Heiðursfélagi Ásdís Bragadóttir með viðurkenningu SÍ. — Morgunblaðið/Birna Halldórsdóttir

Alveg undir lok A-riðils Ólympíuskákmótsins í Leipzig í Austur-Þýsjalandi árið 1960 fór fram á 1. borði viðureign Bandaríkjanna og Argentínu milli hins 17 ára gamla Bobbys Fischer og Miguel Najdorfs. Það blés ekki byrlega fyrir Don Miguel eftir byrjunina og lengi mátti hann verja stöðu sem flestir töldu tapaða. Þegar skákin fór í bið eftir eitthvað í kringum 40 leiki breyttist það mat lítið. En Najdorf var slyngur í vörninni, fann margoft eina leikinn til að halda taflinu gangandi og þar kom að hann náði upp jafnteflisstöðu. En í stað þess að sætta sig við orðinn hlut rauk Bobby frá borðinu og hreytti í leiðinni úr sér ókvæðisorðum sem voru eitthvað að á þá leið að „karltuskan“ gæti fengið jafnteflið. Najdorf gat krafist vinnings en lét eftir fortölum bandaríska liðsstjórans og kvittaði fyrir jafntefli. En hann fór á eftir hinum unga andstæðingi sínum og sagði hátt og snjallt: „Þú munt ekki tefla í Argentínu í tíu ár.“

Og tíu árum síðar var Bobby Fischer kominn til Argentínu og tefldi á alþjóðlegu móti í Buenos Aires. Morgunblaðið greindi frá „Yfirburðum Fischers“ þann 7. ágúst 1970; að hann væri efstur með 10½ vinning af 11 mögulegum. Hann hlaut að lokum 15 vinninga af 17, 3½ vinningi fyrir ofan næsta mann og átti nokkra leiki sem enn í dag ylja skákunnendum um hjartaræturnar. En sovéska tímaritið „64“ fann þó galla í úrvinnslu hans þegar hann tefldi við téðan Najdorf í 7. umferð:

Buenos Aires 1970:

Miguel Najdorf – Bobby Fischer

Svartur lék nú 34. … f5 og eftir 35. exf6 Kf7 36. Bg5 náði Najdorf að bjarga jafntefli. Betra var 34. … d3! því að eftir 35. Hxc4 bxc4 36. Ke3 Re4! getur svartur leikið f-peðinu, kóngurinn sleppur út og svartur ætti að vinna.

En þessi maður var alltaf betri með biskupana og þá einkum þann hvítreita og í næstu umferð gerðist þetta í skákinni við aðra skákstjörnu Argentínu:

Bobby- Fischer – Oscar Panno

28. Be4!! De7

Skammgóður vermir en eftir 28. … dxe4 29. Rgxe4 kemst riddarinn inn til f6.

29. Rxh7! Rxh7 30. hxg6 fxg6 31. Bxg6 Rg5 32. Rh5 Rf3+ 33. Kg2 Rh4+ 34. Kg3 Rxg6 35. Rf6+! Kf7 36. Dh7+

– og svartur gafst upp.

Eða þetta leikbragð úr 4. umferð:

Bobby Fischer – Samuel Schweber

23. Hxe4! Dxg3

Ekki 23. … dxe4 24. Bf4 og drottningin fellur.

24. Hxd4! Dg4

Drottningin á engan betri reit. framhaldið varð…

25. Hxg4 Bxg4 26. Bxg6 Hh8 27. Bh7! Hh8 28. Bd3 Hde8 29. f7 He7 30. f7 He7 31. f8(D)+! Hxf8 32. Bb4

– og hvítur vann skiptamun til baka og með peði meira vann hann auðveldlega eftir 47 leiki.

Ásdís Bragadóttir heiðursfélagi SÍ

Á aðalfundi Skáksambands Íslands sl. laugardag var Ásdís Bragadóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri SÍ, útnefnd heiðursfélagi Skáksambandsins. Hún er fyrsta konan sem hlýtur þessa nafnbót og var vel að henni komin því að á 32 ára tímabili, frá 1987 til 2019, stjórnaði hún skrifstofu skáksambandsins af mikilli röggsemi. Á aðalfundinn mættu sex fyrrverandi og núverandi forseti SÍ og vildu með nærveru sinni votta Ásdísi þakklæti sitt fyrir störf sín. Aðalfundurinn var einn sá best sótti í manna minnum en þar var samþykkt breyting á keppnisfyrirkomulagi Íslandsmóts skákfélaga.

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast Skák.is viku eftir birtingu í blaðinu sjálfu. Þessi þáttur er frá 20. júní 2020. 

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -