyrstu skákum en vann Caruana í 3. umferð. Giri tapaði í 1. umferð. Hann er frægur fyrir að hafa gert jafntefli í öllum skákum sínum í síðasta áskorendamóti. Staðan eftir þriðju umferð er þessi:

1.-3. Vachier-Lagrave, Nepomniachtchi, og Wang Hao 2 v. (af 3) 4.-5. Grischuk og Caruana 1½ v. 6.-8. Liren Ding, Giri og Alekseenko 1 v.

Vachier-Lagrave hefur lengi beðið eftir tækifæri til að tefla á vettvangi áskorendamótanna. Hann hefur margsinnis verið í hópi fimm stigahæstu skákmanna en örlaganornirnar hafa hvað eftir annað gripið í taumana og svipt hann tækifærinu. Þar til nú. Í 2. umferð nýtti hann þau færi sem gáfust með glæsilegri lokaatlögu sem minnti á Kasparov. Sá ágæti maður hélt mikið upp á leikbragð sem byggist á því að peði er leikið beint ofan í þrælvaldaðan reit:

Áskorendamótið í Yekaterinburg 2020:

Vachier Lagrave – Liren Ding

34. d6!

Ágætur leikur sem vinnur skákina hratt og örugglega. „Vélarnar“ eru fljótar að benda á annan peðsleik, 34. b7!, t.d. 34. … Bxb7 35. Hb1 Ba8 36. Ba5! Hc8 37. Re4+! Kxf5 38. Hb6 og svartur á enga haldgóða vörn við hótuninni 39. Hf6 mát.

34…. Hxd6 35. Hb1 Rd8

Eða 35…. Bb7 36. Re4+! Bxe4 37. dxe4 og svartur getur sig hvergi hrært. Hvítur leikur peðinu b7, leikur hróknum á a-línuna og biskupinum til d5 og vinnur án mikilla erfiðleika.

36. b7! Bxb7 37. Ba5!

– og svartur gafst upp.

Fabiano er stigahæsti keppandinn með 2.842 Elo-stig en einungis Liren Ding er einnig með meira en 2.800 Elo-stig. Telja verður Caruana býsna sigurstranglegan þrátt fyrir tapið í 3 umferð. Hann er með skothelt byrjanakerfi og á því fékk Alekseenko að kenna í 2. umferð:

Ákorendamótið í Yekaterinburg 2020:

Caruana – Alekseenko

Rússanum voru mislagðar hendur í byrjun tafls, varð að gefa mann fyrir þrjú peð og í þessari stöðu hótar hann 30…. Rf2+. Var hann að bjarga sér? En nú kom…

30. Rxh5+! gxh5 31. Bf5!

Hótar hróknum á c8 en þó fyrst og fremst riddaranum.

31…. Be7 32. Bxg4 hxg4 33. Dxg4+ Bg5 34. Dh5!

– Glæsilegt hliðarspor. 34. Dxg5+ hefði líka unnið en það hefði tekið sinn tíma. Svartur getur varið biskupinn með 34…. f6 en þá kemur 35. Rf5+! Kf8 36. Dh8+! Kf7 37. Dh7+! og mátar.

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast Skák.is viku eftir birtingu í blaðinu sjálfu. Þessi þáttur er frá 21. mars 2020

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -