Efstu menn Guðmundur Kjartansson og Vignir Vatnar þungt hugsi í námunda við brjóstmynd Friðriks Ólafssonar. — Morgunblaðið/TR

Brim-mót Taflfélags Reykjavíkur, sem haldið var um síðustu helgi og er hluti mótaraðar sem TR stendur fyrir, er fyrsta opinbera mótið sem haldið er hér á landi eftir að COVID-faraldurinn brast á. Þó að taflmennska á netinu hafi verið grimmt stunduð og sé góð dægrastytting kemur ekkert í stað hefðbundinnar taflmennsku. Því var þetta mótahald kærkomið. Hinn ungi TR-ingur Gauti Páll Jónsson bar hitann og þungann af framkvæmdinni en Brim, fyrir tilstilli Ægis Páls Friðbertssonar, styður mótaröðina.

Hinn 17 ára gamli Vignir Vatnar Stefánsson sigraði, en það gekk á ýmsu. Fyrirkomulagið var þannig að fyrst voru tefldar fjórar atskákir og síðan þrjár kappskákir. Efstu menn urðu: 1. Vignir Vatnar Stefánsson 6 v. (af 7). 2.-3. Davíð Kjartansson og Guðmundur Kjartansson 5½ vinning. 4.-8. Héðinn Steingrímsson, Lenka Ptacnikova, Jóhann Ragnarsson, Alexander Oliver Mai og Elvar Már Sigurðsson 5 v. Keppendur voru 40 talsins.

Þriðja mótið í syrpu Magnúsar

Þar sem ekkert liggur enn fyrir um það hvenær hefðbundin skákmót geta hafist aftur úti í hinum stóra heimi verða skákunnendur að láta sér lynda baráttuna á netinu og þriðja mótið í syrpu þeirri sem kennd er við heimsmeistarann Magnús Carlsen, að þessu sinni kostað af vefsíðunni Chess.24 og heitir Chessable masters, er komið vel áleiðis þótt keppnisfyrirkomulagið virki flókið. Í vikunni var fyrst teflt í tveimur sex manna riðlum þar sem barist var um fjögur sæti í úrslitakeppni sem hófst á fimmtudaginn. Átta skákmenn, Nakamura, Nepomniachtchi, Caruana, Ding, Artemiev, Giri og Grischuk, auk Magnúsar, komust áfram og tefla með útsláttarfyrirkomulagi. Í fyrstu umferð mættust Magnús Carlsen og Fabiano Caruana. Það liggur fyrir að Norðmaðurinn er fremri í skákum með styttri umhugsunartíma en keppnin samanstendur af þremur þriggja skáka einvígjum. Magnús vann fyrstu hrinu 2½:½. Það var athyglisvert að fylgjast með fyrstu skák þeirra en Caruana reyndi þá að tefla áður sjaldséð afbrigði drottningarbragðs sem Magnús gerði sjálfur vinsælt í skákum með styttri umhugsunartíma.

Magnús Carlsen – Fabiano Caruana

Drottningarbragð

1. d4 Rf6 2. c4 e6 3. Rf3 d5 4. Rc3 a6 5. cxd5 exd5 6. Bg5 Be6 7. e3 Rbd7 8. h3 Bd6 9. Bd3 c6 10. Bf4 Dc7 11. Bxd6 Dxd6 12. 0-0 0-0 13. Db3 Hab8 14. a4 Hfe8

Til greina kom að laga peðastöðuna með 14. … a5.

15. Da3 Dc7

Eftir drottningauppskipti fengi hvítur alltaf eitthvert smáspil á drottningarvæng.

16. Hfc1 Rb6 17. b4 Ha8 18. a5 Rc8

19. b5!

„Minnihlutaárásin“ hefur oft reynst svarti þung í skauti í svipuðum stöðum.

19. … axb5 20. Rxb5 Dd8 21. Rc3 Rd6 22. Db4 De7 23. a6 bxa6 24. Hxa6 Hxa6 25. Bxa6 Ha8 26. Bf1 Rc8 27. Db2 Rd7 28. Re2 Hb8 29. Dc3 Hb6 30. Da5 Dd6 31. Rf4 Re7 32. Rxe6 fxe6 33. Re5!

Erfiður leikur fyrir svartan, sem á fullt í fangi með c6-veikleikann og hrókinn á b6.

33. … Hb8 34. Da7 Rxe5 35. dxe5 Dd8 36. Be2 Kh8 37. Bg4 Rg6 38. f4 Ha8 39. Dc5!

Svartur tapar peði og eftirleikurinn er auðveldur.

39. … De8 40. Dxc6 Dxc6 41. Hxc6 d4 42. exd4 Rxf4 43. g3 Rd3 44. Bxe6 Ha1 45. Kg2 g6 46. Bc4 Rb4 47. Hc8 Kg7 48. d5

– og Caruana gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast Skák.is viku eftir birtingu í blaðinu sjálfu. Þessi þáttur er frá 27. júní 2020. 

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -