Skáklíf landans er blómlegt þessa dagana þrátt fyrir samkomubann enda njóta skákmenn þjóðarinnar þeirra forréttinda að skák er hægt að tefla í netheimum – ekki bara í raunheimum.

Í dag hefst Norðurlandamót skákfélaga á internetinu. Það er Skáksamband Íslands í samvinnu við hin norrænu skáksamböndin og Chess.com sem stendur fyrir mótinu og er því ætlað að létta geð skákmanna, sem hlýða Víði, og ferðast innanhúss um páskana.

Alls eru 67 lið frá öllum Norðurlöndum skráð til leiks. Þar af eru 16 íslensk lið. Meðal keppenda eru tæplega 30 stórmeistarar og nánast allir sterkustu skákmenn þjóðarinnar. Má þar nefna stórmeistarana: Hjörvar Stein Grétarsson, Helga Ólafsson, Margeir Pétursson, Hannes Hlífar Stefánsson, Jóhann Hjartarson, Þröst Þórhallsson, Jón L. Árnason, Helga Áss Grétarsson og  Braga Þorfinnsson. Alls tefla um 140 íslenskir skákmenn á mótinu um páskana!

Hægt verður að fylgjast með skákveislunni á www.skak.is um páskana. Taflmennskan hefst kl 11 alla páskadagana. Hægt verður að fylgjast með einstökum skákum.

SSON hefur á að skipa stigahæsta liðinu. Í næstu tveim sætum eru Huginn og Víkingaklúbburinn. Sænska félagið Wasa er það fjórða stigahæsta. Taflfélag Reykjavíkur er fimmta í röðinni. Íslensk lið eru því líkleg til að vera í toppbaráttunni.

- Auglýsing -